06.03.1942
Neðri deild: 14. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

21. mál, lendingarbætur á Stokkseyri

Bjarni Bjarnason:

Við þm. Árn. höfum leyft okkur að leggja þetta frv. fyrir hv. Alþingi. Það er ekki nein þörf á að fara um það mörgum orðum, því að hv. þm. er fullljós þörfin á lendingarbótum og nytsemi sú, er leiðir af því verki. Ákvæði frv. eru svipuð og venja hefur verið, þá er um lendingarbætur hefur verið að ræða, og að því er snertir framlag ríkissjóðs, þá er þar gert ráð fyrir að fylgja þeirri reglu, er tíðkazt hefur, þ.e.a.s., að ríkissjóður leggi fram helming fjárins.

Á Stokkseyri hefur, svo sem kunnugt er, verið rekin útgerð um langan aldur, en innsiglingin er þar hættuleg og hefur orðið mörgum að líftjóni. Vitamálastjóri hefur látið fara fram athuganir á innsiglingunni og lagt fram álit og kostnaðaráætlun fyrir hinar ráðgerðu lendingarbætur.

Það, sem m.a. eykur nú mjög nauðsyn þess, að umræddar lendingarbætur verði gerðar, er að hreppurinn hefur nú ráðizt í að reisa frystihús, en til þess að það beri sig, er nauðsynlegt, að mönnum takist að sækja sjó.

Að öðru leyti skýrir frv. og grg. fyrir því sig sjálft, og tel ég ekkí þörf á að fjölyrða meira um málið á þessu stigi.

Vil ég svo mega óska eftir, að því verði vísað til 2. umr. og sjútvn. að lokinni þessari umr.