23.02.1942
Efri deild: 3. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

3. mál, útsvör

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Það er nú um þetta mál að segja, að það lá fyrir hv. Ed. á síðasta þingi og var þá vísað til hv. allshn. N. þá var mjög í vafa um, hvort rétt væri að gera þær breyt., sem nú hafa verið gerðar með útgáfu þessara brbl.

Það, sem virðist vera fært sem aðalröksemd fyrir þessari breyt., er, að skattstjóri sé nú orðinn svo störfum hlaðinn. Við athugun á málinu hjá allshn. í fyrra var það viðurkennt, að þessi rök væru takandi til greina á árinu 1941 í byrjun ársins, en það stafaði m.a. af þeim miklu breyt., sem Alþingi gerði þá á skattal., og hve seint sú ráðstöfun var gerð. Það var því skiljanlegt, að það hlaut að vera erfitt fyrir skattstjórann, eins og á stóð, að sinna þessu starfi. Nefndin hafði þá samband við skattstjórann og bar þetta mál undir hann, og hún fékk þau svör þá, að á venjulegum tímum væri þetta ekki meira verk en svo, að hann gæti annað því, ef ekki væri um stórfelldar breyt. að ræða.

Nú sé ég, að í grg. frv. eru færð önnur rök, sem eru þau, að í Reykjavík sé skipun niðurjöfnunarnefndar með öðrum hætti en tíðkast í öðrum bæjum. En svona hefur það nú verið síðan 1936 og virðist ekki hafa valdið neinum árekstrum. Og eitt af því, sem allshn. í fyrra lagði mikla áherzlu á, er hið nána samband, sem hún taldi að þyrfti að vera á milli skattstjórans hér í bænum og nefndarmannanna um niðurjöfnun útsvara. En það er vitanlegt, að eins og nú er háttað með niðurjöfnun útsvara, er aðalgrundvöllurinn undir álagningu útsvara skattskýrslurnar, sem segja eiga til um efnahag manna.

Hér í Reykjavík er það svo, að enginn maður getur þekkt allan þann fjölda bæjarmanna, sem jafnað er niður á. Það gefur því að skilja, að útsvörin verða að byggjast á framlögðum skýrslum. Í kaupstöðum eru það bæjarstjórnirnar, sem skipa oddamenn niðurjöfnunarnefnda, en þeir fylgjast oft mjög vel með skattaframtölum manna. Þess vegna tel ég einmitt hliðstætt að hafa skattstjóra hér sem oddamann. Og ég vil einnig benda á það, að skattstjóri á að vera algerlega hlutlaus embættismaður, og ég legg áherzlu á þetta, hluttaus embættismaður, án þess að ég sé á nokkurn hátt að væna niðurjöfnunarnefnd, sem nú er kosin pólitískt, en þá ræður atkvæðamagn flokkanna. En eins og hún hefur verið skipuð, hafa oftast verið tveir og tveir, sem flokkarnir hafa eignað sér, Framsfl. 1, Alþfl. 1, Sjálfstfl. 2 og oddamaður hinn hlutlausi embættismaður, og ég hef ekki orðið var við í þessum bæ, að þetta hafi verið talinn neinn ljóður, nema síður sé. En með þessu fyrirkomulagi er meiri hlutinn orðinn pólítískur meiri hluti. Og ég er ekki alveg viss um, að borgarnir í þessum bæ telji það á nokkurn hátt betra fyrirkomulag en það, sem hefur verið. (BSn: Þeim er víst ekki vandara en öðrum kaupstöðum.) Það er nú sagt, að hér í Reykjavík séu átökin hörðust um, hvernig jafna eigi niður útsvörum, og sú var tíðin, að í Reykjavík þurft í að leggja mikið á borgarana. Það var því að sjálfsögðu oft mikið matsatriði, hvernig byrðarnar ætti að leggja á, kannske öllu frekar í þeim mannfjölda, sem hér er, heldur en í minni bæjum, þar sem miklu meiri kunnugleiki ríkir um ástæður og efnahag.

Ég skal á þessu stigi málsins ekki fjölyrða um þetta frekar. Málið fer til nefndar, og það má vera, að einhver skoðanamunur komi þar fram um þá ráðstöfun, sem nú hefur verið gerð, en eftir því sem ég bezt veit er búið að kjósa þennan mann, í staðinn fyrir að kjósa nefndina í heild. En það upplýsist síðar, hvað hæstv. ráðh. meinti, hvort ætti að kjósa einn mann eða nefndina að nýju.