06.03.1942
Efri deild: 11. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

3. mál, útsvör

*Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Hv. frsm. meiri hl. kom með svo fátt nýtt sem rök fyrir máli sínu, að ég veit ekki, hvort það tekur því að gagnrýna ræðu hans. Hann vildi meina, að þetta hefði stafað af breyt., sem gerð hefði verið á l. 1926, og að þá hafi n. verið gefinn sá réttur, sem var í höndum skattan., þ.e. að fylgjast með skattaframtölum. Það má vel vera, að þetta sé rétt, en það breytir ekkert því, sem við deilum um. Hins vegar vildi hann halda því fram, að félmrh., sem lagði fram frv. í þessari d. á s.l. hausti, að það hafi verið hans skoðun persónulega, að þessa breyt. skyldi gera. En ég held, að ég hafi skýrt frá því innan n., að hann legði áherzlu á það, að þetta mál gengi fram.

En það er annað, sem ég vildi svara hv. frsm. meiri hl. Hann sagði, að það væri dálítið, varhugavert fyrir meiri hl. bæjarstj. að geta ekki ráðið niðurskiptingu útsvara, og varpaði hann þeirri spurningu fram til mín, hvernig ég mundi líta á þetta, ef Alþfl. hefði meiri hl. hér í bæjarstjórn. Nú skal ég hreinskilnislega svara honum frá mínu sjónarmiði — ég get ekki svarað fyrir alla mína flokksmenn —, að ég lít þannig á. að hér í Reykjavík, sem hefur um 40 þús. íbúa, sé það ekkert keppikefli fyrir einn flokk að eiga meiri hl. í bæjarstj. til þess að jafna niður útsvörum. Og það er allt annað atriði heldur en það, að ein bæjarstjórn segir við ríkisstjórn: Þetta verðum við að fá til þess að fullnægja þörfum okkar sveitarfélags. Niðurjöfnunarn. er ekkert annað en tæki til þess að skipta á milli skattborgaranna, hún má ekkert undan draga, eins og þar stendur. Þetta starf niðurjöfnunarn. er nokkuð hliðstætt því, þegar farið er fram á söfnun í góðgerðaskyni. Það er allt annars eðlis, þegar margir eiga að njóta þess, þá er reynt að deila fénu á milli sem flestra aðila. Út frá þessu sjónarmiði tel ég, að heppilegast sé fyrir skattborgarana, að enginn einn flokkur hafi meirihlutavald um það, hvernig jafnað er niður. Ég hef nú svarað hv. þm. frá mínu brjósti, hvernig ég lít á þetta mál, og ég hef 30 ára reynslu af því í þessum bæ, hvað heppilegra hefur reynzt.

Þá skal ég með örfáum orðum víkja að ræðu hæstv. fjmrh. Fyrri hluti hennar var ekki taus við að vera hálfgerður útúrsnúningur, en hann er sérstakur meistari í að snúa út úr ræðum manna, þegar hann brestur rök. Allir vita, að maðurinn er vel greindur, og það er einkennandi fyrir hann, hvað hann er laginn á þessa hluti. En í þetta sinn tókst honum svo hrapalega illa, að í raun og veru segir það allt annað. Ég býst við, að enginn hafi skilið hann í þessari hv. d.

Hann segir, að samkvæmt mínum till. verði ekki hægt að tryggja mjóu bökin, að þeirra hlutur verði ekki illa úti, eins og ég hafi viljað minna hér upp. Þetta viðurkenni ég algerlega rétt. Það er ekki hægt í öllum tilfellum, eins og dæmin sanna nú. En hvernig fékk bæjarstjórnin í Reykjavík þennan meiri hluta í niðurjöfnunarnefnd? Með því að kjósa 4 í einu lagi og svo einn á eftir, sem ég hef bent á, að sé á móti anda l. Og ég vil benda á sem einn þátt í því, að svona tókst til, að það má vel vera, að það hefði orðið hlutkesti, sem ráðið hefði um fjórða manninn, og af tilviljun hefði þá meiri hluti getað skapazt á þann veg. Hann benti á Vestmannaeyjar. Hann getur bent á alla kaupstaði landsins með réttu, að þar sé meiri hluti í niðurjöfnunarnefnd í höndum þess flokks, sem hefur meiri hluta í bæjarstjórn, og þar eru bæjarstjórar formenn. Ég hef líka viðurkennt þessa skipan, en bent á um leið, að þessi maður er í raun og veru skattstjóri um leið og hann er formaður niðurjöfnunarn. Þá gat hann þess einnig, út af kosningu þessa eina manns. að það hefði verið svo undanfarin ár, að maður úr þessum flokki hafi setið í nefndinni. Þetta skal líka viðurkennt, og sá maður, sem var í n. síðast af hálfu þessa flokks, hefur verið áður í n., og það er m.a. kunnugleiki hans og reynsla af störfum n., sem kann að hafa ráðið eins miklu um, að hann var settur inn í hana á ný. Hins vegar skal játað, að það getur enginn kunnugleiki ráðið í þessum bæ nema í gegnum skattstofuna. En sá mæti maður, sem nú tekur sæti í niðurjöfnunarn., er, eftir öllum líkum, einna ólíklegastur til þess, þar sem hann er nýfluttur í bæinn. Enda var eitthvert blaðanna svo gamansamt að geta sér þess til um kosningu þessa manns, að hann ætti að verða varamaður í bæjarstjórn til þess að skapa meiri hluta hjá Sjálfstfl. að loknum bæjarstjórnarkosningum 15. þ. m. Og þá er skiljanlegt, að gott sé að tryggja hann í niðurjöfnunarn., þegar þeir eiga von í honum til að tryggja sér völdin í framtíðinni. Möguleikarnir fyrir, að svona geti farið, eru talsvert miklir, og þess vegna skil ég vel, hvers vegna hæstv. ráðh. leggur svona mikið upp úr, að þessi breyt. fái að standa.

Hann minntist hér á núv. skattstjóra og hans miklu störf. Ég skal síður en svo draga úr því, sem ég viðurkenndi áðan, að störf skattstjórans fara stöðugt vaxandi með vaxandi skattaskýrslum. En hinu vildi hæstv. ráðh. ekki neita, að hann hefur möguleika til að auka við starfslið sitt. Það er ekkert sérstakt með þennan mann. Ef störfin aukast svo, að hann fái þeim ekki annað, þá dettur engum annað í hug en að hann verði að meira eða minna leyti að leggja þar á aðra. Ég skal t.d. benda á lögmannsembættið og lögreglustjóræmbættið. Það er búið að skipta lögreglustjórembættinu í tvennt; og allir virðast hafa nóg að gera. Þeir fá lærða menn til að vera fulltrúa og geta því gripið inn í störf, þar sem nærvera þeirra er óhjákvæmileg. Og eitt af því, sem ég tel óhjákvæmilegt, er, að skattstjóri sé meira eða minna leiðandi kraftur í þessari n., og það er því sjálfsagt, að létt sé af honum störfum.

Þá vildi hæstv. ráðh. segja, að við hefðum nú ekki alltaf hlaðið á hann lofi, eins og ég hefði gert. Ég skal taka það fram, að svipað mætti segja um hæstv. ráðh., að Vísir hefur sagt ýmislegt um menn, sem hæstv. ráðh. hefði ekki skrifað, og sama má segja um hvaða blað sem er. Auk þess vil ég segja það, að ég get ekki alltaf verið sammála öllu því, sem í Alþýðublaðinu stendur. En hinu neita ég algerlega, að það hafi á nokkurn hátt haft áhrif á heilsu þessa mæta manns, þótt Alþýðublaðið minnti á, hvað gerzt hafði bak við tjöldin. Ég hygg, að heilsubrests hans hafi gætt áður en réttmæt gagnrýni af hálfu Alþýðublaðsins var hafin í þessu máli. Það er því algerlega rangt að kenna alþýðublaðinu um, að það hafi valdið því, að þessi mæti maður er kannske ekki heill heilsu.

Að síðustu var það bomba hjá hæstv. ráðh., sem átti að slá allar aðrar út, að við værum hér algerlega á móti okkar hjartans „princip“-málum. En ég vil bara benda honum á, að í lýðræðisskipulagi allra þjóða er það ekki höfuðkjarninn, hvort nefnd, sem hefur þýðingarmikil störf með höndum, er skipuð af einum valdaflokki, eða hvort aðrir viðurkenndir flokkar eigi að hafa þar íhlutun um. Ég þekki svo kallað lýðræði, sem við köllum einræði, þar sem í raun og veru enginn má koma til skjalanna nema sá eini viðurkenndi flokkur. Við þekkjum dæmin frá Hitler og Mussolini. Ætli þeir hafi marga framsóknarmenn og kommúnista eða jafnaðarmenn, sem fá að vera í n. þar? Nei, sannarlega er það Sjálfstfl., sem í n. fær að vera. Mér skilst, að það sé svona lýðræði, sem hæstv. ráðh. vilt hafa hér á Íslandi. Valdaflokkurinn á að ráða, undir öllum kringumstæðum, þegar um það er að ræða, hvernig jafna eigi niður útsvörum og hverju sem vera skal. Ég ætla ekki að svara hæstv. ráðh. meiru um lýðræðisskipulagið, en það byggist á allt öðru en þessu. Lýðræðisskipulagið byggist á hinum almenna kosningarrétti. Það byggist á því, að þjóðin á hverjum tíma getur sagt við valdhafa sína: Við viljum ekki nota ykkur lengur. Og ég verð að segja það, að ég hef aldrei vænt þennan hæstv. ráðh. um það, að hann sé ekki lýðræðissinni, en það er ekki hægt að segja um alla ráðh.