20.05.1942
Efri deild: 62. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég skal taka fram strax, að mér er fyllilega ljóst, að hv. frsm. meiri hl. og aðrir meðnm. mínir eru að inna af höndum þegnskyldu með því að tala fyrir þessu frv., og ég tók því ræðu hv. frsm. sem einn lið í þessu þegnskyldustarfi. Ég sé, að hann hefur vikið sér burt úr deildinni, og hann ætlast sýnilega ekki til, að við hann sé rætt um málið, sem ég get þó ekki látið vera.

Eins og sjá má af nál. mínu á þskj. 461, hef ég þar tekið fram aðalatriðin um upphaf þessa frv., en það er ekki nema nokkur hluti af því, sem rétt er og skylt að benda á. Ég skal reyna að sneiða hér fram hjá þeim atriðum, sem talin eru upp í nál., þó að sumt mætti ræða ýtarlegar heldur en þar er gert. Undir meðferð málsins í Nd. skilaði minni hl. allshn. þar svo ýtarlegu nál. um málið, og þar komu fram svo rökstudd og greinargóð mótmæli gegn frv. sem frekast verður á kosið. Það má enn fremur segja, að það muni engan árangur bera að ræða um málið, eins og nú er komið, að meiri hl. þingsins hefur orðið sammála um að láta það ná fram að ganga. Það mun vera venja að ræða málin við 2. umr. með gagnrýni, en hæstv. forseti gat þess við 1. umr. málsins, að hann byggist við, að almennar umr. færu fram við 2. umr. Ég tel nú enga þörf á að gagnrýna einstakar greinar frv. eða efni þeirra, og mun ég tala meira almennt um málið og sérstaklega svara ræðu hv. frsm. meiri hl. Ég vil benda á, að með samþykkt þessa frv. er fellt úr gildi ákvæði frá 2. júlí 1940 um verðlag, og það er álitamál, hvort rétt sé að leggja þau l. niður. Mér skilst, að dómnefndin, sem á að taka við starfi verðlagsnefndar, hafi nóg að gera, þó að hún hefði ekki starf verðlagsnefndar sem aukastarf, þar sem verðlagsnefnd hefur verið önnum hlaðin. Og ég efast um, að betur verði séð fyrir verðlagseftirlitinu eftir en áður. Eins og ég gat um í nál. mínu, eru hv. þm. að blekkja sig sjálfir, ef þeir samþykkja þessi l., sem eiga að gilda til ársloka 1942. Ég hygg, að þeir, sem að frv. stóðu, hafi litið þannig á, að stöðvun allrar kauphækkunar í landinu sé aðalatriðið til að halda dýrtíðinni niðri. Þetta hefur verið rætt utan þings og innan, og það hafa verið færð full rök að því, að þó að kaup hækkaði nokkuð, mundi slíkt ekki valda neinni hækkun á vísitölunni né yfirleitt ráða verðlaginu í landinu. Ég skal svara hv. frsm. meiri hl. því, að síðan l. þessi voru sett, hefur kaupgjald hækkar meira hér í Reykjavík og nágrenni heldur en verkalýðsfélögin dreymdi um, að gæti orðið með frjálsum samningum. Þrátt fyrir þetta er það talið lögunum til gildis, að vísitalan skuli standa óbreytt allan þennan tíma. Eins og ég drap á í nál. mínu, hafa aðrar ástæður valdið því, að vísitalan hefur haldizt óbreytt. Það er vegna þeirra ráðstafana, sem Alþfl. á sínum tíma beitti sér fyrir, að teknar yrðu upp, og settar voru inn í gengisl. 1941. Þær voru á þá leið að fella niður tolla á þeim vörum, sem hefðu mikil áhrif á vísitöluna. Þessar ráðstafanir hafa verið gerðar eftir að þetta þing kom saman, og þær hafa haft þær sjálfsögðu verkanir að vísitalan hefur staðið í stað, en á sama tíma hefur kaupgjald hækkað með aðferðum, sem ég skal skýra frá síðar. Þetta sýnir, að það er ekki kaupgjaldið, sem þarf að binda til þess að halda dýrtíðinni niðri, heldur er það verðlagið í landinu, sem hefur valdið dýrtíðinni. Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessum málum hafa verið á þann veg, að flest hefði fyrr og betur mátt gera en gert hefur verið.

Nú ætla ég að færa orðum mínum stað um það, að kaupgjaldið hefur beint orðið meira en náðst hefði nokkurn tíma með frjálsum samningum. Það er reynsla hér hjá daglaunamönnum, að nú verða atvinnurekendur að kalla eftir fólki, í stað þess, að verkamenn urðu áður að bjóða sig fram. Til þess að brjóta ekki ákvæði um bann við kauphækkun, er mönnum borgað fyrir svo og svo marga tíma, sem þeir eru ekki að vinna, og kaupið bætt upp á þann hátt. Þetta er við alls konar vinnu, og jafnvel við það, sem við köllum framleiðsluvinnu. Atvinuurekendur hafa orðið að greiða mönnum hækkað grunnkaup, og mér er ekki kunnugt um, að nokkurn tíma hafi verið leitað til gerðardómsins um það, hvort slíkt væri löglegt eða ekki. Það er ekki nóg með það, að það kaupgjald, sem iðnaðarmenn, tréskerar og aðrir slíkir fá, sé mun hærra en kaup verkamanna, heldur eru þeim líka gefnir aukatímar, sem þeir ekki vinna við störf sín. Þetta á einkum við hér í Reykjavík og nágrenni. Það er líka viðurkennt, að hið opinbera hefur orðið að greiða mönnum sínum, fastlaunuðu skrifstofufólki og slíkum mönnum, hærri laun en leyft er. Mér er heldur engin launung á því, að á sama tíma og verið var að setja þessi l., mun fjmrn. hafa haft með höndum beiðni frá einni stétt manna um launabætur. Þetta voru tollverðirnir. Þeir fengu kauphækkun sína, og er ekki nema gott eitt um það að segja, en þetta var á sama tíma og verið var að setja þessi l. Það er líka orðið kunnugt, enda opinberlega sagt frá því í blöðum, að bæjarstj. Reykjavíkur samþykkti verulega hækkun á grunnkaupi og ýmis hlunnindi, sem hún veitti sínum föstu starfsmönnum: Og það er vitað um ýmsa aðra, sem greiða uppbætur frá því, sem verið hefur, enda taldi bærinn nauðsyn á, að slíkt væri gert. Það er kallað eftir störfum við vegalagningar og vegagerðir, og eins og kunnugt er, var kaupið við þá vinnu svo hræðilega lágt, að það var erfitt að fá menn til slíkrar vinnu eftir að atvinna tók að glaðast í landinu. Það var minnzt á það árið 1940 af Alþýðusambandi Íslands, að samið verði um nokkurn veginn fast kaupgjald í vegavinnu, og fór sambandið fram á, að kaupið væri hækkað úr 90 aurum upp í kr. 1.15 á tímann, en það var ekki við það komandi að hækka það. En hvað er nú gert? Nú mun kaupið hafa verið kr. 1.00 opinberlega við vegavinnu, en máske hafa verið einhverjar faldar greiðslur og margir haft hærri laun. En nú er .mér kunnugt um, að í nágrenni Reykjavíkur er borgað Dagsbrúnargrunnkaup, sem er kr. 1.45 um tímann, og er þetta gert með samþykki ríkisstj., meira að segja þeirrar, sem setti þessi l. Fjær Reykjavík mun vera greitt kr. 1.30 á tímann. Svo segja menn, að l. hafi haldið kaupgjaldinu í skorðum ! Ég skal játa, að ég er ánægður fyrir hönd hinna vinnandi manna, að þeir hafa fengið þessa hækkun. En það sýnir, hve máttlaus I. eru til þess að halda kaupinu í skorðum. Nú spyrja menn: Úr því að svona er komið hjá fjölda manna, hví eruð þið þá að amast við þessum l.? Ég hef bent á ýmsa landshluta, þar sem eftirspurnin er minni og kaupgjaldið óbreytt. Verkamenn hafa þar ekki þá aðstöðu, sem þarf til að knýja þetta fram. Ég hef ekki orðið var við, að kaup hafi hækkað á Norðurlandi, Vesturlandi eða Austurlandi, a.m.k. ekki til neinna muna. Þetta gerir það að verkum, að mismunurinn milli landsfjórðunga er orðinn mikill, og það hefur aðra erfiðleika í för með sér, því að nú flykkjast menn á þá staði, þar sem þeir fá bezt borgað. Þess vegna viljum við fá frjálsar hendur til þess að laga þetta ósamræmi.

Ég hef nú sýnt fram á, að þrátt fyrir máttleysi l. up að ná áætlun sinni, hafa þau á valdi sínu takmarkanir, sem ég tel þurfa að ryðja úr vegi. Ég skal benda á það, að meðal stétta í bænum, sem ekki geta farið á opinn markað, eru t.d. bókbindarar, sem verða að búa við laun sín, sem ekki eru svo ýkja há. Eins er með prentarana: Allir vita sögu þeirra. Þeir hafa ekki yfirgefið starf sitt. Ég hef aðra stétt í huga. Það er vitað meðal sjómanna, að þeir hafa margir fengið bætur, og ég geri ekki ráð fyrir, að þeir geri auknar kröfur. Því veldur líka allgóður afli og sæmilegt verð á fiskinum, og þeir, sem sigla yfir höfin, hafa tekjur vegna áhættunnar. En það er ein stétt, einn hópur sjómanna, — og ég vil að það komi fram —, sem ekki hefur fengið neinar bætur, en það eru þeir, sem sigla með ströndum landsins, bæði á strandferðaskipunum og gæzluskipunum. Þeir hafa sitt fyrra kaup og einfalda dýrtíðaruppbót. Ég skal geta þess, að við skrifuðum Eimskipafélaginu og Skipaútgerðinni og óskuðum eftir, að við mættum ræða í fullu bróðerni um þetta við þá, en fengum þau ein svör, að þeir mættu ekki gera neinar kauphækkanir, vegna ákvæða gerðurdómsins. Vegna l. var ekki hægt að fá friðsamlega lausn á málinu, og vegna þeirra verða þessir menn að búa við rangindi og órétt umfram aðra menn í sömu stétt. Ég hef svo mikla reynslu af því, hvaða óánægju og erfiðleikum þetta hefur valdið, að ég get ekki sagt annað en að þessi l. séu einhver þau óþörfustu, sem sett hafa verið í þessu landi með tilliti til ástandsins, sem nú ríkir.

Frsm. meiri hl. taldi, að ég hefði haldið því fram, að kaupgjaldið hefði ekki nein áhrif á vísitöluna. Ég hef gert þessu nokkur skil, en það mun ef til vill verða gert nokkuð ýtarlegar. En ég skal geta þess, að ef kaupbindingin hefði ekki komið, er ekki vafi á því, að miklu heilbrigðar í grundvöllur hefði skapazt fyrir launagreiðslur víðs vegar um landið en það ósamræmi, sem orðið hefur við það, að lögin hafa æst upp öll öfl meðal verkamanna og atvinnurekenda til togstreitu um launin. Frsm. meiri hl. taldi að ekki meira að binda vinnuafli, eða þá vöru, eins og hann kallaði það, en annað. Nú er rétt að geta þess, að í frv. er lítil smuga gerð um það, að hægt sé að laga grunnkaup til samræmis. Þetta er aðeins hægt að gera með því að viðkomandi atvinnurekandi geti fallizt á það. Að vísu getur dómurinn ráðið þessu, en það er einn fyrirvari um það, og það er hinn aukni tilkostnaður, sem alltaf er hægt að leggja fram reikning um, réttan eða rangan, og það þýðir, að þegar kaupgjaldið hækkar, getur framleiðsluvaran hækkað eftir því sem gott þykir. Það er alltaf hægt að búa til kostnaðarreikning, kannske réttan, kannske ýktan svo og svo mikið, eins og maður þekkir. Ef í l. væri eitthvert ákvæði líkt þessu fyrir verkamannasamtökin, ef þau mættu hafa nefnd, sem segði, hvað verkamennirnir mættu hafa í laun til þess að þau væru réttlát, ef þau mættu hafa nefnd, sem segði., hvað mætti borga á hverjum tíma, og dómnefndin sjálf, eða önnur nefnd, væri svo bara „pro forma“ til þess að leggja blessun sína yfir úrskurði þessarar nefndar. En það var ekki gert, enda ekki óskað eftir því.

Þá vildi frsm. bera þessa löggjöf saman við húsaleigul. Húsaleigul. eru stórmerkur þáttur í því að halda dýrtíðinni niðri. Og ég held, að þeir, sem í byrjun hafa verið tvíátta um gildi þeirra, hafi að lokum komizt að þeirri niðurstöðu, að ef þau hefðu ekki verið, mundi dýrtíðin rjúka svo upp úr öllu valdi, að ekki yrði hægt að hafa hemil á neinu í sambandi við hana. Reynslan frá fyrri styrjöld hefur sannað þetta. Eitt af því fáa, sem þá var gert, var að binda húsaleiguna. Ég skal þó játa það í sambandi við húsaleigul., að þau skapa þröngar skorður. En það er engin sérstök stétt, sem býr við þau umfram aðrar stéttir þjóðfélagsins. Það er engin sérstök stétt húseigenda, og það munu vera tiltölulega fáir, sem lifa á því eingöngu að leigja út hús. Þetta kemur eins hart niður á verkamanninum og embættismanninum, svo að lögin ganga jafnt yfir alla, og það er ekki sambærilegt. Ég hygg, að ef húsaleigul. væru afnumin, væri tekinn tappinn úr vörnunum gegn dýrtíðinni, og ég býst við, að við mundum sjá dýrtíðar flóðið fara upp úr öllu valdi. En þetta er ekkert sambærilegt við það, ef kaupið hefni fengið að fara eftir eðlilegum leiðum um breytingar með frjálsu samkomulagl. Þetta hef ég sýnt fram á hér.

Frsm. breiddi sig mjög út yfir það, að við, sem erum andstæðingar þessa máls, vildum einungis afnema kaupbindinguna og láta allt hitt standa. Ég hef nú bent á, að aðstaðan er ekki jöfn, en ég vil enn fremur benda á, að flokkur okkar hefur alltaf viðurkennt, að bændur og aðrir framleiðendur á íslenzkum landbúnaðarvörum ættu að fá fyrir framleiðslu sína sómasamlegt verð, og ef tilkostnaður sýndi sig að verða meiri en verðlagið þyldi, höfum við bent á þá einu leið, að gerðar verði ráðstafanir af því opinbera til að greiða bændum mismun á tilkostnaði vörunnar og söluverði hennar, og hygg ég, að þetta sé einhver róttækasta ráðstöfunin til þess að halda vísitölunni niðri, að bæta bændum upp úr ríkissjóði, að undangenginni rannsókn, sem hefði sýnt og sannað, hvað þeir ættu að fá fyrir vöruna. Það er ekki hægt að neita því, að flestar þær vörur, sem framleiddar eru í landinu, hafa haft óvenjulega mikil áhrif á vísitöluna, og það er vegna þess, að ekki var horfið að því ráði, sem Alþfl. var að benda á, að reikna út eins konar búreikningavísitölu. Þetta var ekki gert. Sem sagt, allar þær skynsamlegu ráðstafanir, sem hefði þurft að gera, hafa ekki verið gerðar, nema nú síðast í sambandi við tolla og farmgjöld. Það er þó ýmislegt, sem stj. hefur gert. Hún keypti kolafarm og greiddi verðmismun á honum. Einnig á tilbúnum áburði, sem fluttur hefur verið til landsins, var verðmismunurinn greiddur úr ríkissjóði. Þetta er spor til þess að halda dýrtíðinni niðri, og það hefur verið gert án þess að þrengja kost hinna vinnandi manna.

Ég hef nú hér bent á ýmsa ágalla þessara l. Það má margt og mikið segja um það, hvernig l. hafa verkað og hvernig til hefur tekizt um framkvæmd þeirra, og raunverulega mun sá flokkurinn, sem stóð næst því að þau voru sett, vera búinn að missa trúna á, þeim. Mér er tjáð, að a.m.k. annar fulltrúi þeirra í dómnum, Vilhjálmur Þór, hafi sagt sig úr honum, en ég veit ekki fullar sönnur á því. Þetta er ekki nema viðurkenning á því, að þessi ráðstöfun hafi svo hrapallega mistekizt, að tilgangi hennar hafi alls ekki verið náð, og þetta er sú bezta viðurkenning, sem fæst fyrir því, að í þessu verki hafi ekki fylgt hugur máli, nema aðrir hafi hvatt þá til þess, sem ég skal ekki segja um.

Ég hefði haft gaman af að mega tala við einhvern af ráðh. núverandi stj., því að samkvæmt þeirri yfirlýsingu, sem forsrh. gaf við stjórnarskiptin í gær, tjáði hann þjóðinni, ekki aðeins að þessi l. yrðu samþykkt, heláur að þeim yrði framfylgt. Ég veit satt að segja ekki, hvernig stjórnin ætlar að fara að því. Verkalýðurinn hefur spyrnt af sér böndunum í ákaflega mörgum tilfellum, — því miður ekki alls staðar —, en sennilega kemur sá tími, að hann geri það betur.

Ég held ég verði nú að ljúka þessu máli mínu. Það er eins og vant er, þegar rædd eru deilumál hér, að þá eru ekki þéttskipaðir bekkir, ég óska ég það skráð í þingtíðindum, að forseti situr hér aðeins yfir þeim þm., sem andmæla málinu, en enginn hinna lætur sjá sig, að undanteknum skrifurunum. Þetta er spegill af því, hvernig yfirleitt er hér á Alþingi, þegar rætt er um stór og merk deilumál, er uppi eru í þjóðfélaginu, og það er lærdómsríkt fyrir eftirkomendur okkar, til þess að geta dæmt um, hvernig fulltrúar hafa rækt störf sín sér á Alþingi, hvað þetta snertir.

Ég vil ljúka máli mínu með því að hafa upp orð, sem einn þjóðkunnur borgari sagði, kannske í gáska, við mig í gær, og voru þar fleiri viðstaddir. Við vorum að tala um þessi l., og sagði hann, að þau væru sett af illmennsku, hefðu staðnæmzt í heimsku og enduðu í ræfildómi, og ég held, að þetta sé bezta lýsingin á þessari löggjöf og þessu frv., sem hér er til um.