30.04.1942
Neðri deild: 45. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (549)

114. mál, eignarnám húseignarinnar Austurstræti 5 í Reykjavík

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég vil ekki lengja umr. á þessu stigi máls, stend aðeins upp til að lýsa undrun minni yfir framkomu þessa frv. Það er vissulega undarlegt, ef ekki er hægt að jafna málið án slíks óyndisúrræðis, sem nú á að grípa til þegar á frumstigi samningsumleitana.

Frá því að háskólinn aflaði sér þessarar lóðar og þangað til bankinn sá, að háskólinn mundi geta látið hana af hendi við sig, hefur aðstaða breytzt og lóðin hækkað mjög mikið í verði. Bankinn, sem hefur af einni eða annarri ástæðu forsómað að sjá sér fyrir lóð, vill nú fá tilstyrk ráðuneytis þess, sem sér til með honum, til þess að ná kaupum á lóðinni frá stofnun, sem stendur á miklu algervari hátt undir vernd ráðuneytisins en peningastofnun þessi. Bankar, sem hafa allra stofnana mest ráð á lóðum og lendum og hafa á hallæristímum ráð fjölda annarra stofnana mjög í hendi sér, ættu ekki að þurfa að halda á hjálp löggjafarvalds í svona málum. Ef um lóðaverðið er deilt milli þessara opinberu stofnana, virðist óþarfi, að bankinn líti bar mjög smátt á, og væri engin ósvinna né öfundarefni, þótt háskólinn fengi af kaupunum nokkurn „stríðsgróða“. Hann mundi eflaust kunna að verja því fé sér og starfi sínu til hollrar eflingar, enda ráðherrans að líta eftir því. Ef bankanum þykir verðið hátt, mætti ætla, að einstaklingum þætti það ekki síður, svo að hann sé fær um að keppa við þá, og á þessum tímum má ekki líta á hann sem neina gustukastofnun. Ég tel sem sagt, að lausn málsins ætti ekki að stranda á peningunum. Inn í þetta blandast svo það, hvort einstaklingur eða jafnvel meir en einstaklingur hafi fengið rétt til að ganga inn í kaupin, eg vildi ég beina því til nefndar, að hún rannsakaði fyrst og fremst, hvort svo muni háttað málinu. Að öðru leyti vildi ég minna á, að enn er í gildi, þótt sumum þyki kannski undarlegt, 62. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins. Engan má svipta lögmætri eign hans, nema almenningsþörf krefji. Er það almenningsþörf, að háskólinn láti þessa lóð með eignarnámi? Hefði þessu verið öfugt farið og háskólinn þurft lóðina; en peningastofnunin verið sú, er neitaði, gat verið meiri almenningsþörf á eignarnámi til handa menntastofnuninni. Þetta verður n. að athuga: Er um það mikla almenningsþörf að ræða, að hún heimili á nokkurn hátt, að lög séu sett til þess að taka af háskólanum friðhelgaðan rétt hans?