23.02.1942
Efri deild: 3. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

3. mál, útsvör

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég ætla að segja örfá orð út af ræðu hv. 11. landsk.

Það var rétt hjá honum, að það var ekki gefið út opinbert álit af hálfu allshn. í málinu, og það, sem ég hef þá túlkað í minni fyrri ræðu, er það, sem við röbbuðum saman innan n. En ég held, að ég fari í öllum aðalatriðum rétt með, þegar ég segi, að skoðun n. þá hafi verið sú, að hún teldi þessa breyt ekki tímabæra. Um önnur rök hirði ég ekki að ræða.

Ég hygg, að það sé svo í þessu máli sem öðrum, að erfitt muni að snúa mönnum frá sinni fyrri stefnu.

Ég skal þá víkja örfáum orðum að því, sem hæstv. fjmrh. sagði. Hann kom í raun og veru ekki með neitt nýtt, sem ekki er þegar vitanlegt, að með þessu væri verið að berjast fyrir að koma á sama skipulagi hér sem annars staðar, að það sé pólitískur meiri hluti, sem ræður um álagningu útsvara.

Ég tel það alveg sérstakan kost fyrir Reykjavík, að sú regla hefur gilt, að hlutlaus maður sé oddamaður. Og ef ég hef skilið allshn. rétt í fyrra, þá hygg ég, að hún sé ekki fráleit þessari skoðun. Og þó að það sé útséð um það, hvernig um þetta mál fer, þar sem nú er næstum búið að framkvæma l., þá á það jafnan rétt á sér að láta koma fram skoðanir, hversu ólíkar sem þær kunna að vera.

Ég tæpti á því í ræðu minni áðan og lagði enga spurningu fyrir hæstv. fjmrh. um það, hvort bæri að leggja þann skilning í l. eins og þau eru nú, að kjósa ætti einn mann. Mér finnst eftir orðalagi 1. gr. frv., að full ástæða hefði verið til, þegar farið væri að framkvæma l., að kjósa n. á ný, og ég vildi þá spyrja hæstv. ráðh., hvort þetta sé hans skilningur á þessum l., eins og þau liggja fyrir. Um hitt skal ég ekki þrátta meira, hvort þetta sé heppilegra eða ekki.