07.05.1942
Neðri deild: 53. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (443)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti ! Hv. síðasti ræðumaður er meðflm. frv. og ber enn fyrir sig, áskoranir, sem legið hafa fyrir frá sjómönnum og útvegsmönnum í Eyjafirði. Ég tók fram um daginn, að áskoranir 280 sjómanna í fyrra voru á annan veg en málið er túlkað í dag. Þær voru bundnar við stærð bátanna, miðuðu við 5 smál., en ætlunin var ekki að meina stærstu bátunum dragnótaveiðar. En þetta má sameina við Eyjafjörð án alls árekstrar.

Sjútvn. byggir stefnu sína á áliti sjálfs Fiskifl. Ísl., og ég legg mikið. upp úr slíkri umsögn. Enn fremur styðst n. við álit aðalfiskifræðings okkar. Mér finnst ástæða til að vísa málinu til ríkisstj. Hún hefur tök á að láta hina beztu menn rannsaka og undirbúa málið rækilega.

Mér finnst ástæðulaust að breyta orðalagi dagskrárinnar. Orðalagið á að vera kurteist, og ríkisstj. á að skilja, að henni beri að fara eftir dagskránni, þó að hún sé ekki hranalega orðuð.

Ég vona, að dagskrártill. verði samþ. og treysti því, að ríkisstj. leggi fyrir næsta þing frv. til úrlausnar á þessu máli.