29.04.1942
Neðri deild: 44. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Frsm. minni hl. (Finnur Jónsson):

Hæstv. fjmrh. hefur komið inn í þessar umr., og má segja, að það er betra seint en aldrei. Ég er honum þakklátur fyrir það, að hann hefur gert tilraun til þess að svara fyrirspurnum mínum, þó að þau svör séu ekki fullnægjandi. Ég hef bent á það, að þessi l. yrðu brotin á hverju heimili í landinu, sem þarf á vinnufólki að halda. Ég hef enn fremur bent á það, að þessi löggjöf væri brotin á öllum þeim stöðum á landinu, þar sem nokkur veruleg eftirspurn bæri eftri vinnuafli. Hins vegar mundu þau verða haldin í þeim iðngreinum, þar sem menn hefðu ekkert að flýja, eins og í sumum verkalýðsfélögum úti um land, þar sem eftirspurn væri lítil eftir vinnuafli og kaupgjaldið lágt.

Á þennan hátt skapa þessi löggjöf það alveg sérstaklega ranglæti, að hún kemur þyngst niður á þeim, sem minnstar tekjur hafa i landinu og ég spurðist fyrir um það, hvort stj. væri kunnugt um það, að þessi yrði niðurstaðan af þessari löggjöf. Ég ber það traust til hinna ágætu gáfna hæstv. fjmrh. og hans mikla kunnugleika á lífi manna hér á landi, að honum sé þetta allt ljóst orðið. Það má vera, að þegar hann setti þessi l,. 8. Jan s.l., þá hafi honum ekki verið það ljóst, en ég get ekki hugsað mér, að þetta dyljist honum lengur. Það má vel vera, að hæstv. fjmrh. sé ánægður með þessa lagasetningu, en þó gæti ég trúað því, af þeirri reynslu, sem fengin er, að ánægja hans hafi farið minnkandi. Það getur ekki hjá því farið að honum sé það ekki alveg eins ljóst og öðrum, að þessi lagasetning hefur skapað alveg sérstakt misrétti meðal launastéttanna í landinu. Menn munu sammála um það, að flest l. séu eitthvað brotin og flest l. skapi eitthvert misrétti, en en hins vegar held ég , að við séum allir sammála um það, að þessi löggjöf sé þannig að það sé enginn vafi á því, að hún skapar mjög mikið og hróplegt misrétti og kemur þyngst niður á þeim, sem verst mega við því, og að hún skapar almenn lögbrot.

Ég vil mótmæla því, sem hæstv. fjmrh. sagði að ég hafi látið í ljós nokkurt álit um það, að þessi löggjöf yrði ekki brotin, — ég hef þvert á móti undirstrikað það hvað eftir annað, að hún yrði mikið og almennt brotin, ein af þm. sem öðrum, og ég hef látið það í ljós, að þessi löggjöf skapaði slíkt misrétti í landinu, að hún væri algerlega óviðunandi. Hvað viðvíkur hag þeirra manna, sem eru svo óheppnir að eiga heima þar, sem lítil eftirspurn er eftir vinnuafli, og þar, sem kaupið er lágt, þá má segja það, að þessi löggjöf búi sérstaklega illa að þessu fólki. Þessir menn eru enn verr settir fyrir það, að vísitalan hækkar ekki laun þeirra hlutfallslega eins og hún hækkar laun manna hér í Reykjavík, og það er af þeim ástæðum, að þegar reiknuð er út húsaleiga út frá útgjöldum manna hér í Reykjavík, þá kemur það í ljós, að hún er hlutfallslega hærri liður í útgjöldum manna í Rvík heldur en annars staðar á landinu. Húsaleigan stendur í stað og hækkar ekki. Hún heldur vísitölunni niðri. því meira sem önnur útgjöld hækka, því ranglátara verður hlutfallið fyrir þá, sem eiga heima úti á landi. Hvað því viðvíkur, hvers vegna Alþýðusambandið hafi ekki verið búið að hækka kaup þeirra, sem lægst hafa kaupið, vil ég segja það, að það er ekki almáttugt í þessum efnum. Það hefur mjög víða þurft að stofna félög 2–4 sinnum, áður en það náði því að geta fengið þau viðurkennd sem samningsaðila, og þeir, sem hafa fyrst og fremst spornað á móti leiðréttingu á grunnkaupi, eru einmitt forsvarsmenn Sjálfstfl. á þessum stöðum. Ég minnist þess, að fyrir nokkrum árum skrifuðu helztu atvinnurekendur í þorpi einu á Vesturlandi kauptaxtanefnd verklýðsfél, og sögðu, að þeir hefðu hingað til ákveðið kaupið, án íhlutunar óviðkomandi manna, og þeir ætluðu að halda því áfram. Þetta var andi Sjálfstfl. í garð verklýðshreyfingarinnar, andi, sem er því miður langt frá því að vera dauður. Það situr því ekki á Sjálfstfl. að glósa um vanrækslu Alþsamb. í þessu efni. Alþýðusambandið reyndi í fyrra að ná samningum við stj. um það að fá vegavinnukaupið hækkað, en það strandaði á stj., því að hún neitaði að verða við tilmælum Alþýðusambandsins um hækkun á grunnkaupi í vegavinnu. Því miður var Alþýðusambandið ekki svo máttugt, að það gæti ráðið við þessa andúð stj. í garð lægst launuðu stéttanna í landinu, en vonandi kemur sá dagur, að það getur það, og þá væri æskilegt, að hæstv. fjmrh. hefði tekið þeirri hugarfarsbreytingu, að hann gæti þá samglaðzt Alþýðusambandinu, er það gæti knúið stjórnina til að bæta kjör þeirra, er búa við þau lökust.

Nú hefur stjórnin tekið það ráð að banna með lögum allar grunnkaupshækkanir þessara manna.

Ef það hefur verið af heilum hug mælt hjá hæstv. fjmrh., að hann vildi aðstoða Alþýðusambandið um leiðréttingu í þessum málum, þá ætti hann að leggja með, að frv. þessu yrði lógað.

Ég hef ekki fengið svar við því, hvort kauphækkun til lagfæringar væri skylda gerðardómsins eða hvort hann mætti aðeins hækka kaupið. Ef hin fyrrnefnda væri rétt, sem ég tel ekki líklegt, af þeirri reynslu, er fengizt hefur, að honum muni þykja ástæður nokkurn tíma leyfa það. Hann hefur t.d. numið úr gildi 5% grunnkaupshækkun, er láglaunastétt á Akureyri hafði náð fyrir tilstilli sáttasemjara ríkisins. Og þegar hvorki sáttasemjari né Alþýðusambandið sjálft mega hér neinu um ráða, er varla mikil von leiðréttingar.

En hvers vegna framkvæmdi stjórnin ekki heldur dýrtíðarlögin, er hún tók við á sínum tíma og lofaði að framkvæma, heldur en að bera fram þennan óskapnað?

Ástæðan var sú; að ráðherrar Sjálfstfl: settu sig á móti framkvæmd þeirra af ástæðum, sem hæstv. fjmrh. gæti sjálfsagt upplýst. Stjórnin lét þó svo, að hún hefði þá trú, er hún tók við þeim, eins og fleiri, að löggjöfin væri einhvers virði. En viljann vantaði hjá ráðherrum Sjálfstfl. Þótt með lögum þessum væri þó talsvert hægt að gera, þar eð dýrtíðin var ekki orðin jafnmikil og nú, fengust þeir ekki til að framkvæma þau. Hæstv. fjmrh. hafði eftir mér, að grunnkaupshækkanir ýttu ekkert undir dýrtíðina. Þetta er misskilningur, ég sagði það aldrei: Ég sagði, að dýrtíðarvísitalan hefði hækkað úr 157 stigum í júlí 1941 upp í 183 í desember sama ár, eða hækkað um 45% árið 1941, en á þeim tíma hefðu engar grunnkaupshækkanir orðið, svo að ekki þyrfti að kenna þeim um aukningu dýrtíðarinnar á umræddu tímabili. Þetta var það, sem ég sagði. Yfirleitt hafa grunnkaupshækkanir átt sáralítinn þátt í vaxandi dýrtíð, og það vildi ég benda hæstv. fjmrh. og öðrum á, að til hækkunar dýrtíðarinnar liggja aðrar ástæður, sem Stjórnin hefði getað ráðið við, ef hún hefði viljað.

En hún tók þá öfugu leið að láta dýrtíðina leika lausum hala, og þá loks, er hún tók rögg á sig, réðst hún á —kaupgjaldið, en ekki dýrtíðina. Hún hefur látið stríðsgróðann flæða inn í landið og keypt gjaldeyri hærra verði en þurft hefði, m.ö.o. látið verðbólguna aukast sem mest. Og nú reynir hún að þröngva rétti og kosti þeirra, er minnst mega sín, og í því liggja óhöpp hennar. Og nú er svo komið, að landið má heita stjórnlaust og þingið óstarfhæft.