19.05.1942
Neðri deild: 61. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (462)

35. mál, raforkusjóður

*Pétur Ottesen:

Eins og háttv. frsm. fjhn. hefur tekið fram, er mikil breyting orðin á þessu frv., þar sem niður er felldur öruggasti og mesti fjárhagsstuðningurinn, er sjóðurinn átti að njóta. En, eins og nefndin hefur kynnt sér, er ekki byr fyrir þetta mál hér nú, og þýðir ekki um það að ræða.

Hitt er auðvitað, að við flutningsmenn þess munum halda áfram að upphaflega markinu og gera tilraun til þess að undirbyggja rafveitur hér á landi á þann hátt, er nú litur út fyrir, að verði að þoka út úr frv.

Breytingarnar fara þó ekki út fyrir hinn upphaflega ramma þessarar fyrirætlunar. Ætlazt var bæði til, að sjóðurinn veitti góðan stuðning með ódýrum lánum og styrkti auk þess stofnanir rafveitna, einkum þær, sem erfiðast væri um. Breytingarnar fara því fram innan rammans, ganga aðeins ekki eins langt í málinu og upphaflega.

Ég tel heppilegt að safna fé í sjóðinn nú, því að gera má ráð fyrir, að nú sé erfitt um framkvæmdir á þessu sviði, en mikils um vert, að fé sé fyrir hendi, er úr rætist. — Um sérstök atriði í breytingunum skal ég ekki ræða.

Hér er aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, málið mun seinna verða tekið upp að nýju. Þetta mun nú verða til bóta, en seinna ætla ég, að á muni komast betri skipan.

Svo mikilsvert tel ég að safna í sjóðinn, að þótt málið kæmi seint úr n., vildi ég, að það gæti orðið að l. á þessu þingi. Ég skýt því til hæstv. forseta, að hann greiði götu þess sem mest. Ég tel þetta nokkra úrbót, þótt framtíðarlausnin sé í frv.. eins og við fluttum það.