12.03.1942
Neðri deild: 18. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (456)

35. mál, raforkusjóður

*Sigurður Kristjánsson:

Þetta mál er nú komið hér fram í annað sinn, og talsverðar deilur hafa verið í sambandi við það um tekjuöflun þessa sjóðs, sem í frv. er talað um. Og við, sem höfum fundið að tekjuöflunarleiðunum, höfum bent á það, og þarf ekki að endurtaka það, að það er ákaflega leiðinlegt, þegar menn taka upp vinsælt mál, eins og rafveitumálið hefur verið, og tileinka sér flutning þess, en smeygja inn í frv. um það atriðum, sem hljóta að verða deiluatriði og fela í sér eins konar refsingu á áður upp komin fyrirtæki, eða þá, sem að þeim standa, jafnframt og málið í heild á að afla nokkrum hluta landsfólksins mjög eftirsóttra lífsþæginda. Það, sem ég á við, er gjaldið, sem lagt er á þær rafveitur, sem áður eru komnar. Nú væri það ekki fjarri sanni, að þau fyrirtæki slík, sem áður hafa verið stofnuð, ef þau hafa v erið við góð skilyrði og eru orðin fjárhagslega vel stæð, legðu eitthvað af mörkum í þessu skyni. En hér er ekki gerður neinn slíkur greinarmunur á. Hér er ætlazt til þess, að rafveitur, þó að þær skuldi allt sitt stofnfé, skuli samt greiða ákveðið gjald, miðað við afl stöðvanna, hvort sem aflið er notað eða ekki notað, að mér skilst, og það getur þess vegna vel farið svo, að rafveitufyrirtæki, sem stofnað er við mjög óhagstæð skilyrði og er skuldugt og á erfitt fjárhagslega, það eigi, ef þetta frv. verður samþ., að gjalda skatt til fyrirtækja, sem njóta beztu kjara og liggja miklu léttar á þeim, sem standa undir kostnaði af þeim. Það er þess vegna áreiðanlegt, að það verður að endurskoða í meðferð þessa máls mjög nákvæmlega 2. gr. frv. og bæta úr þeim ágöllum, sem þar eru. Í upphafi réttlættu hv. flm. þetta atriði með því, að það ætti að vera endurgjald fyrir ríkisáhættu. Nú er það að sönnu nokkuð nýtt að eiga að fara að greiða fé fyrir ríkisábyrgðir, sem oftast nær hafa ekki verið annað en formið, aðeins til þess að vekja traust hjá erlendum lánveitendum, en ríkið hefur hins vegar ekki þurft á einn hátt að svara til með fjárframlögum. En þar að auki. er nú það á daginn komið, að þetta er ekki höfuðatriðið, því að hér í þessu frv. finn ég ekki, að neinn greinarmunur sé gerður á rafveitum, sem njóta ríkisábyrgðar, og öðrum, sem ekki njóta hennar. Ég vil enn fremur til stuðnings mótmælum mínum gegn þessu frv. taka fram, að ég álít það í mörgum tilfellum mjög ósanngjarnt að láta eldri rafveitur greiða gjöld til þeirra yngri á þann hátt, sem í frv. getur, og í því sambandi benda á vaxtakjörin, sem ætlazt er til, að rafveitur njóti úr þessum sjóði; það er ætlazt til, að þessir vextir verði 3%. En ég vil nú spyrja hv. flm. þessa frv. um það, á hvaða rafveitur þeir geti bent, sem nú eru til orðnar, sem njóti slíkra vaxtakjara. Það er reyndar ákaflega æskilegt, að vaxtakjör fyrir rafveitur, sem búið er að koma upp, gætu verið þessi, en þeim er, því miður, ekki hægt að breyta.

Ég vil ekki orðlengja um þetta mál, og ég vil ekki fara út í deilur um það við 1. umr., en geri mér frekar von um, að þetta ágreiningsatriði jafnist við meðferð málsins í n. En út af þessum vaxtakjörum vil ég benda á það, að hér hefur verið deilt mikið um vaxtakjör annarrar stofnunar, en það var fiskveiðasjóður, sem ekki er ætlazt til að veiti lán nema til 15 ára. En þessi stofnun á að veita sín lán til 23 ára. Þar af leiðandi hvíla lán úr fiskveiðasjóði miklu þyngra á heldur en lán úr þessum rafveitusjóði. sem frv. þetta leggur til, að stofnaður verði. En því var tekið sem fjarstæðu, að vaxtakjör úr fiskveiðasjóði eru 3%, og það fékkst ekki einu sinni, að það yrði samþ., sem samkomulag náðist um í sjútvn., að vaxtakjörin yrðu 4%. Það fékk ekki náð fyrir þessari hv. d., þrátt fyrir það, þó að lán úr fiskveiðasjóði eigi að veita til þriðjungi styttri tíma heldur en eftir frv. á að veita lán úr þessum rafveitusjóði.

Menn mega ekki taka mál mitt svo, að ég sé ekki ákveðinn stuðningsmaður þessa máls. En ég vil heldur ekki láta hjá líða að benda hv. þm. á það, að það er fullkomið ósamræmi í framkomu hv. þdm. í þessu máli annars vegar og málefnum fiskveiðasjóðs hins vegar. Og ekki heldur vil ég láta hjá líða að benda hv. þm. á, að þeir eiga ekki að taka svona á nauðsynjamálum, sem hér hefur verið gert, að smeygja inn í þau atriðum, sem eru fallin til þess að valda deilum og tefja framgang þeirra.