09.04.1942
Neðri deild: 31. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (485)

72. mál, vörugjald fyrir Akureyrarkaupstað

*Finnur Jónsson:

Frv. um vörugjald til einstakra kaupstaða hafa verið fyrr hér á þingi, og manni hefur virzt, að þeim væri tekið heldur þunglega. Þó hefur einn kaupstaður, Vestmannaeyjar, fengið. þessa heimild og haft hana í allmörg ár.

Tekjustofnar kaupstaðanna eru mismunandi, en yfirleitt hafa kaupstaðir ekki haft aðra tekjustofna en að leggja á útsvör og svo gjöld fyrir ýmis hlunnindi, sem þeir hafa selt bæjarbúum, svo sem vatn, gas og rafmagn, Fyrir ekki mörgum árum fengu kaupstaðirnir leyfi til að leggja á sérstakt fasteignagjald, en það hefur yfirleitt verið regla Alþingis að gera ekki upp á milli kaupstaða og láta engan kaupstað hafa tekjustofn umfram annan, nema Vestmannaeyjar hafa haft nokkur hlunnindi, og hefur það sætt nokkurri gagnrýni frá mér og ýmsum öðrum. Ef ástæða væri til að taka upp nýja tekjustofna fyrir kaupstaðina, teldi ég, að sú heimild ætti að vera algild. Það er ekki rétt að taka einn út úr með sérstaka heimild til álagningar á vöruveltuna. Nú veit ég ekki heldur, hvort Akureyri hefur notað heimild sína til álagningar fasteignagjalds eða tekjustofna sína aðra að fullu. Ef svo er ekki, er þetta mál ekki tímabært í þessu formi. Mér er það mjög ljóst, að Akureyri er mikil þörf á að geta komið sér upp viðbótarsjúkrahúsi. Ég vildi að því stuðla, að til þess fengist sá styrkur, sem til þeirra sjúkrahúsa hefur verið veittur úr ríkissjóði. En ég sé ekki, að málið liggi þannig fyrir, að fært sé að afgreiða það og brjóta þá reglu, sem gildir um tekjuöflun kaupstaðanna. Aftur á móti finnst mér, að svo vel stæður bær sem akureyri ætti að geta fengið með hagkvæmum kjörum lán fyrir þeim hluta stofnkostnaðar, sem hann gæti ekki lagt fram nú þegar af eigin rammleik.

Ég vildi, að hv. flm. gæfi frekari upplýsingar í málinu, án þess að ég geri ráð fyrir, að þær geti breytt afstöðu minni til þess í meginatriðum.