06.03.1942
Efri deild: 11. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

3. mál, útsvör

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Mönnum er kunnug mín aðstaða til þessa máls frá því það lá fyrir hv. d. á aukaþinginu s.l. haust. Síðan hefur sú breyt. þó orðið á, að hæstv. ríkisstj. hefur tekið tillit til þ ess, sem ég sagði, þegar ég benti á, hve geysilega óheppilegt væri að afnema tengiliðinn milli skattstofunnar og niðurjöfnunarnefndar. Nú er ákveðið, að skrifstofustjóri skattstjóra skuli vera tengiliðurinn, þetta er ákaflega mikið til bóta, en fullnægir varla því, sem ég vildi vera láta.

Það, sem sérstaklega gaf mér þó tilefni til að standa upp, voru orð hv. 2. landsk. um framsóknarmanninn, sem nú á sæti í niðurjöfnunarnefnd, þar sem hann gaf í skyn, að hann væri alókunnugur þessum störfum og litt til þeirra fallinn. Ég vil í þessu sambandi upplýsa það, að þessi maður hefur verið bæjarstjóri á Ísafirði og þar með formaður niðurjöfnunarnefndar Ísafjarðar í mörg ár, og ég vil leyfa mér að efast um, að nokkur þeirra, sem nú eiga sæti í niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkur, sé betur til þess starfs fallinn en hann að jafna réttlátlega niður útsvörum. Af störfum hans á Ísafirði vil ég segja það, að hann er allra manna ólíklegastur til að hjálpa Sjálfstfl. í þeim málum, sem skipta stefnum milli flokka. Maðurinn er ákveðinn og stefnufastur flokksmaður, og ég ber engan kvíðboga fyrir því, að hann gangi inn í Sjálfstfl. Það yrðu aðrir til þess frekar en hann.