29.04.1942
Neðri deild: 44. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Haraldur Guðmundsson:

Hæstv. fjmrh. kom mér til þess að kveðja mér hljóðs með ræðu sinni áðan.

Hann fullyrti, að því er mér skildist, að milli hans og ráðh. Alþfl. hefði ekki skakkað hársbreidd í dýrtíðarmálunum. Hann sagði, að heimildir í dýrtíðarl. 1941 hefðu ekki verið notaðar, vegna þess að ekki fékkst útreiknuð vísitala landbúnaðarins, og þess vegna hafi hvorki hann né Stefán Jóh. Stefánsson fallizt á að greiða verðlagsuppbætur á landbúnaðarafurðir. — Það er ef til vill rétt hjá þessum hæstv. ráðh., að þeir tveir hafi heimtað að fá þessa vísitölu útreiknaða, og ég játa, að uppbót á landbúnaðar afurðir þarf að vera í samræmi við vísitöluna. Hitt hlýtur að vera misminni hjá hæstv. ráðh., að ekki hafi skeikað hársbreidd milli hans og ráðh. Alþfl. Eins og kunnugt er, lagði ráðh. Alþfl. fram till. í ríkisstj. þ. 15. des. 1941 um ráðstafanir gegn dýrtíðinni, sem miðuðu að því, í fyrsta lagi að innheimta ekki útflutningsgjald af ýmsum vörum, í öðru lagi að afnema eða lækka tolla samkv. heimildum í dýrtíðarl., í þriðja lagi að hafa eftirlit með farmgjöldum á vörum, sem fluttar væru til landsins, og í fjórða lagi að greiða ekki uppbót á mjólkurverðið, heldur láta fara fram rannsókn á auknum reksturskostnaði, og greiða þá hækkun beint til mjólkursamsölunnar. En þessar till. náðu ekki fram að ganga. Ég get einnig getið þess, að samkv. upplýsingum framsóknarmanna í Tímanum, báru þeir fram till. líkar þeim, er Stefán Jóh. Stefánsson hafði komið með, en þeim till. var hæstv. fjmrh. andvígur. Hæstv. fjmrh. hefur og lýst yfir því, að heimildir dýrtíðarl. hafi verið gagnslausar, aðeins meðal, sagði hann, sem deyfir sársaukann, en veikin er jafnskæð eftir sem áður. — Ég er ósammála hæstv. fjmrh. í þessu sambandi, og hann hlýtur að vera ósammála sjálfum sér, því að ég veit ekki betur en að hæstv. ríkisstj. hafi um langt skeið greitt nokkurn hluta kolaverðsins til þess að halda niðri verði á þeim. Enn fremur afnám hún og lækkaði tolla af ýmsum vörum og hætti að innheimta stríðsflutningsgjaldatolla af sömu vörum. — Einmitt vegna þessara aðgerða hefur ríkisstj. lánazt að halda vísitölunni óbreyttri síðan um áramót. — Ég á því bágt með að skilja hæstv. fjmrh., þegar hann segir, að þessar ráðstafanir séu gagnslausar, því að þær eru það alls ekki, og ef fyrr hefði verið gripið til þeirra þá væri dýrtíðin ekki eins mikil og raun bar vitni um.

Frumorsök dýrtíðarinnar er flutningsgjaldahækkunin á vörum, sem fluttar voru til landsins, og þetta viðurkenndi hæstv. ráðh. að nokkru leyti. Þessari hættu var hægt að afstýra með því að halda flutningsgjöldunum óbreyttum og greiða Eimskipafélagi Íslands mismuninn á reksturskostnaði félagsins, og með því mátti koma í veg fyrir hækkun erlendra vara og þar með hækkun innlendra vara o.s.frv.

Þeir tollar, sem hafa hækkað, hafa hækkað vöruna sjálfa. Þetta leiðir af sjálfu sér, og hæstv. ráðh. veit það vel. Hæstv. fjmrh. sagði, að gerðardómsl. hefðu verið sett til þess að stöðva dýrtíðina og að hverfa frá þeim vær í sama og að sleppa dýrtíðinni lausri. Ég er hér ekki á sama máli og fullyrði, að þessi l. geti aldrei stöðvað dýrtíðina, því að aldrei verði hægt að framkvæma þau.

Til viðbótar get ég bent á, að það er óhugsandi, að landbúnaðurinn fái verkafólk í þjónustu sína fyrir sama kaup og í fyrrasumar, hvað sem gerðardómurinn segir. Annaðhvort verða bændur því að draga saman búskap sinn eða hækka kaupið, og af því leiðir svo, að kröfur koma fram um hækkun á landbúnaðarafurðum á ný. L. eru því gagnslaus að þessu leyti fyrst og fremst.

Það hefur sýnt sig, að ýmsir atvinnurekendur fara á bak við gerðardómslögin og reikna kaup fyrir fleiri tíma en unnir eru. Það er þess vegna ekki nema eðlilegt, að menn haldi sér frekar að slíkum vinnustöðvum.

Mér hefur virzt af ummælum hæstv. ríkisstj. viðvíkjandi fyrirspurnum, sem fram hafa komið hér í hv. d. um vinnuaflið í landinu, að hún teldi, að gerðardómslögin hefðu ekki hjálpað til að draga úr fólkseklunni, heldur þvert á móti. — Hverjum mundi líka detta í hug að fara í vegavinnu núna, þegar bannað er að hækka kaupið þar?

Út af þeim ummælum hér í hv. d., að hækkun kaups hljóti að leiða til aukinnar dýrtíðar, þá finnst mér það fjarri sanni. — Verzlanir geta t.d. hækkað kaup starfsmanna sinna án þess að reksturinn bíði nokkurn hnekki, og þó að prentarakaupið hækkaði, þyrfti það ekki að leiða til hækkunar á prentun, og svo mætti lengi telja, en að vísu kostar þetta sterkt verðlagseftirlit.

Hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskmrh. veitast nú mjög að Alþfl. og saka hann um, að hann eigi drjúgan þátt í hinni miklu dýrtíð, sem nú er í landinu, af því að hann tók ráðh. sinn úr ríkisstj. og vildi ekkert gera til þess að stuðla að því, að dýrtíðin minnkaði. (Fjmrh.: Ég sagði það aldrei.) Hæstv. viðskmrh. sagði það; og hæstv. fjmrh. sagði, að þeir vildu ekkert gera til að halda dýrtíðinni í skefjum.

Mér þykir þessi ummæli harla einkennileg, því að þessir hæstv. ráðh. og öll hæstv. ríkisstj. vissi, að ef þessi brbl. yrðu gefin út, þrátt fyrir andmæli Alþfl., þá mundi af því leiða samningsslit. En svo koma þeir til Alþfl. á eftir og bera sig illa yfir framferði hans, og það er miður karlmannlegt, þegar þess er gætt, að þeir hafa þingfylgi til þess að koma þessum l. fram.

Nú er mikið gumað af þessum I. og sagt, að svona hafi Roosevelt farið að, alveg eins og hann hafi sótt fyrirmyndina hingað. (Fjmrh.: Hver veit?) Þessar aðferðir, sem notaðar hafa verið, eru þannig, að fáir mundu hafa gripið til þeirra í öðrum löndum. Ég er þess t.d. alveg fullviss, að ríkisstj. í Ástralíu hefði aldrei dottið í hug að setja slík l., nema í samráði við verkalýð landsins. (Viðskmrh.: Hvað veit hv. þm. Seyðf. um, hvað þeim dettur í hug í Ástralíu?) Það var ekki nóg með að ríkisstj. hér léti sér detta þetta í hug, heldur fór hún með fólkið eins og kjöt- eða mjöltunnur og sagði: „Þarna skalt þú vinna og fyrir þetta kaup.“

Hæstv. ráðh. ræddi nokkuð frétt um dýrtíðarráðstafanir Bandaríkjamanna, en einhvern veginn hefur þessum hæstv. ráðherra skotizt yfir mjög mikilsvert atriði í þessari frétt. Þar er einnig skýrt frá því, að enginn Bandaríkjaþegn megi halda meiru eftir af tekjum sínum en 25000 dollurum. Það, sem umfram er, skuli allt tekið í sköttum. Viðskmrh. var ekki að hafa fyrir að tesa þetta. Samkvæmt því skattafrv., sem hér liggur fyrir og hann virðist vera talsvert stoltur af, er tryggt, að þegar búið er að greiða skatta af einnar milljónar gróða, þá verði eftir a.m.k. 400 þús. kr., en hámiarkið, sem hverjum Bandaríkjaþegni er leyft að hafa, er 25 þús. dollarar, eða 150 þús. kr. Ef fyrirtæki á 7 togara og það græðir tæp 900 þús. kr. á hverjum, eða 6 milljónir króna, þá er þessu fyrirtæki tryggt, að það eigi eftir a.m.k. 2400000 krónur að greiddum sköttum og útsvari, ef frv. verður samþ. Þetta er gert með því að banna bæjarfélögunum að leggja á okkur útsvör á tekjur, sem fara yfir 200 þús. kr. Hann kallar það lítilfjörlegt formsatriði að flytja brtt. um að fella þetta ákvæði niður. Eitt útgerðarfélag hér í Reykjavík greiddi til bæjarsjóðs, auk hluta af stríðsróðaskatti, 700 þús. kr. Nú er bannað að leggja á annað hjá þessu fyrirtæki en þær ca. 120 þús. kr., sem verða eftir af fyrstu 200 þús. kr., þegar búið er að draga skattana frá.

Annars eru það ekki skattamálin, sem nú eru til umræðu, en úr því að hæstv. ráðh. fer að ræða þau, vil ég ekki láta honum ósvarað.

Hæstv. ráðh. segir, að Alþfl. hafi verið sammála Framsfl. um afgreiðslu skattal. 1941. Ráðh. veit, að þetta er ekki rétt. Hann veit, að það er mjög fjarri lagi. Hann veit, að við fluttum brtt. um að nema burtu tapsfrádrátt útgerðarfélaga, sem mun hafa verið um 7–9 milljónir króna, sem stærstu fyrirtækin fengu langmest af. Hann veit það líka, að við bárum fram till. um miklu hærri stríðsgróðaskatt en samkomulag varð um að lokum. Einnig veit hann það, að í l. frá reglulegu þingi 1941 er stj. heimilað að innheimta útflutningsgjald. Hann veit, að meðalsala togaranna s.l. ár nam 9400 £ eða næstum 250 þús. kr., og hann veit, að þessi heimild hefur ekki verið notuð enn þann dag í dag.

Hann segir, að Alþfl. hafi ekki þorað að leggja fram till. sínar í skattamálum, fyrr en eftir að stjfrv. kom.

Eftir að stjórnin hafði tilkynnt með miklu yfirlæti, að hún ætlaði að taka 90% af hátekjum með sköttum, þótti okkur ekki rétt að fara að bera fram till. um það efni. Skattar af meðaltekjum og lágum tekjum höfðu verið lagaðir svo mikið á þingi 1941, að vel mátti við una, ef tekjuumreikningi var haldið áfram óbreyttum. Það var fyrst, þegar frv. kom fram, að við AIþýðuflokksmenn sáum, að það var fullkomin blekking að tala um 90% skatt, þar sem hámark var sett á það, sem mátti greiða af.

Áður en skattafrv. þetta kom fram, höfðum við Alþýðuflokksmenn lagt fram frv. um gengishækkun, sem fulltrúar Framsfl. og Sjálfstfl. ekki fengust til að taka neiala afstöðu til, en þar er gert ráð fyrir 15.% skatti á eignaaukningu frá stríðsbyrjun. Þ.e.a.s., að stórgróðamennirnir, sem hafa auðgazt á þessu tímabili, þeir skili aftur því, sem ætla má, að þeir hafi auðgazt fyrir of lágt gengi. Það' er alveg misskilningur hjá hæstv. ráðh., að við höfum óttazt, að hann yrði vinstra megin við okkar tillögur. Þar sem okkar frv. var komið áður, höfðum við ekkert að óttast í þessu efni. Ég vildi, úr því að farið er inn á þetta mál, segja það, að mig furðar á því, að hæstv. ráðh. og stjórnarflokkarnir, sem hafa oft áður látið í ljós, að þeir teldu það ráð að hækka gengi krónunnar, að þeir skuli vera ófáanlegir til þess að taka afstöðu með frv. og fara þá leið, sem réttlátust er og eðlilegust í skattamálum landsins, að láta þá, sem grætt hafa á gengislækkuninni, skila aftur þeim mismun, sem er á því, sem þeir hafa keypt hlutina fyrir, og réttmætu gengi.

Hæstv. viðskmrh. las hér upp prýðilegan kafla úr álitsgerð nefndar, sem athugaði fyrir stjórnina, hvernig tiltækilegast væri að hamla gegn verðbólgunni. Ég hafði orðað þetta fyrr hér í umr., eins og hæstv. ráðh. las, þannig, að verðbólga væri hættuleg og viðsjárverðust fyrir þá, sem eignalausir eru, vegna þess að ef hún héldi áfram, þá yrðu þeir ríku ríkari og þeir snauðu snauðari. Hann las þetta rétt, þ.e.a.s. stafrétt og með réttum hljóðum; en allt um það er það bersýnilegt, að ráðh. skilur ekki eitt einasta orð í þessu, því að ef hann gerði það, væri ólíklegt að hann breytti í andstöðu við það, sem hann telur rétt, því að ráðh. er búinn að vera ráðh. dýrtíðarinnar frá byrjun og hefur alltaf fullyrt um sinn mikla vilja til þess að stöðva hana, en aldrei gert neitt annað, en margt til þess að auka hana. Svo leyfir hann sér að flytja hirtingarræðu yfir Alþfl. fyrir það, að hann ætlar ekki að berjast gegn dýrtíðinni á þann þokkalega hátt, sem hann vill. Ég hef nefnt hér ótal dæmi fyrir því, að ef þessi ráðh. hefði ekki brugðizt skyldu sinni, var hægt að hækka kaupið allverulega, án þess að verðbólga kæmi fram, ef haldið var í hemilinn á þeim fyrirtækjum, sem nú taka inn stórgróða, en þetta fer fyrir ofan garð og neðan hjá viðskmrh.

Viðskmrh. talaði um kjósendahræðslu, að Alþfl. hefði farið úr stjórn af því, að hann ætlaði að nota sér ákvæðið um lögbindingu kaupsins til fylgisaukningar. Ég vil þá spyrja hæstv. viðskmrh., Hækkar hann verð á kjöti og mjólk til þess að veiða atkvæði hjá bændum? Hann var með ákúrur á hv. þm. A.-Húnv. fyrir, að hann sé að veiða atkvæði í Húnavatnssýslunni með því að biðja um hærra kjötverð en Framsfl. vill borga, en hækkar það næsta dag meira en hv. þm. A.-Húnv. hafði viljað fara fram á. Sorgarsaga ráðh. stafar af því, að hann hefur reynt að nota dýrtíðina allan þennan tíma til þess að veiða atkvæði fyrir sig og sinn flokk, sér og sínum flokki til framdráttar.

Í síðasta blaði Tímans er grein um verðlagseftirlitið innmatur inn í blaðinu, þar sem leitazt er við að sýna fram á, að verðlagseftirlitið hafi sparað landsmönnum margar milljónir króna. Í sama blaði birtast svo reikningar Kaupfélags Eyfirðinga á fremstu síðu, og sýna þeir, að eftir að búið er að setja verðið svona niður fyrir röggsemi ráðh., gerir Kaupfélag Eyfirðinga sér lítið fyrir og skilar 10% tekjuafgangi til meðtíma sinna og leggur samt álitlega fúlgu í sjóði. Mér er jafnvel kunnugt um, að margir kaupfélagsstjórar nota ekki til fulls álagningareikvæðið. Sér er nú hver röggsemin! Það er von, að ráðh. státi! Af hverju er þetta? Mér er ekki grunlaust um, að ráðh. sé búinn að segja, hver ástæðan er. Það er til þess að kaupfélögin geti á þessum tímum aflað sjóða. En það eru fleiri en kaupfélögin, sem græða á þessu. Það gildir það sama fyrir allar verzlanir. Það eru fleiri en ráðherrann, sem sýna röggsemi. Hér í Reykjavík hefur þeim, sem fengu verzlunarleyfi, fjölgað eitthvað á þriðja hundrað. Og bara á árinu 1941, þegar hann skammtar álagninguna, fjölgar heildsölum í Reykjavík um 83. Ég verð að segja það, að ráðherrann getur ekki vænzt stuðningi míns í þessum sparnaði.

En þó að hver og einn gæti fengið hækkaðar tekjur, var ekkert athugavert við það. Það á að taka það með sköttum,sagði stjórnin. Og þegar þeir koma, halda þeir eftir 40%. Því að það verða að vera sjóðir! Það má ekki svipta fyrirtækin réttinum til þess að nota góðærið.

Ráðh. sagði, að ef það væru svik að setja lög eins og gerðardóminn, hvað ætti þá að kalla það, að Alþfl. gerði ekkert til þess að hækka kaupið allt góðærið 1940. Það er nú í fyrsta lagi ekki kunnugt um, að Alþfl. hafi gert neitt til þess að hækka kaup. Margir alþýðuflokksmenn stóðu að því, að full dýrtíðaruppbót fékkst og grunnkaupshækkun var komið á í nokkrum félögum, en ég skal játa það, að ef ég hefði séð það fyrir, hvernig löggjöf stj. mundi koma með í þessu máli, þá hefði ég hafið miklu skeleggari baráttu fyrir því, að verkalýðsfélögin heimtuðu kauphækkun árið 1940. En ég trúði því þangað til seint á árinu 1941, að það væri ætlun stj. að reyna að gera fleira en að binda kaupið. Ég trúði því, að það væri ekki aðeins slagorð, þegar sagt var, að allir yrðu að taka á sig erfiðleikana við að afstýra þeirri hættu, sem framundan er. En þegar ég svo sannfærðist um, að það var ekki ætlun stjórnarinnar að láta ganga jafnt yfir alla, sá ég, að það var eðlilegt og réttlátt, að verkalýðurinn reyndi að draga fram sinn hlut, eins og stjórnin ýtti undir, að aðrir flokkar gerðu. Það er það, sem veldur hinni breyttu aðstöðu. Aðgerðir stj. hafa eingöngu miðað að ]wí að taka af þeim verst launuðu, t.d. með hækkun mjólkurverðsins um 30% og hækkun farmgjaldanna um. 25%. Þetta varð bein eggjan til verkalýðsins til þess að reyna að ná rétti sínum.

Það er ekki rétt, að ég og Alþfl. sé að hlakka yfir óförum stj. í þessu efni. Mig tekur það mjög sárt, eins og ég hef áður sagt. Stjórnin hefur slegið met í því að auka dýrtíðina. Mér er ekki kunnugt um, að nokkurs staðar hafi aukning dýrtíðarinnar orðið eins mikil og hér. Og ástæðan er sú, að stj. hefur fallið fyrir þeirri freistni að nota dýrtíðina til þess að skapa óeðlilegan gróða fyrir vissar stéttir í landinu.

Það er ekki aðeins, að fjöldi manna græð í stórkostlega, heldur er óðum stefnt að því, að hinir ríku í landinu verði enn ríkari, að eignirnar safnist á færri og færri hendur. Það ber ekki mikið á þessu enn þá, en eftir þetta stríð verður meira af fasteignum, framleiðslutækjum og fjármunum í færri höndum en áður var. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er ekki nein tilraun til þess að ráða bót á þessu. Það hefur orðið til þess að auka vandræðin í þessu efni. Það er t.d. viðurkennt af viðskmrh., að þessi l. stöðvi ekki aukningu dýrtíðarinnar. Þau hafa ekki getað það. En þau skapa fullkomið öngþveiti, ef þau verða samþykkt. Það eina, sem hægt er að gera, er það, sem fyrir löngu hefði átt að vera búið að gera, og það er að leita samvinnu við verkalýðinn.