09.04.1942
Neðri deild: 31. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (484)

72. mál, vörugjald fyrir Akureyrarkaupstað

*Flm. (Sigurður E. Hlíðar):

Ég neyðist til að segja örfá orð út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Hann segir, að þetta sé sitt principmál. Ég held, að flokksbræður hans á Akureyri hafi brotið það princip, því að þeir eru eindregið með þessu máli ekki síður en aðrir og óska ákveðið eftir að fá það fram. En að óska eftir beinum framlögum úr ríkissjóði, það er princip að fara ekki þá leið. Hér hefur skapazt sú venja, að ríkið greiði 1/3 af kostnaðinum eftir á. Ég geri ráð fyrir, að þessi regla verði viðhöfð líka hér, og við megum vænta þess, að þegar þessari byggingu hefur verið komið upp, getum við átt von á að fá 1/3 greiddan úr ríkissjóði samkv. þessari gömlu venju, en að fara fram á fyrirframgreiðslu úr ríkissjóði treysti ég mér ekki til, enda mundi margur álíta, að það væri hættuleg leið fyrir ríkissjóð, ef ætti að fara að greiða kostnað við allar spítalabyggingar fyrirfram.

Það má segja, að hækka megi útsvörin, en þess er þó að gæta, að útsvarsálagningin er takmörkuð. Höfuðverzlunarfélagsskapur bæjarins er samvinnufélag, sem nýtur sérréttinda um útsvarsgreiðslu, og því ekki hægt að ná rekstrarútsvörum af þeim félagsskap. Þess vegna hefur Bæjarstjórnin lagt til að fara þessa leið og telur það enga misbeitingu. eins og sjá má af því, að allir, sem eru í Bæjarstj., jafnvel Sósíalistaflokksmenn, sem eru þar 3, standa á bak við þetta frv.