04.05.1942
Efri deild: 48. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er nú búið að ræða þetta mál, sem hér liggur fyrir til 1. umr. í þessari hv. d., ákaflega mikið á hæstv. Alþ. og ýtarlega. 1. umr. málsins í hv. Nd. var útvarpað, og drógu menn þá fram skoðanir sínar um málið, og auk þess hefur málið verið mikið rætt í hv. Nd. Ég veit ekki, hversu vel hv. þm. hafa fylgzt með þessum umr., en geri ráð fyrir, að þær hafi ekki farið fram hjá þeim með öllu. Og ég geri því ráð fyrir, að það sé fullkomlega eðlilegt, þó að nokkru óýtarlegri verði framsaga málsins hér í hv. d. heldur en hún var í hv. Nd.

Það er nú, a.m.k. að nafninu til, viðurkennt af öllum, að mikil nauðsyn sé á að hamla á móti aukningu dýrtíðarinnar, og vantar ekki, að þetta hafi einnig verið viðurkennt áður, þó að sumir hafi hins vegar, þegar til framkvæmda skyldi koma, sett fæturna fyrir nauðsynlegar framkvæmdir til þess að þetta gæti tekizt. Og það hefur átt sér stað, að þeir menn, sem mest hafa talað um nauðsyn á því að stöðva dýrtíðina, hafa verið hvað ötulastir í því að koma fyrir kattarnef þeim ráðstöfunum, sem líklegastar voru til þess að bera nokkurn árangur til þess að hamla á móti aukningu dýrtíðarinnar.

Eftir að menn höfðu velt þessu máli fyrir sér, án þess þó að gera þær framkvæmdir, sem bæru nokkurn árangur, þá voru um síðustu áramót gerðar ráðstafanir til þess að taka á þessu máli á heilsteyptan hátt. Það munu a.m.k. flestir vera sammála um það, að ef það eigi að takast að draga úr eða stöðva verðhækkunarölduna, þá sé það eitt af undirstöðuskilyrðunum fyrir því, að það sé hægt, þó að það eitt út af fyrir sig sé ekki nóg að hafa eftirlit með verðlagi og kaupgjaldi í landinu. Það mun enda viðurkennt, að þess sé í raun og veru enginn kostur að ráða við verðbólguna. ef þetta hvort tveggja eigi sér ekki stað. Að vísu hefur, af ýmsum pólitískum ástæðum, verið mikið talað um það, að hægt sé að stöðva verðbólguna með því einu að hafi eftirlit með verðlaginu, og þá að sjálfsögðu sérstaklega á innlendum framleiðsluvörum og verzlunarálagningu. Því er haldið fram af sumum, að þetta eitt sé nægilegt sem undirstöðuráðstafanir til þess að stöðva verðbólguna, en að kaupgjaldið hafi engin áhrif á verðlagið, — það er hin nýstárlega kenning —, og því sé sama, hvernig kaupgjaldið breytist, ef aðeins er haldið niðri með löggjöf verðlaginu, sérstaklega á landbúnaðarafurðum, og vöruálagningunni. Í öllum löndum öðrum en hér á landi mun það vera alviðurkennt, að það sé hrein endileysa, að hægt sé að hafa tök á þessum málum, nema með því að taka alla þá liði til eftirlits, sem áhrif hafi á verðmyndun í landinu. Enda eru fordæmin fyrir okkur í öllum þeim löndum, þar sem ráð.. stafanir hafa verið gerðar í þessum efnum, að það fyrsta, sem gert er í hverju slíku landi, er að hafa opinbert eftirlit með vöruverði og kaupgjaldi og svo húsaleigu og öðru fleiru, sem ekki er neinn ágreiningur um hér, að þurfi að líta eftir.

Þar sem ekki hefur verið hægt að komast að samkomulagi við hlutaðeigendur, t.d. að ríkisstjórnin hafi getað samið við verkamenn um að halda óbreyttu grunnkaupi, þá hefur það verið ákveðið með l., að grunnkaup skuli haldast óbreytt, með þeim undantekningum, sem í þessari bráðabirgðalöggjöf felast. Og í Canada, Bretlandi og Ástralíu hefur þetta verið gert. Er það þó ekki fyrir það, að í þessum löndum starfi stjórnir, sem telji sig líta fram hjá hagsmunum einnar af þeim stéttum, sem hér eiga hlut að máli, heldur fyrir þá sannfæringu, eftir að hafa rannsakað þetta mál í einlægni og alvöru, að það er ekki hægt að framkvæma þetta eftirlit svo, að gagn sé að, nema allir þessir liðir séu dregnir þar undir. Niðurstaðan hér um síðustu áramót varð sú, þegar það þótti sýnt, að verið væri að setja af stað kauphækkunarbylgju víðs vegar um landið í ýmsum greinum, sem mundi leiða af sér allsherjargrunnkaupshækkun í landinu, að þá þótti ekki fært að bíða lengur, ef eitthvað ætti að gera í þessu máli, og þá var sett löggjöfin um gerðardóm. í kaupgjalds- og verðlagsmálum, sem hér liggur fyrir með öðru nafni. Samkvæmt þessum l. er óheimilt að breyta verðlagi og kaupgjaldi frá því, sem var á síðasta ári, nema með samþykki gerðardómsins, sem nú kallast dómnefnd, og gert var ráð fyrir, að hann færi eftir þeirri reglu, að grunnkaup hækkaði ekki, en hann mátti þó víkja frá því til lagfæringar og samræmingar, ef sérstakar ástæður væru fyrir hendi. Þessi löggjöf hefur verið framkvæmd aðeins í nokkra mánuði. En byrjunarárangurinn af þessu starfi, sem hafið hefur verið til þess að vinna á móti verðhækkun, hefur þó nú þegar orðið sá, að síðan þessi l. voru samþ., hefur verðlagsvísitalan í landinu staðið í stað, en áður hækkaði hún stöðugt af einum og öðrum ástæðum. Þegar þessi undirstaða var fengin, sem löggjöfin er, töldu menn fyrst, að hægt væri að gera allar hliðarráðstafanir, sem gera þurfti til þess, að ráðstafanir til þess að halda niðri verðlaginu gætu komið að haldi, t.d. að verja af almennu fé til þess að halda niðri verðlaginu. Hins vegar voru menn ekki fáanlegir til þess að verja opinberu fé til: þess að halda niðri verðlaginu, meðan ekki var trygging fyrir því, að það fé, sem til slíks væri varið, færi ekki gersamlega til einskis, vegna þess að verðlag á innlendum afurðum og kaupgjald hækkaði þrátt fyrir þetta. Þessi löggjöf hefur því skapað undirstöðu undir önnur framkvæmdaratriði málsins heldur en verðlagseftirlitið og eftirlitið með kaupgjaldinu, sem til framkvæma hafa verið tekin.

En nú er ljóst, að þessi löggjöf út af fyrir sig er ekki fyllilega nægileg. Menn verða að vera við því búnir, að verð á vörum erlendis, sem hingað verða fluttar, hækki, og að framleiðslukostnaður hækki innanlands, og verða menn að vera við því búnir að verja fé til þess að mæta því, til þess að dýrtíðin aukist ekki við það. Menn verða að gera sér ljóst, að því fé, sem notað er í þessu skyni, er ekki á glæ kastað. En hitt verða menn líka að athuga, að það verður að afla þessa fjár jafnóðum, og er ekki hægt að leggja byrðar á framtíðina í því efni. Í þetta er eðlilegt að nota það fé, sem kemur inn með stríðsgróðaskatti, og tekjur af útflutningsgjaldi á sölu skipa, sem sigla til Englands og selja með miklum hagnaði. Má telja það illa farið, að ekki skuli hafa fyrir löngu verið gengið inn á þá braut að nota þann tekjustofn. (ErlÞ: Hverjum er það að kenna?). Það er að kenna þeim, sem yfir skattamálunum og tollamálunum ráða. Það má gera ráð fyrir, að það sé illa farið, að slíkt skuli ekki fyrir löngu hafa verið gert, því að það er eðlilegur tekjustofn, sem til greina kom í því sambandi. Menn verða, sem sagt, að gera sér grein fyrir því, að þessi löggjöf út af fyrir sig er ekki nægileg. Menn verða að búa sig undir það að verða að verja fé til þess að halda dýrtíðinni í skefjum, og að því verði líka að fylgja rauðsynlegar ráðstafanir til þess að vinnuaflið í landinu verði til staðar til nauðsynlegra framleiðslustarfa, þannig að framleiðsla matvæla ot þess annars, sem nauðsynlegt er, geti haldið áfram óhindrað. Þetta hangir allt saman eins og keðja og verður að athugast í heild.

Það hefur nú verið gerður mikill þytur um þessa löggjöf, og má undarlegt teljast, að það skuli hafa verið reynt, og því undarlegra, að það skuli hafa tekizt, þar sem forsvarsmenn allra þeirra flokka, sem að ríkisstjórninni stóðu, voru á síðasta hausti sammála um það, að bezt væri fyrir verkamenn, og alla yfirleitt, að grunnlaun breyttust sem minnst, og menn kepptust þá við að lýsa þessu yfir. Sama skoðun var hjá Alþýðusambandi Íslands á þeirri till. Eftir að það kom til orða, var það upplýst í ríkisstj. af ráðh. Alþfl., sem þá sat, að yfirleitt væri það álit manna í stjórn Alþýðusambandsins, að skynsamlegast væri að vinna að því, að grunnkaup breyttist sem minnst. Hins vegar, þegar til greina kom að setja um þetta löggjöf, þar sem sýnt var, að að öðrum kosti mundi ný kauphækkunaralda skella yfir, breyttu sumir menn skyndilega alveg um skoðun í málinu og túlkuðu það sem sérstaka árás á verkalýðinn og launastéttirnar í landinu, að þær mættu ekki hækka grunnlaun sín. Þetta tal mun nú líklegast vera á yfirborðinu, en mun mest vera tekið upp af pólitískum ástæðum, og er ekki um það að sakast. Verður hver að meta það við sjálfan sig, hvernig hann hagar málflutningi í þessu efni.

Það hefur verið talsvert mikið um það talað, að þessi löggjöf hafi verið brotin. Má vel vera, að ekki hafi verið alls kostar farið eftir þessari löggjöf. En ég veit, að andstæðingar löggjafarinnar gera meira úr slíku heldur en nokkur ástæða er til, það er mér persónulega kunnugt um, af því að ég hef getað athugað sumar þeirra fullyrðinga, sem andstæðingar málsins hafa borið fram í þessu efni. Þeir hafa viljað telja þessa löggjöf gagnslausa, af því að hún hafi verið brotin. Ég hef áður minnzt á, hvaða árangur þessi löggjöf hefur borið, að haldið hefur verið fastri dýrtíðarvísitölunni, síðan þau voru sett. En þó að þau séu kannske brotin í einstökum atriðum og farið sé í kringum þau, þá er það ekki dómur um það, hvort löggjöfin nær í aðalatriðum tilgangi sínum eða ekki. Við höfum t.d. skattalöggjöf og brjótum hana með ýmsum hætti. Við vitum allir vel, að ýmsir menn svíkja undan skatti. Samt dettur engum manni í hug að bera sér það í munn, að skattalöggjöfina ætti að afnema, því að hún næði ekki tilgangi sínum, af því að hún væri brotin: Sama er að segja um þá löggjöf, sem sett hefur verið um húsaleigu. Það er sjálfsagt eitthvað farið í kringum þá löggjöf, ég hef það fyrir satt. Þó dettur engum í hug að halda því fram, að húsaleigul. hafi ekki gert ákaflega mikið gagn. Eins er með þessa löggjöf. Þótt að einhverju leyti sé farið í kringum þessi l., þá er það ekkert aðalatriði þessa máls, heldur hitt, hvort l. ná aðaltilgangi sínum, að stöðva kaupgjalds- og verðlagshækkun yfirleitt. Eitthvað svipað mætti sjálfsagt segja um framkvæmdina í áfengismálunum.

Ég geri ráð fyrir, að þeir menn, sem mest hafa talað um, að þessi löggjöf, sem hér liggur fyrir til umr., sé óalandi og óferjandi, hafi á sinni tíð haldið fram, að talsvert gagn hafi verið af l. um áfengisverzlun ríkisins, þó að þau l. hafi ekki þurrkað landið að áfengi. — Þetta eru ákaflega veigalitlar röksemdir, að þessi löggjöf sé gagnslaus, af því að hún sé brotin.

Ég hef nú aðeins stiklað á örfáum atriðum, sem snerta þetta mál. Því að ef umr. verða hér um þetta mál, hljóta þær að verða endurtekning á því, sem áður er sagt. Fer ég því ekki nánar út í að ræða málið að sinni. Ég mun ekki heldur ganga svo ýtarlega að því að svara þeim aths., sem koma fram við löggjöf þessa af hálfu hv. þdm. hér í hv. d., eins og gert hefur verið við umr. þessa máls áður í þinginu, nema eitthvað nýtt komi fram, sem sérstök ástæða væri til að drepa á.