20.03.1942
Neðri deild: 23. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

6. mál, hafnarlög fyrir Akranes

*Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Sjútvn. hefur haft þetta mál til athugunar og borið frv. saman við nýrri hafnarl. og telur, að frv. eigi að samþykkjast með lítils háttar breyt., sem eru hér á þskj. 67.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram 2/5 hluta kostnaðar við hafnargerðina. Að sönnu er Akranes nú búið að fá kaupstaðarréttindi. Og reglan er sú um kaupstaðina, að þeir greiði úr hafnarsjóði 2/3 hluta kostnaðar við hafnargerðir hjá sér, en ríkissjóður 1/3 hluta, en hér er farið fram á, að ríkissjóður leggi fram 2/5 hluta kostnaðarins. Og af því að það er kostnaðarsamt og erfitt að gera þessa höfn, sá sjútvn. ekki ástæðu til að breyta þessum hlutföllum, þó að Akranes fengi kaupstaðarréttindi, og mælir n, þess vegna með því, að frv. verði samþ. í þessu atriði og öðrum, sem n. gerir ekki brtt. um í nál. sínu.

Brtt. hér á þskj. 67 eru mjög smávægilegar. Fyrst er brtt. við 7. gr. Þar (í 7. gr.) er gert ráð fyrir, að hafnarnefnd verði kosin að ég hygg á sama hátt og verið hefur á Akranesi, en það er nokkuð frábrugðið því, sem er í öðrum kaupstöðum. Og sjútvn. hefur þess vegna lagt til, að fylgt verði sömu reglu um kosningu hafnarn. á Akranesi og fylgt hefur verið í öðrum kaupstöðum, en það er, að n. sé öll kosin alltaf að afloknum bæjarstjórnarkosningum, og kjörtímabilið verður því það sama eftir brtt. og hjá öðrum fastan. og kosning mannanna eins, þ.e., að heimilt sé að kjósa í n. menn utan bæjarstjórnar. Ég hygg, að enginn ágreiningur verði um þetta, því að þetta er alveg föst regla um kosningu hafnarn. í kaupstöðum.

2. brtt. er við 15. gr. frv., mjög lítilfjörleg, þar sem n. leggur til, að þrjú orð verði felld úr frv.

Loks leggur n. til, að fyrirsögn frv. verði: Frumvarp til hafnarlaga fyrir Akranes.