09.04.1942
Neðri deild: 31. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (482)

72. mál, vörugjald fyrir Akureyrarkaupstað

*Flm. (Sigurður E. Hlíðar):

Herra forseti ! ég skal ekki vera langorður, enda ber grg. með sér þær fyllstu upplýsingar, sem þörf er n í þessu efni.

Ég hef borið þetta frv. fram vegna þess, að bak við Það er eindreginn vilji bæjarstjórnar Akureyrar, sem fer fram á þessa heimild.

Í frv. er farið fram á leyfi til að leggja á vörugjald á Akureyri, og á að verja því fé í ákveðnu skyni, sem sé til sjúkrahúsbyggingar þar á staðnum. Sú bygging er þegar hafin, og er búið að byggja ljóslækningastofu og skurðlækningastofu. Aðsókn að þessum spítala er mjög mikil, svo að þangað eru jafnvel sendir menn alls staðar að af landinu, sérstaklega menn, sem þarf að höggva upp við berklum, því að þar er læknir, sem er sérstaklega vel fær í þeirri grein.

Sumir munu segja sem svo, að þetta sé verk, sem bærinn eigi að annast, og að verið sé að níðast á sveitunum með því að leggja slíkt gjald á þær. En þess ber að gæta, að þessi spítali er ekki aðeins byggður fyrir Akureyri, heldur líka fyrir sveitirnar í kring, og þessi hækkun, sem mun ekki vera nema um 50 þús. kr., lendir ekki nema að nokkru leyti á sveitunum, því að Akureyri með sína 5–6 þús. íbúa stendur undir miklum hluta þessa gjalds.

Hér er um almenningsmál að ræða og því ekki ófyrirsynju, að allur þorri fólks leggi eitthvað af mörkum.

Ég óska þess, að málinu verði vísað til fjhn. og vona, að menn líti með skilningi á málið og greiði fyrir því