20.03.1942
Neðri deild: 23. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

6. mál, hafnarlög fyrir Akranes

Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins í sambandi við þetta benda á, að hér er eingöngu um að ræða heimild fyrir ríkisstjórnina til að ábyrgjast lán, þannig að á hverjum tíma er á hennar valdi, hvaða skilyrði hún setur fyrir því að veita þessar ábyrgðir fyrir hönd ríkissjóðs. M.a. getur hún gert það með því skilyrði að miða ábyrgðina fyrir láni við eitthvert visst hlutfall. Þetta er sem sagt alveg óbundið fyrir ríkisstjórnina. Stj. getur alveg eins sett þær reglur fyrir lánsábyrgðum, að ábyrgðin gildi fyrir minni hluta af kostnaði en hér er gert ráð fyrir. Það er sem sagt á valdi ríkisstjórnarinnar, hve langt hún vill ganga í þessu efni.