29.04.1942
Neðri deild: 44. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Frsm. minni hl. (Finnur Jónsson):

Hæstv. fjmrh. vildi hafa það eftir mér, að ég hefði látið í ljós, að ég tryði lítið á það, sem ég heyrði í útvarpi um dýrtíðarráðstafanir í Bandaríkjunum. Þetta er misskilningur. En á það er bent í nál., að dýrtíðin í Bandaríkjunum hafi í nóv. í fyrra ekki verið komin nema í 8.8% frá stríðsbyrjun. En kaupgjaldið hafði á sama tíma stigið um 2.5%, og má af því sjá, að það er fjarri því, að hækkun á dýrtíð fari saman við hækkun á kaupgjaldi. Hér er dýrtíðarvísitalan 83%, án þess að verulegar grunnkaupshækkanir hafi verið gerðar um leið. Ég hef bent hæstv. fjmrh. á, að frá því að dýrtíðarl. voru staðfest í júlí og til áramóta, hækkaði dýrtíðin um 45%, án þess að hækkun væri gerð á grunnkaupi. — Hæstv. fjmrh, sagði, að það væri stigamennska Alþfl. og skortur á þjóðhollustu og þegnskap, sem hefði valdið því, að gerðardómsl. væru komin út í sandinn. Hæstv. ráðh. ítrekaði nokkrum sinnum, ýmist að l. væru komin út í sandinn, eða væru að komast það, og væri það Alþfl. að kenna. En það er nú svo, að þegar þjóðstj. var mynduð, var það eitt af samningsatriðum, að ekki skyldu gefin út brbl., sem ágreiningur væri um í stj., en þetta samningsatriði var brotið á ráðh. Alþfl., svo að gerðardómsl. voru stigamennska fjögurra ráðh. gegn ráðh. Alþfl.

Það var eftirtektarvert í ræðu hæstv. fjmrh., að hann taldi, að löggjöfin um gerðardóm væri í rauninni einskjs virði, og mér skildist hann telja, að ekki væri hægt fyrir ríkisstj. að stjórna landinu, af því að Alþfl. væri í andstöðu við ríkisstj. Þetta er eftirtektarvert, því að stjórnarflokkarnir lafa meiri þingmeirihluta en almennt er talið þurfa, svo að ef þessi ríkisstj., sem hefur svo sterkan meiri hluta, er þess ekki um komin að stjórna landinu, hljóta að liggja á bak við það aðrar ástæður. Ríkisstj. hefur sem sé ætlað sér þá dul að koma fram löggjöf, sem skapar misrétti í landinu á milli fátækra og ríkra. Þar eru orsakirnar að erfiðleikum ríkisstj. Það er ríkisstj., sem hefur skapað það vandræðaástand, sem ríkir í landinu, og slíkt hlýtur að hefna sín.

Hæstv. fjmrh. var að tala um, að eitt af því, sem þyrfti að gera, væri að festa kaupgjaldið, til þess að krónan yrði ekki gerð að engu. Mér skildist á honum, að af því að svo miklir peningar færu til verkamannanna, þyrfti að festa kaupgjaldið. En það koma fleiri peningar inn í landið en þeir, sem fara til verkamannanna. Hæstv. ráðh. veit það, að á hverjum togaratúr skiptir gróðinn jafnvel hundruðum þúsundum. Hvað er gert til þess að hefta þetta fé? Það hefur ekki verið litið við gengisfrv. Alþfl., sem þó hefur að geyma beztu ráðstafanirnar til að hefta það. Það er mikið fé og veldur inflationinni.

Ástæðan fyrir því, að ríkisstj. er að verða óstarfhæf þrátt fyrir hinn mikla þingmeirihluta, er sú, að hún ætlar að fremja það ranglæti að draga úr tekjum þeirra, sem ekkert mega missa af tekjum sínum.

*Fjmrh. (Jakob Möller): Ég get verið stuttorður. Hv. síðasti ræðumaður þóttist vera að svara mér, en hann sneri öllu við. Ég sagði aldrei, að gerðardómsl. væru komin út í sandinn. Ég sagði, að ef þau færu út í sandinn, þá væri um að kenna stigamennsku Alþfl.

Hv. þm. endurtók sömu vitleysuna og áður, að ráðstafanir ríkisstj. beindust að því að gera hag hinna fátæku verri, en snertu ekki við hinum ríku. Hann sagði, að gróði togaranna væri látnir leika lausum hala. Samt veit hann, að hér liggur fyrir skattafrv., sem hnígur að því að taka 90% af gróðanum, þegar hann er kominn upp að vissu marki. Hann segir, að almenningur sjái, að gengið sé í bága við hans hagsmuni. Almenningur trúir kannske hv. þm., þegar hann segir þetta, en ekki hagfræðingunum. Og reynslan sýnir annað.

Varðandi dýrtíðina í Bandaríkjunum í byrjun stríðs, eða áður en þau fóru í stríðið sjálf, gegnir allt öðru máli en hér á Íslandi. Bandaríkin framleiða sjálf allt, sem þau þurfa. Þau þurfa sama og ekkert af innfluttum vörum, og sér hver maður, að í því efni er ekki hægt að bera saman aðstöðu þeirra og okkar.

Það er rétt hjá hv. 5. þm. Reykv., að upphaf dýrtíðarinnar var vöruverðshækkun, en verðhækkun innanlands og hækkun framleiðslukostnaðar bættist við. Í því sambandi eru grunnkaupshækkanir hættulegastar, og áframhaldandi hækkanir hefðu verkað enn meir á dýrtíðina. Þetta áttu l. að koma í veg fyrir og vernda þannig hagsmuni hinna fátæku, öfugt við það, sem hv. þm. Ísaf. segir. Og hinir ríku eru sannarlega ekki látnir sleppa, eins og skattalöggjöfin verður. Alþfl. vill ganga enn lengra, og það verður að vera álitamál. En sjávarútvegurinn verður að geta safnað sér sjóði. Það er lífsnauðsyn fyrir þjóðarbúskapinn, og honum er ekki of mikið eftir skilið.

Að lokum vil ég segja þetta: Þegar Bandaríkin fóru í stríðið, hvað gerðu þau þá til að hindra verðbólguna? Einmitt það sama og við. Þau reyndu að vinna á móti verðbólgunni með því að lögbinda kaupið. Ég veit ekki, hvaða fregnir hv. 4. þm. Reykv. og hv. 4. landsk. hafa frá Rússlandi um kauphækkanir þar.