27.04.1942
Neðri deild: 42. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Frsm. minni hl. (Finnur Jónsson):

Hæstv. fjmrh. hefur nú brugðið út af þeirri venju stj. að þegja við þessa umr., en hefur gert frv. nokkuð að umræðuefni.

Það, sem mér hefur mest þótt einkenna ræður hans, er það vonleysi, sem fram kom hjá honum yfir, að þetta frv. næði tilgangi sínum. Það kom berlega í ljós í ræðu hæstv. ráðh., að hann er í rauninni vonlaus um, að frv. nái nokkru af þeim tilgangi, sem stj. ætlast til.

Hæstv. ráðh. hefur sérstaklega talað um dýrtíðina og dýrtíðarráðstafanir, en ekki farið neitt inn á að ræða kaupgjald og framkvæmd hins svonefnda gerðardóms. Ég hef gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá stj. til að svara tveimur fyrirspurnum í sambandi við kaupgjald og leitaðist eftir því við hv. frsm., hvort hann vildi ekki svara þessum tveimur fyrirspurnum, an hann hefur skotið sér undan því. En fyrst hæstv. fjmrh. hefur nú látið svo lítið að taka til máls við þessa umr., þá langar mig til að freista þess, hvort hann vilt ekki gera tilraun til að svara þessum fyrirspurnum mínum, fyrst hvorki neinn annar ráðh. né hv. frsm. meiri hl, hefur treyst sér til að gera það. Fyrri fyrirspurnin var, hvort hæstv. stj. væri ekki fullkunnugt um, að þessi löggjöf væri þegar brotin víða um land, bæði af því opinbera sem öðrum, og sérstaklega væri hún brotin við ýmsa vinnu í Reykjavík og hlyti að verða brotin á hverju heimili í landinu, sem þyrfti á kaupafólki að halda. Hin fyrirspurnin var um það, hvort hæstv. stj. líti svo á, að gerðardómurinn ætti að lagfæra, annaðhvort fyrir annarra tilstilli eða eigin tilstilli, grunnkaup hjá þeim, sem hafa lægst grunnkaup. Benti ég í því sambandi á 2000 verkamenn, sem hafa grunnkaup kr. 1.20 og lægra og hér af 1000 verkamenn, sem hafa í grunnkaup kr. 1.10 eða lægra. Ég vil fá að vita, hvort það er meiningin, að gerðardómurinn ætli að lagfæra grunnkaup þessara manna til samræmis við grunnkaup annarra, sem hafa hærra kaup. Mér þykir mikið undir því komið, af því að þarna eiga hlut að máli mjög margir fátækir menn; sem hafa heldur litla vinnu, að fá úr því skorið, hvort þetta er meiningin. Ég ber það traust til hv. fjmrh., úr því að hann fór að brjóta þá reglu hæstv. stj. að þegja við þessa umr., að hann reyni að svara þessum fyrirspurnum.

Höfuðvillan í dýrtíðarlöggjöf hæstv. stj., eins og hún kom fram í þessum brbl., er frá mínum bæjardyrum séð, að hæstv. stj. réðst gegn kaupgjaldinu, en ekki gegn dýrtíðinni. Hæstv. fjmrh. hefur blandað þessu tvennu nokkuð saman. Hann virðist halda því fram, að dýrtíð geti ekki vaxið nema kaupgjald vaxi. Nú er kaupgjald tvenns konar, grunnkaup og dýrtíðaruppbót, en hækkun á dýrtíðaruppbótinni er engin kauphækkun, og verkamaðurinn ber ekki meira úr býtum, þó að dýrtíðin vaxi og hann fái hærri dýrtíðaruppbót meðan hann fær enga grunnkaupshækkun. Getur það því ekki haft áhrif á kjör verkamanna til bóta, þó dýrtíðaruppbót hækkaði árið 1941, fyrst engin grunnkaupshækkun fór fram í landinu og kaupgjald allt stóð í stað. Aftur hækkaði dýrtíðin ákaflega ört, og hæstv. fjmrh. má vera það ljóst, að frá því 1. júlí 1941 til 31. des. þ. á., hækkaði dýrtíðin úr 57% upp í 83%, og á þeim tíma stóð grunnkaup alveg í stað. Þess vegna eru það ekki grunnkaupshækkanir, sem hafa verið orsök dýrtíðarinnar, og ætla ég því ekki, að hæstv. fjmrh. reyni að færa nein rök fyrir því. Það liggja allt aðrar ástæður til dýrtíðar innar, ástæður, sem stj. gat ráðið talsvert yfir með þeirri löggjöf, sem hún hafði frá Alþ. frá 8. júní í fyrra. Það er vitað, að stj. hafði heimild til þess að nota 5 millj. kr. til þess að halda niðri dýrtíðinni í landinu. Það er og vitað, að hún hafði heimild til þess að lækka tolla og til þess að taka ekki hærri tolla af flutningsgjöldum en þeir voru, fyrir stríð, og það er vitað, að ekkert af þessu gerði hún. Ég er búinn að taka það fram oftar en einu sinni, að stj. gat, með því að nota þá heimild, sem hún hafði, til þess að hækka tekju- og eignarskatt, og með því að leggja útflutningsgjald á togarafisk, fengið 10 millj. kr. til þess að gera nokkra tilraun til þess að halda niðri dýrtíðinni. Það var vilji Alþ., að þetta yrði gert, en stj. gerði ekkert af því. Mér og mínum flokksmönnum var það ljóst, að það mundi að lokum reka upp á sker, ef slíku færi fram. Þess vegna höfum við lagt fram hér á Alþ. tvö mjög raunhæf dýrtíðarfrv., annað er frv. um ráðstafanir vegna dýrtíðarinnar á þskj.,

17, hitt er frv. um breyt. á l. um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi. Bæði þessi frv. miða að því að gripa fyrir rætur dýrtíðarmeinsins og ráðast á sjálfa dýrtíðina, en ekki á kaupgjaldið, eins og stj. hefur gert með till. sínum. Stj. hefur ekki aðeins látið undir höfuð leggjast að koma með till. um að breyta genginu, heldur lætur hún einnig ónotaðar þær heimildir, sem hún hafði til þess að innheimta útflutningsgjald af togarafiski. Það mun láta nærri, að þetta gjald hefði numið 8–10 millj. kr. frá því í júní 1941 til jafnlengdar 1942. Slík hefð við stríðsgróðamennina er vitanlega alveg óforsvaranleg. Hæstv. fjmrh. sagði, að það mætti ná þessum sama tilgangi með sköttum, en þetta er alls ekki rétt. Með því að breyta genginu, væri hægt að gera þær raunhæfustu dýrtíðarráðstafanir sem kostur væri á, og Alþfl., hefur mikla ástæðu til þess að halda það, að Sjálfstfl. væri þessi gengisbreyt. mikið áhugamál, meðal annars vegna ummæla formanns flokksins á þingfundi 14. júní í fyrra og einnig vegna ummæla ýmissa annarra áhrifamanna innan Sjálfstfl. fyrr og síðar. Stærsta blað flokksins, Morgunblaðið, lét það mjög í ljós, á meðan engir möguleikar voru til þess að breyta genginu vegna samninga við Breta, að gengisbreyt. væri sjálfsögð dýrtíðarráðstöfun. Þessi áhugi virðist ekki hafa átt að rýrna við það, að samningarnir við Breta breyttust þannig, að gengisbreyting varð möguleg, þó að sú yrði að vísu raunin á. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta, en vildi mjög ítreka það við hæstv. fjmrh., að hann vildi svara þeim fyrirspurnum, sem ég hef borið fram viðvíkjandi kaupgjaldi og framkvæmd dýrtíðarl., eins og ég hef lagt þær fyrir.