29.04.1942
Neðri deild: 44. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Hv. þm. hafa nú sennilega liðið úr minni nokkuð þær umr., sem á síðasta fundi fóru fram hér. Og ég skal ekki gera mikið til þess að lengja umr. um þetta mál úr því sem komið er.

Hv. þm. Ísaf. sló því fram, sem maður að vísu hefur heyrt fyrr, en frekar einurðarlítið borið fram, að hvað sem öllu öðru liði, þá væri , það eitt víst, að grunnkaupshækkanir gætu þó ekki orðið til þess að auka dýrtíðina. Ef það er rétt, að þetta, sem kallað er dýrtíð, sé fyrir framleiðendur nokkuð það sama og aukinn framleiðslukostnaður, þá er það nokkurn veginn augljós hlutur, að grunnkaupshækkun stofnar jafnt til framleiðslukostnaðarauka eins og annars konar hækkun á kaupgjaldinu, og getur þessa vegna ekki verið nokkur munur þar á. Eða heldur þessi hv. þm., að ef grunnkaup við sveitavinnu hækkar, — ég tek það sem dæmi af því að það liggur svo beint við —, að það hljóti ekki óumflýjanlega að hafa áhrif á verðlag vörunnar, sem framleidd er í sveitinni? Ég held, að það sé almennt viðurkennt, að þetta sé óhjákvæmilegur hlutur. Þetta er ekki aðeins staðhæfing, sem haldið er fram hér á landi, heldur er þetta viðurkennd staðreynd um allan heim. Og skemmst er að minnast þeirra till., sem forseti Bandaríkjanna í Norður-Ameríku bar fram sem sínar till. um það, hvernig eigi að halda dýrtíðinni niðri, sem snertu þetta atriði.

Hv. sami þm. kvartaði ákaflega mikið yfir því, að hann hefði ekki fengið svar við tveimar fyrirspurnum, sem hann hefði borið fram hér í þinginu. Önnur fyrirspurnin var um það, hvort ríkisstjórninni væri ekki kunnugt um það, að gerðardómsl. hefðu verið brotin. Ég skal segja alveg eins og er, að ég get ekki sagt, að mér sé kunnugt um það. Hitt er það, að ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um það, að það hefur verið gert. Eða heldur þessi hv. þm., að nokkur sú löggjöf sé til í landinu, sem ekki sé brotin? Heldur hann, að það sé eitthvað sérkennilegt við þessa löggjöf, að hún geti ekki verið brotin? Nei, það væri undarlegt fyrirbrigði um löggjöf í landinu, ef þessi löggjöf ætti að vera þannig gerð, að hún yrði alls ekki brotin. Mér finnst þessi fyrirspurn hv. þm. bera meira vott um aðdáun hans á þessari löggjöf, ef honum hefur komið til hugar, að nokkur maður byggist við því, að hún yrði slík undantekning í löggjöf, að hægt væri að gera ráð fyrir, að hún yrði ekki brotin.

Þá spurði hv. þm. Ísaf. um það, hvort ríkisstjórnin hefði gert sér ljóst, hver geysimunur væri á grunnkaupinu í landinu á ýmsum stöðum. Hann sagði, og tók háa tóna í því sambandi, eftir því sem hans rödd liggur fyrir til þess, að sums staðar á landinu væri grunnkaup fyrir verkamenn enn þá 1 kr. og 20 aurar á tímann. Var ekki Alþýðusambandi Íslands kunnugt um þetta? Hvernig stendur á því, að Alþýðusamband Íslands hefur látið slíkt við gangast á undanförnum áratugum, að grunnkaupið skuli hafa verið svona misjafnt í landinu? Eru ekki alveg sérstakar ástæður fyrir því? Er það ekki af því, að menn geta komizt af með mismunandi hátt kaup, eftir því hvar er á landinu? Er ekki eðlilegt, að menn hafi hærra kaup hér í Reykjavík, þar sem allt að 1/3 hluti teknanna fer í húsaleigu, heldur en menn annars staðar á landinu? Er ekki eðlilegt, að það fólk, sem kemst af með miklu minna fé sér til framfæris, geti komizt af með að vinna fyrir lægra kaupi? Ég geri ráð fyrir, að þessi hv. þm. muni samsinna því, að ástæðan fyrir því, að grunnkaup hefur verið mismunandi á ýmsum stöðum á landinu, liggi í þessu, a.m.k. að nokkru leyti. Hitt er svo annað mál, sem hann spurðist fyrir um í þessu sambandi, hvort gerðardómurinn hefði rétt til þess að úrskurða slíkt kaupgjald til leiðréttingar og samræmingar. Að sjálfsögðu getur þan komið til mála. Ef dómurinn fellst á það, að kaupgjald sé á einhverjum stað óeðlilega lágt, á það að sjálfsögðu að geta komið til mála, að hann úrskurði um það, hvort grunnkaupshækkun eigi rétt á sér til samræmingar og lagfæringar. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefur athugað það, en það væri vert fyrir hann að athuga það í þessu sambandi, að ef það hefur verið svo, að grunnkaup hefur verið réttlátlega lægra á einum stað heldur en öðrum, t.d. af þessum ástæðum, sem ég benti á, að húsaleiga er lægri á einum stað en öðrum, þá skilst mér, að það sé spursmál, hvort fólk á slíkum stöðum hefur ekki fengið bætt kjör í því ástandi, sem nú er vegna vísitöluhækkunar. Ég veit ekki um þetta. Mér er það ekki ljóst. (FJ: Þetta er alveg öfugt hjá hæstv. ráðh.). Það getur vel verið misskilningur hjá mér, en vísitöluútreikningurinn er miðaður við ástandið í Reykjavík, og ýmis kostnaður í Reykjavík hefur hækkað meira en annars staðar. Það getur verið, að þetta sé. misskilningur, en öfugt er það ekki að öllu leyti. Annars kemur þetta ekki beint málinu við. Það, sem hv. þm. spurði um, var, hvort ríkisstjórnin hefði gert sér grein fyrir því, að grunnkaup væri mismunandi, og þeirri fyrirspurn hef ég svarað.

Hv. þm. Ísaf. talaði líka um vanrækslu ríkisstjórnarinnar um það að framfylgja dýrtíðarl. frá 1941 og talaði þar um tollalækkanir, um heimild til þess að innheimta útflutningsgjald o.s.frv. Ég get fullkomlega viðurkennt það, að ríkisstjórnin hefur ekki notfært sér þessar heimildir. En ég slæ því föstu, að það er eingöngu af því, að það var gersamlega tilgangslaust að beita þeim heimildum, vegna þess að þær gátu ekki haft nein áhrif á þá raunverulegu verðbólgu, sem þurfti að ráða niðurlögum á. Að fara að nota þær heimildir hefði verið alveg eins og ef læknir, sem hefði sjúkling til meðferðar, færi með sjúkdóm hans þannig að gefa sjúklingnum inn lyf til að deyfa verkina, sem sjúkdómnum fylgdu, en sjúkdómurinn væri sá sami eftir sem áður. Alveg hliðstæð aðferð þessu hefði það verið, ef farið hefði verið að ausa peningum til þess að gefa á milli þess raunverulega kostnaðar, sem hleðst upp í landinu á mörgum sviðum, og hins, sem fólkið vær í látið borga fyrir þær vörur, sem það fær. Það væri skammgóður vermir og mundi að lokum leiða til þess, að maður yrði að horfast í augu við þann veruleika, að framleiðslukostnaðurinn kæmist upp úr öllu valdi. Og meðan ekki var gefin heimild til þess með l. að hafa hemil á framleiðslukostnaðinum, þá var baráttan við verðbólguna sýnilega alveg árangurslaus. Þess vegna er það, að uppástunga Alþfl. í þessu máli um gengishækkun mundi hafa svipuð áhrif í þessa átt, að draga úr verðbólgunni. Því að svo lengi sem undirrótin að dýrtíðinni væri fyrir hendi, þá yrði það, að samþ. gengishækkun, ekki nein bót nema í svipinn, til þess að lækka verðlagið, vegna þess að hin raunverulega verðbólguorsök væri samt sem áður fyrir hendi.

Ég tók til máls aðeins til þess að mótmæla því, að ég, sem einn meðlimur stj., finni hjá mér nokkra sök í sambandi við að hafa ekki notfært þær heimildir, sem veittar voru í því skyni að hafa hemil á dýrtíðinni.