30.04.1942
Neðri deild: 45. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (551)

114. mál, eignarnám húseignarinnar Austurstræti 5 í Reykjavík

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vildi spara umr., aðeins svara aths. frá tveim hv. þm. Báðir töluðu um, að sér kæmi undarlega fyrir sjónir, að þörf þætti á þessu frv., og það af sömu ástæðum og ég gat mér til um í framsögu. Nú vita menn, að afskipti ráðherra af háskólans málum eru takmörkunum háð, má deila um, hve miklum takmörkunum, — en núv. kennslumálaráðherra taldi ekki rétt að taka það á sig að grípa þarna fram fyrir hendur háskólans eða þeirra, sem með fjármál þeirrar stofnunar fara. Það er ekki rétt, að málið sé á frumstigi, þegar það kemur hingað. Mjög miklar viðræður hafa farið fram, — án meira árangurs en ég gat um. Vonlaust er ekki um, að unnt verði að fara samningaleið. En okkur þótti rétt að láta ekki hjá liða á þinginu að leita eftir vilja Alþingis um málið og afla ríkisstjórninni eignarnámsheimildar, ef rétt þykir og til hennar þarf að taka.

Hv. þm. V.-Sk. taldi, að Búnaðarbankinn hefði vanrækt að sjá sér fyrir lóð. Ég vil ekki fara að rekja það hér, með hverjum hætti þau kaup fóru fram, er háskólinn fékk þessa lóð, en bankinn missti af kaupum, en bankinn var ekki alls kostar ánægður með þann hátt. Ég tel ekki, að þar hafi átt sér stað nein vanræksla af hendi forstöðumanna Búnaðarhankans.

Forkaupsrétturinn er mjög alvarlegt atriði í málinu. Í hv. allshn. sitja lögfróðir menn, og vonast ég til, að n. athugi, hvort unnt er að gera þessi kaup, ef samningar næðust, án þess að forkaupsréttur verði til baga. Ég verð að líta svo á, að það sé almenningsþörf, að bankinn njóti lóðarinnar, frekar en t.d. einstakir menn fái hana til afnota. En það verður auðvitað að vera undir mati þingsins, þótt við flm. séum einhuga um, að almenningsþörf sé fyrir hendi.

Ég óska ekki að auka kapp í umr. um málið.