06.03.1942
Efri deild: 11. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

3. mál, útsvör

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Það form á lýðræði, sem komizt hefur verið næst, er að láta kosningar fara fram með hlutfallskosningum, og sá, sem fær meiri hluta, er talinn hafa réttan Iýðræðislegan meiri hluta. En þetta form er hv. þm. óánægður með og vill hafa leyfi fyrir sinn flokk til að lagfæra lýðræðið eftir því, sem á stendur á hverjum tíma. Hann vill taka upp þá aðferð, að aðrir en kjósendur lagfæri þetta, en þá er skammt yfir á braut Mussolinis.

Nei, ef við viljum vera trúir lýðræðinu, verðum við að halda okkur að þeim reglum, sem um það eru settar.

Hv. þm. sagði, að Sjálfstfl. hefði ekki réttan lýðræðislegan meiri hluta í bajarstjórn, af því að hann hefði ekki meiri hluta kjósenda. Þetta er ekki rétt. Í mörg ár hefur Sjálfstfl. verið í hreinum meiri hluta í Reykjavík, og við komumst ekki nær lýðræðinu en þetta.

Eins og hv. frsm. meiri hl. hefur oft tekið fram, er það, sem deilt er um, þetta: Á það sama að gilda hér og í öðrum kaupstöðum? Ég sé ekki ástæðu til annars, því að fjöldinn er ekkert atriði í því sambandi. Réttlætið fer ekki eftir mannfjöldanum. Það er ekki lýðræðislega rétt að ætla að fara að skapa mismunandi reglur fyrir hina ýmsu kaupstaði.

Það er auðsjáanlega skylt með alþýðuflokknum og bræðraflokki hans til vinstri, að þeir telja ekkert lýðræði nema það, sem getur gefið þeim meiri rétt en þeir eiga.