27.04.1942
Neðri deild: 42. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Sigurður Kristjánsson:

Ég átti brtt. á þskj. 73 við 2. umr. þessa máls, en tók þær aftur til þessarar umr. með það fyrir augum, að nefnd sú, sem með málið hefur að gera, tæki þær til athugunar. Nú hefur hv. frsm. n. lýst því yfir, að n. hafi ekki getað fallizt á að taka þessar till. til greina. Ég skal þá jafnframt lýsa yfir, að till. tek ég ekki aftur, heldur læt ég þær koma undir atkv., og mun ég greiða atkv. á móti frv., ef till. mínar verða felldar.

N. hefur gert nokkrar brtt. við frv., síðan það var hér síðast, og ég skal ekki lasta það. En mér fannst það merkilegt um hv. meiri hl. n., að hann vildi gleypa þetta alveg hrátt, og sá ekkert sem hægt væri að breyta til batnaður í slíku flausturverki sem þessi brbl. þó eru. Nú hefur hv. meiri hl. n. — komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að breyta ýmsum ákvæðum l., en ég vil nú telja, að það sé mjög mikið vafamál, hvort sumar þessar breyt. séu til hins betra. Án þess ég ætli að rekja þessar brtt., það hefur hv. frsm. gert, þá ætla ég að minnast hér sérstaklega á 2 atriði þeirra.

Hv. meiri hl. n. leggur til, að 5. gr. frv., sem nú á að verða 7. gr., verði breytt þannig, að þar verði felld burtu ákvæðin um að binda verðlag á nauðsynjavörum við það, sem það var í árslok 1941. Þetta er alveg það sama og ég hef farið fram á í einni af mínum till. Hins vegar vill n. láta standa óbreytt ákvæðið um kaup og kjör, en það vildi ég, að fellt yrði niður líka. Aðaluppistaðan í brbl. er að banna hækkun á verðlagi og grunnkaupi, en það er að mínu áliti hlutur, sem ekki er hægt að banna, eins og ég skal koma að síðar. En ég held, að menn hljóti að sjá, að það er allmikið ósamræmi í þessu hjá hv. n., að fella niður fyrir skipunina um að halda verðlagi nauðsynjavara niðri í því, sem það var í árslok 1941, en láta það standa óbreytt, að því er snertir kaupgjaldið. Þó tel ég þetta spor í rétta átt, af því að það er leiðrétting á því, sem ég álít vansmíð á brbl. Hins vegar hefur hv. n. gert till. um það, að fellt verði burtu ákvæðið um, að ríkisstj. láti semja skrá yfir nauðsynjavörur og sú skrá verði svo til meðferðar hjá gerðardómnum. Þetta á að vera óbundið, en ég held, að ómögulegt sé að ætlast til þess, að gerðardómurinn fari að taka fyrir allar vörutegundir, sem seldar eru innan lands, bæði innlendar og útlendar vörur. Það þarf að fara fram eitthvert undirbúningsverk, ef hann á að komast yfir það.

Mig furðar mjög á því, fyrst hv. frsm. meiri hl. viðurkenndi, að brtt. mín um það, að þessi dómur yrði skipaður allur af hæstarétti, væri rétt, að hann og hv. meðnm. hans skyldu þá ekki sjá ástæðu til að taka þessa till. til greina. Mér skilst á hv. frsm. meiri hl., að þetta hafi verið gert vegna þess, að búið var að gera axarskaftið áður, og þá hafi nefndarmeirihl. þótt það harkalegt að fara að setja þannig óbeinlínis ofan í við ríkisstj. með því að fara að breyta þessu atriði. (BJ: Þetta er misskilningur. Það var engin ástæða til að ætla, að það bætti nokkuð). Það getur vel verið. Þessi hv. þm., er nú dómari. En ég held, að dómurum sé yfirleitt ljóst, að almenningur, sem á að hlíta úrskurðum þeirra, leggur mjög mikið upp úr því, hvort sá, sem úrskurð fellir, er óvilhallur. En það er ekki hægt að segja, þegar dómur er settur í ágreiningsmáli, að maður geti átt tryggingu fyrir óhlutdrægum úrskurði, ef annar aðalinn á að ráða öllum dómendunum. Og nú er það svo, að ríkisvaldið er hér að setja dóm, til þess að vernda hagsmuni, sem það telur hagsmuni ríkisins, gagnvart almenningi. Það er því alger hugsunarvilla að halda því fram, að það hafi enga þýðingu. (BJ: Hagsmunir ríkisins og þegnanna fara saman.) Það er alveg rétt. En að þeim, sem á að þola dóm, sé sama, hvort farið er rétt eða rangt með mál, að þeim sé það einskis virði, það er hlutur, sem ég hef aðra skoðun á en hv. frsm. meiri hl. Ef menn eiga að fá frið og sátt í þjóðfélaginu um einhver mál, þá er óþarft að vera að gera sérstakar ráðstafanir til þess að erta menn og vekja hjá þeim tortryggni. N. gat því ósköp vel tekið það upp, fyrst henni þótti það betra fyrirkomulag.

Það er ekki hægt að komast hjá því í sambandi við þessa lagasetningu að minnast enn á það, hversu mikla þýðingu það hefur, hvort slíkar ráðstafanir ná þeim tilgangi,. sem til var ætlazt. Hæstv. fjmrh. sagði rétt áðan, að það væri óleyst spurning, hvort þetta næði tilgangi sínum, og það yrði að gera tilraun til þess að fá úr því skorið. En líkur geta verið ákaflega sterkar, og ég held, að ákaflega sterkar líkur séu fyrir því, að einmitt þessi löggjöf nái ekki tilgangi sínum. Maður verður, eins og hæstv. ráðh. sagði, fyrst að gera sér grein fyrir orsökum hlutanna. Það er alveg víst, að orsök dýrtíðarinnar er hækkun verðlags. Og það er líka víst, að orsök hækkunar á verðlagi og vinnuafli er sú, að það hefur verið skortur á hvoru tveggja. Nú er og hefur lengi verið hér vöruskortur, og það er fyrsta ástæðan til dýrtíðarinnar. Nú er orðin hér mikil vinnuekla, og það er náttúrlega ein aðalorsök þess, að kaupgjald hækkar. Er nokkur leið til þess að koma í veg fyrir þetta? Að því er ég bezt veit var a.m.k. engin tilraun gerð af hálfu ríkisstj. til að koma í veg fyrir vöruskort, eins og ég tók fram við 2. umr. Vitanlega voru um þetta skiptar skoðanir í ríkisstj., þar sem sumir ráðh. vildu gera ráðstafanir til þess, að sem mest yrði flutt inn af vörum, en þeir fengu þessu ekki ráðið. Meiri hl. ráðh. var með því að halda uppi vöruskorti og leggja með því grundvöllinn að þeirri dýrtíð, sem nú er í landinu.

Það er talað um, að enginn grundvöllur hafi verið undir því að ráða verðlagi í landinu. Ég veit ekki betur en verið hafi lengi til grundvöllur undir ráðstafanir til þess að ákveða verðlag. Það er vitað, að ríkisstj. hefur fyrir löngu fengið heimild til að ákveða verðlag á innfluttum vörum og iðnaðarvörum, og enn fremur hafa sérstakar verðlagsnefndir sama vald yfir kjöt- og mjólkurframleiðendum. En á þessu hefur verið tekið vettlingatökum. Það má nefna smádæmi um þetta. Ég get nefnt dæmið, þegar fyrir atbeina ríkisstj. var flutt inn smjör frá Ameríku. Það var ekki notað til þess að minnka dýrtíðina. Nei, það var selt sama verði og íslenzka smjörið. Þó kostaði það ekki nema 80 cents, eða um kr. 5.30. Þar sem ríkisstj. kom því við, hélt hún sér dyggilega við þá reglu að hafa dýrtíðina sem mesta. Það er vitað mál, að það er ekki eingöngu framleiðslukostnaðurinn, sem ræður verðlaginu, heldur er það, eins og ég sagði áðan, eftirspurnin og vöruskorturinn.

Ég viðurkenni fullkomlega, að mikil nauðsyn sé á því að halda niðri dýrtíðinni, þó að menn geti deilt um, hvaða aðferðir skuli til þess hafðar. Ég er viss um, að þessa löggjöf átti aldrei að setja. Ég er sannfærður um, að hægt hefði verið að ná samkomulagi, sem hefði getað orðið miklu farsælla. Það eina, sem hefði getað komið að haldi, er samkomulag. Menn verða að skilja hvaða orsakir valda því, að menn krefjast hærra kaups en áður. Það var einu sinni viðkvæðið, að menn yrðu að hafa þurftarlaun. Þessa kröfu var ekki hægt að uppfylla, meðan menn áttu við atvinnuleysi að búa. En svo koma þeir tímar, að fólk álítur, að það eigi að hafa meira en þurftarlaun, það er þegar stríðsgróðinn svellur yfir þjóðina. Þegar fólkið sér, að menn eru að græða, þá segir það sem svo: Af hverju má ég ekki verða efnaður maður, eins og aðrir? Hef ég unnið minna til þess en aðrir? Eða er það nokkur þjóðfélagsógæfa, þó að verkamaður eða sveitamaður verði efnaður? Það er ómögulegt að svara þessu öðruvísi en að það sé engin ógæfa. Og þá er bara að finna til þess ráð, að það leiði ekki til ófarnaðar. En það verður ekki gert nema með því, að fullur skilningur ríki um það, hvaða hætta er hér á ferðum. Það þýðir ekkert fyrir menn, þótt það séu valdamenn í ríkisstj., að fara að beita neinum hörkubrögðum. Þetta verður að leysast með skynsemi og sanngirni. Og þegar settur er dómur um einhver mál, þá ber að tryggja, eftir því sem kostur er á, að úrskurður sé óvilhallur. Það þarf að skapa á honum traust, að hver dómari geri það, sem samvizkan býður honum, það, sem hann álítur rétt. Dómurinn á því að vera skipaður af því valdi, sem mest traust er borið til og er utan við allar pólitískar stefnur, en bað er hæstiréttur. Og ef mín till. í þessu efni verður ekki samþ., þá greiði ég Atkv. á móti frv. Sama er að segja um það, að grunnkaup megi ekki hækka frá því sem það var í árslok 1941. Það þýðir ekki neitt.

Það er óþarft að endurtaka það, að atvinnuvegirnir bíða eftir að fá vinnuafl. Dettur mönnum í hug, að það þýði að banna bændum að bjóða það kaup, sem þeir þurfa, til þess að geta fengið kaupamenn? Það þýðir ekkert. Þeir fara ekki eftir neinu lagaboði um það. Og alveg eins er það með alla, sem þurfa að láta vinna eitthvert verk fyrir sig. Þeir fá þann vinnukraft, sem þarf til þess að vinna verkið. Eins hefur líka nefndin komizt að þeirri niðurstöðu, að það þýði ekki að banna mönnum að hækka vöruverð frá því sem það var í árslok 1941, því að ef það kemur maður og biður um vöruna og vill borga fyrir hana meira en hún kostaði í árslok 1941, þá takast samningar milli þessara manna. Það er alltaf hægt að fara í kringum það.

Ég sé ekki ástæðu til að fara nánar út í þetta mál, því að sennilega verður mönnum ekki mikið þokað úr því sem komið er. En ég vil að lokum benda á það, að ef löggjöf á að standa um þetta efni, þá á náttúrlega að greina milli þess, sem á að vera varanleg löggjöf, og hins, sem aðeins er miðað við styrjöldina. Það var það, sem ég gerði með brtt. mínum, en hv. allshn. hefur sennilega ekki viljað fallast á það.