27.04.1942
Neðri deild: 42. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Einar Olgeirsson:

Það eru nokkur orð til hæstv. fjmrh. út af framleiðslukostnaðinum. Hann segir, að það skapist af vinnulaunum plús efni og öðru. sem til framleiðslunnar þarf. Ég býst við, að það, sem hann á hér fyrst og fremst við með framleiðslukostnaðinum, sé vöruverði. En inn í vöruverðið kemur ekki aðeins vinnulaun, efni og annað þess háttar, heldur líka gróði atvinnurekandans. Hann segir, að það þurfi að halda framleiðslukostnaðinum niðri. Ég vil orða það þannig, að það þurfi að halda vöruverðinu niðri. Við skulum nú athuga, hvort þar er hægt, og það er hægt, þótt vinnulaun hækki. Það er til sá möguleiki, sem ég held, að hæstv. stj. hafi alveg gengið fram hjá. Það er hægt með því að minnka gróða framleiðendanna.

Við skulum nú athuga eitt atriði í þessu máli. sem átti mikinn þátt í, að stj. gaf út þessi brbl., en það eru kaupkröfur járnsmiðanna. Ég skal ekki segja, hvort slík hækkun hefði orðið til þess að hækka verð á viðgerðum og smiði hjá járnsmiðjunum, enda getum við leitt það hjá okkur. Spurningin er bara þessi: Var hægt að verða við kröfum járnsmiðanna, án þess að smíða- og viðgerðakostnaður hækkaði hjá járnsmiðjunum? Hækkunin, sem járnsmiðir fóru fram á, mundi hafa numið um 150 þús. kr. á ári. Gróði smiðjanna mun vera upp undir 3 millj. kr. á ári, svo að það er alveg hægt að verða við þessum kröfum um hækkun um 20%, án þess að hækka vöruverðið nokkuð, ef það er látið ganga út yfir gróðann á viðkomandi vörum, og þegar gróðinn er kannske 3 millj., þá er auðséð, hvort það er ekki hægt. Alveg það sama lýst ég við að sé hjá prenturum. Og þetta er það spursmál, sem liggur fyrir um allt okkar atvinnulíf. Það er hægt að verða við kröfum um hækkað kaup, án þess að vöruverðið hækki, svo framarlega sem það er látið ganga út yfir atvinnurekendurna. Spursmálið er: Út yfir hvaða atvinnurekstur á að láta það ganga? Alþ. hefur það í sínum höndum. Alþ. hefur möguleika til að skipta þjóðartekjunum á þennan hátt, ef það er þeirrar skoðunar, ef það álítur, að rétt sé, að verkalýðurinn fái hærri laun og ef þingið er þeirrar skoðunar, að gróði atvinnurekendanna megi minnka. Hækkun kaupgjalds þýðir ekki endilega meiri dýrtíð. Það er hægt að komast hjá því, ef gróðinn er tekinn af atvinnurekendunum að sama skapi og kaupið er hækkað.

Nú er rétt að geta þess, að meðal atvinnurekenda eru hins vegar fjölda margir avinnurekendur, sem ekki gætu borið slíkt, en það er hægt að bæta hag þeirra á kostnað þeirra stærstu, t.d. á kostnað stórútgerðarauðvaldsins.

Hæstv. fjmrh. segir, að uppskrúfað kaupgjald svo engin lækning. Það er lækning á einu. Það er lækning á fátækt verkalýðsins, svo framarlega sem það er hindrað, að dýrtíð fari vaxandi.

Ég vil nú spyrja: Hefði 20% hækkun á launum alls verkalýðs verið framkvæmanleg, án þess að dýrtíð hefði aukizt? Nú stóð það ekki til, þegar þessi l. voru gefin út, heldur voru það aðeins 5–600 menn hér í Reykjavík, sem heimtuðu hækkun. Það hefur verið óskað eftir því í sambandi við umr. um skattamálin, að hæstv. stj. léti fara fram hagfræðilega athugun á því, hvernig þjóðartekjurnar skiptust sem stendur. Það hefur verið gert einu sinni, fyrir 8 árum, af hinni svonefndu Rauðku. Síðan hefur slíkt ekki verið gert. Þegar verið er að taka stórvægilegar ákvarðanir um skiptingu þjóðarteknanna, eins og. nú er verið að gera, hefðu átt að liggja fyrir þessar skýrslur til að byggja á. Þó að ekki hefði verið nema fyrir árið 1940, þá hefði það strax verið til mikils góðs. Ef gengið er út frá, að árið 1941 hafi heildartekjur þjóðarinnar verið 350 millj. kr., þá efast ég um, að tekjur verkalýðsins hafi verið yfir 100 millj. Og þá er ég viss um, að 20% hækkun á launum hans hefði verið framkvæmanleg, án þess að dýrtíð hefði aukizt. Það hefði orðið með I. að afstýra því, að bændur hefðu orðið að hækka vöru sína. Ég benti fyrir einu ári á leið til þess. Þegar gerðardómnum var skellt á, var alls ekki um slíkar kaupkröfur að ræða, það mun aðeins hafa verið um að ræða 1/2 millj. kr. hækkun, en ekki 20 millj. En jafnvel 20% eða 20 millj. kr. hækkun hefði verið framkvæmanleg, án þess að dýrtíð hefði aukizt, ef það hefði verið látið ganga út yfir gróða stórútgerðarinnar, sem mun hafa numið um 30 millj. kr. nú á einu ári af þessum 30 togurum. Af þessu fer að vísu meiri parturinn í skatta, en ríkið, sem tekur þá, hefur líka um 17 millj. kr. tekjuafgang fyrir s.l. ár. Ég benti áðan á, að gróði járnsmiðjanna hefði verið um 3 millj., og þó að sá atvinnurekstur hafi orðið að bera allmikla skatta, þá efast ég ekki um, að ef þan hefði verið athugað, þá hefði komið í ljós, að unnt hefði verið að hækka laun alls verkalýðs um 20% eða 20 millj. Það, sem hér er um að ræða, er því hörð stéttabarátta, sem verður útkljáð eftir því, hvor stéttin er sterkari, og hæstv. ríkisstj. hefur nú gengið í lið með atvinnustéttinni, eða réttara sagt nokkrum hluta hennar, þeim, sem mestan gróða hefur, þeim. sem ræður nú yfir stríðsgróðanum. En jafnvel þó að um það hefði verið að ræða að afnema stríðsgróðann, þá hefði það líka verið réttlætanleg krafa af hálfu verkalýðsins, krafa, sem nú er allt að því verið að framkvæma af þeim þjóðum, sem hvað eftir annað er verið að vitna til í sambandi við þennan gerðardóm. Þeir vitna til Bandaríkjanna, og er þá rétt að benda á það, að þar mun hafa átt sér stað 25% kauphækkun hjá öllum verkalýð, en vöruverð mun ekki hafa hækkað nema um 6%.

Það er því ekki rétt, að ekki hafi verið best á aðferðir til að halda niðri dýrtíð, þó að kaupgjald hækkaði. Hitt er annað mál. Undir því er komið, hvernig fer, hvor aðilinn er sterkari. Það, sem ég hef verið að sýna fram á, er það, að sú stétt, togaraeigendastéttin, sem í raun og veru hefur fengið sina hagsmuni fram knúða með þessum l., hún er að koma atvinnulífinu í algert öngþveiti með því að knýja þetta fram. Það er hægt að leysa þetta mál með því að hækka laun verkalýðsins og láta það ganga út yfir gróða þessarar stéttar. Þessi barátta er því eðlilega stéttabarátta, en þarf ekki að snerta hitt, hvort dýrtíð eykst. Þess vegna er það, að þegar við ræðum þetta mál, þá er hægt að taka þetta atriði eitt út úr, kaupkröfur verkalýðsins. og ég hef nú sýnt fram á, að hægt er að verða við þeim, án þess að dýrtíð aukist þar með.