30.03.1942
Neðri deild: 27. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (478)

60. mál, verklegt nám kandídata frá Háskóla Íslands

*Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Þetta frv. þarf lítilla skýringa við fram yfir það. sem sagt er í grg. þess, en þó mun ég drepa lítils háttar á helztu atriðin. Í fyrsta lagi er mikil nauðsyn á, að kandidatar þeir, er útskrifast úr háskólanum, taki upp verklega menntun áður en þeir ganga inn í starf það, sem þeim er ætlað að gegna. Í öllum siðuðum löndum eru gerðar kröfur til. að menn séu búnir að fá sem mesta æfingu í starfinu áður en þeir fara að fást við það sjálfstætt. Þessi krafa er ekki einungis réttmæt, heldur einnig sjálfsögð, vegna þess að því meir og betur sem maðurinn býr sig undir starf sitt, því hæfari verður hann til að gegna því. Tökum t.d. að fela nýútskrifuðum kandidat í lögum ábyrgðarmikil rannsóknar- og dómarastörf án þess að hann fái fyrst leiðsögn eldri og reyndari manna í þeim efnum. Ef slíkt er falið óreyndum mönnum, þá virðist ekki gætt öryggis borgaranna. Sama máli er að gegna með guðfræðinga, lækna og kennara. Í öðru lagi. þá er nú vitað, að mjög erfitt reynist að fá embættismenn út í dreifbýlið. Orsök þess virðist að miklu leyti vera sú, að þeir, sem útskrifast úr menntaskólunum, eru að mestu leyti úr kaupstöðum. sem stafar aftur af því, hve aðstæður

Þeirra til skólavistar eru ólíkt betri en þeirra, er í sveit búa. Þessir menn virðast ekki þekkja neitt til í sveitum, og er því ekki nema eðlilegt. að þeir vilji frekar leita sér atvinnu í bæjunum, enda er það líka vandaminna heldur en í dreifbýlinu, því að þar verða þeir að vinna á eigin ábyrgð án tilsagnar annarra. Með verklegu námi kandidata mætti að sjálfsögðu ráða bót á þeirri eklu, sem er á embættismönnum í dreifbýlinu, og er þá mikið fengið, ef eitthvað yrði bætt úr því öfugstreymi, sem undanfarin ár hefur verið ríkjandi á þeim sviðum. Mikill vandi er að koma þessu námi þannig fyrir, að það verði ekki fjárhagsleg byrði fyrir kandídatana, en þó mundi verða hægt að komast létt út úr því, ef t.d. viðkomandi embættismenn, sem kæmu til með að taka við kandídötunum, styrktu jafnframt því, sem ríkinu að sjálfsögðu bæri skylda til að styrkja þar einnig.

Gert er ráð fyrir, að við nánari athugun náms þessa, skuli setja sérstaka reglugerð fyrir hverja deild háskólans fyrir sig. Reglugerðirnar skulu settar af ráðherra, að fengnum till. viðkomandi háskóladeilda.

Það, sem mestu máli skiptir, og í þá átt stefnir þetta frv., er, að hagkvæmar vinnuaðferðir og verkleg reynsla í hvaða fagi sem er hafi ekki minni þýðingu í störfunum heldur en bókleg þekking.

Ég óska svo, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og menntmn.