23.02.1942
Efri deild: 3. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

3. mál, útsvör

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Hv. þdm. rekur sennilega minni til þess, að á haustþinginu var borið fram frv., sem var að efni til mjög samhljóða því frv., er hér hefur verið lagt fyrir. En með því að það náði ekki fram að ganga á því þingi, sá ríkisstj. sér ekki annað fært en að gefa út brbl. í samræmi við það.

Ástæðurnar fyrir þessu eru í rauninni svo nákvæmlega greindar í grg. frv., að það er í sjálfu sér óþarft að viðhafa langa framsögu um málið, og hv. þdm. hafa að sjálfsögðu kynnt sér grg. frv. Það er því að eyða tímanum til ónýtis að lesa það upp hér. Aðeins tel ég rétt að taka það fram, vegna setningar þessara brbl., að ríkisstj. sá ekki betur en nauður einn ræki til þess, því að eins og á stóð hefði niðurjöfnunarnefndin í Reykjavík verið óstarfhæf, þegar átti að jafna niður útsvörum hér í bænum. Núverandi skattstjóri var eindregið búinn að biðjast lausnar frá þessu starfi, en starfið er orðið svo umfangsmikið, að hann telur sér alls ekki fært að gegna því vegna annarra forgangsstarfa. Ríkisstj. sá því ekki annað úrræði en að gefa út brbl., eins og ég hef nú þegar greint.

Eins og hv. þdm. sjá af grg., er þetta að efni til ekki annað en að færa fyrirkomulagið á niðurjöfnun útsvara í Reykjavík til samræmis við það, sem er í öðrum kaupstöðum landsins.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði, að þessari umr. lokinni, vísað til hv. allshn. og 2. umr. Og ef n. teldi sig þurfa að fá eitthvað nánari upplýsingar frá ríkisstj., mun ég að sjálfsögðu veita allar slíkar upplýsingar.