29.04.1942
Neðri deild: 44. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Ísleifur Högnason:

Út af síðustu ræðu hæstv. fjmrh., þó að hún ætti að vera svar til þm. Ísaf., vildi ég aðeins segja það, að þrátt fyrir það, þó að gerðardómsl. yrðu staðfest á þinginu, þá mundu t.d. bændur verða að borga mikið hærra kaup heldur en 1941. Ég veit það; að þó að hæstv. ráðh. segi, að hann viti ekki um það, að I. séu brotin, þá hlýtur hann að vita þess mörg dæmi, að þau eru brotin, eins og hver einasti maður annar veit það. Ég get meira að segja sagt það, án þess að tilnefna nöfn, að þm., fleiri en einn, úr flokki hæstv. ráðh. hafa sagt það beinum orðum, að þeir verði að brjóta þessi l., hvort sem þau verða samþ. eða ekki, ef þeir eigi að fá kaupafólk í sumar. Við þurfum ekki annað en að líta yfir blöðin, daglega er auglýst eftir fólki og gefið í skyn, að það verði borgað hærra kaup en þessi gerðardómsl. standa til.

Það er annars einkennandi fyrir síðari tíma löggjöf, að fólk tekur hana ekki alvarlega, eins og t.d. húsaleigul. sýna nægilega, blöðin sýna að fyrirframgreiðsla, svo að hundruðum kr. skiptir, er boðin fyrir eina íbúð um stuttan tíma, til þess að komast yfir hana. Þetta er alveg augljóst brot á húsaleigul. Ég veit ekki til þess, að dómstólarnir skipti sér af því, þó að þessi l. séu þannig brotin, — ég efast um, að stj. ætlist til þess, að þessi l. séu haldin.

Þá skírskotar hæstv. ráðh. til útvarpstilkynningar, sem kom í dag, um það, að forseti Bandaríkjanna mundi á líkan hátt og íslenzka ríkisstj. taka á dýrtíðarmálunum þar í landi. Ég skal ekki um það segja, hvað rétt er skýrt frá þessari útvarpstilkynningu, en annað mál er það, að Bandaríkjaþjóðin á nú í baráttu fyrir frelsi sínu, og þykist ég vita, að stj., sem berst fyrir frelsi þegnanna, og þjóðin sjálf, vilji eitthvað á sig leggja til þess að Bandaríkin nái sigri. Hér á landi er öðru máli að gegna. Þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar stj. um ást á lýðræðinu, sýnist mér að gerðir hennar, sérstaklega í innanlandslöggjöfinni, miði að því að apa eftir fasistiskri löggjöf, eins og þessi gerðardómsl. bera gleggstan vott um.

Í Bandaríkjunum er um þetta öðru máli að gegna. Þar hefur stj. fólkið með sér. Gerðir stj. hérna eru einmitt þess eðlis, að hún fær fólkið upp á móti sér, því að hún er í gerðum sínum fasistísk, þó að hún segist vera lýðræðisstj.

Þá spurði hæstv. ráðh., hvernig stæði á því, að Alþýðusambandið hefði ekki hækkað vegavinnukaupið, sem væri á sumum stöðum ekki hærra en kr. 1.20 á klst. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. sé ekki það óreyndur í verklýðsmálunum, að honum sé það ekki ljóst, að það getur verið nokkuð örðugt að fá að hækka kaupið eða að halda því (sbr. 9. nóv. 1932).

Í þingræðu fyrir 4–5 árum sagði hv. þm. Ísaf., að núverandi atvmrh., sem á þeim tíma var ráðh. í nokkra daga, hafi látið smíða 400 kylfur, og hafi hann með því viljað sýna lýðræðisvilja sinn. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi lítið farið fram, síðan þetta átti að hafa átt sér stað. Sannleikurinn er sá, að grunnkaupið úti um landið er of lágt til þess að geta nægt verkamönnum til þess að mæta dýrtíðinni. Til sönnunar þessu get ég lesið upp mótmælaskjal, sem sent hefur verið til þingsins frá verklýðsfélaginu í Vestmannaeyjum. Þar er form. fél. samflokksmaður hæstv. ráðh., og snertir það líka nokkuð það atriði, sem hæstv. ráðh. kom inn á, að gerðardómurinn mundi tilleiðanlegur til að hækka grunnkaup til lagfæringar og samræmingar . Þetta félag í Vestm. hafði, nokkrum dögum áður en gerðardómurinn kom, samið við atvinnurekendur um talsverða grunnkaupshækkun. Ég skal þó geta þess, að ég er þess fullviss, að atvinnurekendur hafa gert þetta í því trausti, að gerðardómurinn mundi hafa þessa samninga að engu og þeir þyrftu ekki að greiða þetta kaup. Verklýðsfélagið í Vestm. snéri sér þessu næst til hæstv. Alþ. og sendi því mótmælaskjal það, sem ég skal nú lesa upp með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur Verkalýðsfélags Vestmannaeyja, haldinn 11. apríl s.l., skorar á Alþingi það, er nú situr, að staðfesta ekki bráðabirgðalög um gerðardóm í kaupgjalds- og verðlagsmálum og telur úrskurð gerðardómsins 23. mars. s.l. um kaupgjald í Vestmannaeyjum ósanngjarnan, þar sem fullt samkomulag var komið á milli verkalýðsfélagsins og atvinnurekenda. Tímakaup verkakvenna er hæst hér á landinu. Kaup iðnaðarmanna er jafnt hér og í Rvík. Kaup verkamanna er lægst hér af kaupstöðunun). Gerðardómurinn hefur því gengið fram hjá að samræma kaupið, eins og bráðabirgðalögin gera þó ráð fyrir. Enn fremur telur fundurinn hættulegt samræmi (misræmi) í verkkaupsgjaldi kaupstaðanna, sem hlýtur að leiða af sér, að verkamenn safnast um of til Reykjavíkur.

Í stjórn Verkalýðsfélags Vestmannaeyja.

Ágúst Þórðarson, formaður.

Pétur Guðjónsson, ritari.“

Þarna er fengin sönnun fyrir því, að gerðardómurinn vinnur eftir fyrirmælum stj., sem sé að sjá um það, að grunnkaup sé ekki hækkað. Það má geta þess í þessu sambandi, að eftir að gerðardómsl. voru sett í jan. s.l., kom viðskmrh. til Vestm., til þess að halda þar fund. Á þessum fundi voru mættir 6–800 manns. Á þessum fundi báru 4 efstu menn á lista Sjálfstfl., — en bæjarstjórnarkosningar stóðu þá fyrir dyrum í Vestm.—, fram mótmæli gegn gerðardómsl., en fundarstjóri neitaði að bera till. upp. Rétt fyrir bæjarstjórnarkosningarnar boðaði Sjálfstfl. til fundar, og að loknum þessum fundi var þessi sama till. borin upp og samþ. einróma. Ekki einu sinni framsóknarm. þorðu að greiða atkv. á móti till. Þetta er eftirtektarvert dæmi um það, hvernig Sjálfstfl. talar tveim tungum.

Hér í Reykjavíkurblöðunum voru þeir menn álitnir allt að því landráðamenn; sem beittu sér gegn gerðardómsl., en þeir gættu ekki að því, að þeir voru að snoppunga sína eigin flokksmenn. Þeir tala þetta í einum staðnum, en annað á hinum, allt eftir því, hvað þeir halda, að þeir megi bjóða kjósendum sínum. Ég ætla í nafni hinna 6–800 Vestmannaeyinga, sem í dag ítreka mótmæli sín til Alþ. gegn gerðardómsl., að gera stjórnarfl. ábyrga fyrir þessum verknaði, sem ég hygg, að verði samþ. Ég vil undirstrika þessi mótmæli og bera þau fram á vegum þessa félags og almennings í Vestm.

Það hefur verið svo mikið rætt um það, hvernig þessi l. hafa verið brotin, að ég þarf þar litlu við að bæta. Þó vil ég segja eitt dæmi um þetta, sem mér barst til eyrna fyrir 2–3 dögum. Það vildi svo til fyrir nokkrum dögum, að það þurfti að koma veikri konu á Klepp, en þar er nú ekki með nokkru móti hægt að taka á móti fleiri sjúklingum, og mér er sagt, að það hafi kostað aðstandendur konunnar 240 kr. á sólarhring að fá hennar gætt. Það má sjálfsagt finna mörg slík dæmi sem þetta um það, á hvaða villigötum ríkisstj. er nú í þessum efnum. Það má segja, að þarna sé fyrst og fremst um menningarleg sjónarmið að ræða, þar sem stj. þverbrýtur öll lög og venjur í því að meina

fólki að komast á spítala, og þar að auki gerir hún aðstöðu fólksins margfalt dýrari og örðugri um það að annast sjúklinginn, sem þurfti að komast á spítalann.

Við umr. um frv. þessu líkt á þinginu í haust lýsti viðskmrh. því yfir, að þessi l. kæmu að engu haldi nema samkomulag næðist samtímis við setuliðsstj. um fækkun manna í setuliðsvinnunni. Enn fremur, að ríkisstj. hefði skipað n. til þess að koma því í framkvæmd, að fækkað yrði í þeirri vinnu. Ég vildi nú spyrja hæstv. stj., hvað þessu liði nú, hvort ríkisstj. heldur áfram tilraunum til þess að ná þessu samkomulagi. Í öðru lagi, hefur stj. nokkuð leitað fyrir mér um það, að, semja við verklýðsfél. um að skipuleggja vinnuaflið í þarfir atvinnuveganna? Við þessum spurningum þætti mér gott að fá svör hjá hæstv. ráðh.