09.03.1942
Neðri deild: 15. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (404)

23. mál, skipti Laxárdals og Ymjabergs og 3/4 hlutum Stóru-Sandvíkur

*Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Hv. þm. Dal. hefur óskað eftir frekari upplýsingum en grg. frv. veitir og sérstaklega um það, hvort ábúendum jarðanna, sem um ræðir, muni hafa verið gefinn formlega kostur á að neyta, að mér skildist, forkaupsréttar síns. Svo mun ekki vera, og er rétt, að það verði gert. Ábúendur jarðanna vestra ættu, samkvæmt venju, að hafa þar lífstíðarábúð, þótt ég hafi ekki enn getað fengið beinar heimildir um, að þeir hafi hana. Um ekkjuna, sem býr í Stóru-Sandvík, veit ég, að hún hefur hana, enda munu menn ekki óttast, að hið opinbera verði þar verri landsdrottinn en einkaeigendur gætu orðið. Samkvæmt ákvörðun Alþingis fyrir nokkrum árum getur ekki verið að ræða um eiginlega sölu kirkjujarða nema til að gera úr þeim óðul, og veit ég ekki líkur til þess, að fyrir því sé nú mjög mikill áhugi hjá ábúendum þessara jarða vestra. Hitt er ljóst af grg., að hér er ekki um beina sölu að ræða, þótt skipti séu gerð. Að sjálfsögðu er hægt að tryggja það við skiptin, að hlutur ábúenda verði ekki fyrir borð borinn. Í grg. er sagt, hvers vegna skiptanna er óskað, og sýnt er, að ekki gengur þeim manni gróðavon til, sem óskar þeirra. Hann hefur á sumrin verið þarna vestra og vill geta tryggt sér þar verustað og finnst það öruggara, ef hann fengi þessar jarðir til eignar. Það kann að vera, að menn leggi nokkuð upp úr því, að með frv., eins og það er, sé gengið á snið við ábúendurna, og er sjálfsagt, að n. grennslist eftir vilja þeirra. Jarðirnar Ymjaberg og Laxárdalur eru fjallakot, mjög engjarýr, og tún annarrar þeirrar er örðugt að stækka. Á almennan mælikvarða eru það harðbalakot, sem takmörkuð framtíðarskilyrði eiga. Veiðihlunnindi þeirra eru ekki talin fram í jarðamati, svo að mikil geta þau varla verið, þótt einhver fiskiganga muni vera í Laxá. Þar er því ekki fyrir miklu að gangast eins og er. Ég treysti mér ekki til að segja um, hvort unnt reynist að auka veiðina. En hvað sem líður skilyrðum til þess, er það ógert enn, og með því verður að reikna, sem er. Um Stóru-Sandvík er hins vegar vitað, að þar er töluverð laxveiði, og með þeirri starfsemi, sem hafin er til laxræktar í Árnessýslu, vona ég, að veiði jarðarinnar geti síðar orðið allmikils virði.

Þeir, sem vita ekki annað um þetta mál en grg. tekur fram, verða að vísu að mynda sér skoðun á því eftir hinum takmörkuðu upplýsingum. En ég get bætt því við, að ég hef lengi þekkt þann mann, sem skiptanna óskar, að þeim drengskap. að ég veit, að ábúendur mundu einskis í missa við að fá hann að landsdrottni í stað hins opinbera, og heldur mundi hann verða þeim vel en hitt og stuðla að öllum þrifnaði þeirra.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn., og vona að n. verði málinu vinveitt og kynni sér þar ástæður, sem til þess liggja.