23.03.1942
Efri deild: 21. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (723)

49. mál, alþýðutryggingar

*Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti! við flm. þessa frv. höfum nú í grg. þess gert nokkra grein fyrir því, hvers vegna það er flutt. Skal ég þó bæta nokkru þar við.

Með l. um slysatryggingar sjómanna var stigið verulegt spor í þá átt að hækka verulega dánarbætur og örorkubætur, sem sjómenn hafa átt við að búa í þessu landi. Og var það í samræmi við það, sem þá var þegar orðið annars staðar á Norðurlöndum. Sú trygging, sem þar er ákveðin með l., hefur verið tvöfölduð með samningum við atvinnurekendur, sem gildir sérstaklega um þá menn, sem sigla yfir hafið og kringum strendur landsins, og þá, sem jöfnum höndum veiða og sigla til Bretlands. Nú hefur komið í ljós, að með þeirri breyt., sem gerð var á l. á síðasta þingi, er vandi nokkur á ferð í þessu efni. Þá var l. breytt á þann hátt að fella niður dánarbætur eftir þeim l., ef sjóslys yrði af óþekktum ástæðum, og var þá ákveðið, að það skyldi vera lagt á vald dómstólanna að ákveða, hvort slysið væri af völdum stríðsins eða ekki. Nú er vandi oft að ákveða um þá menn, sem farast hér við land, hvort þeir farast af völdum stríðsins og þá skuli bæta með stríðsslysatryggingu eða ekki. En fyrir þá, sem eftir lifa, er það sama í raun og veru, af hvaða völdum slysið er, — sama þörfin fyrir bæturnar. Hér er orðinn svo mikill munur á dánarbótum, eftir því af hvaða völdum slys hafi orðið, að okkur þykir hlýða að gera þar nokkurn jöfnuð á. við teljum, að þó að slys, sem valda örorku eða dauða, gerist á þurru landi, sé ekki sanngjarnt að hafa bæturnar svo miklu lægri heldur en fyrir stríðsslys sem nú er. Nær frv. þetta því til allra dánar- og örorkubóta, og þá auðvitað til sjómanna, sem sigla á hættusvæðum. Ég hygg, að enginn ágreiningur sé um það, að dánarbætur séu ákaflega lágar, og þær eru lægri en tíðkaðist fyrir stríð í nágrannalöndunum.

Nú á þessum tímum eru 3 þús. kr. lítil upphæð handa eftirlátinni ekkju. Að vísu er greidd full upphæð á börn þar að auki, en ég þykist vita, að menn sjái, hvað nauðalítil upphæð þetta er fyrir eftirlátna ættingja manna, eins og nú en dýrt að lifa. Þess vegna er full nauðsyn á því að gera nokkra endurbót á þessu, og þrátt fyrir það, þó að Alþ. féllist á till. okkar, verð ég að segja, að það er hægt að eyða slíkri upphæð, þó að hún yrði 20 þús. kr. Hins vegar verður að ganga út frá því, að mannbætur fást aldrei að fullu greiddar, því að það er í flestum tilfeilum svo mikið sár fyrir þá, sem fyrir því verða að missa sína beztu stoð, að það fæst aldrei bætt með fé. Hér er þjóðfélaginu ætlað að draga úr sárasta broddinn, með því að veita nokkurs konar dánarbætur fyrir hinn fallna.

Um hækkun iðgjalda vildi ég aðeins minnast á það, að þessi hækkun, sem hér er farið fram á, lætur nærri að vera um 350%, því að, eins og kunnugt er, eru örorkubæturnar um 6 þús. kr., en allt að 4 þús. kr. munu dánarbæturnar hafa reynzt vera, en öllu hærri fyrir sjómenn, þegar barnameðlögin eru tekin með, og verður hækkunin þá nokkuð svipuð. Iðgjöldin hafa að sjálfsögðu hækkað með tilliti til þess, að dýrtíðaruppbót hefur verið greidd á þessar dánarbætur. Í öðru lagi hitt, að slysum hefur nokkuð fjölgað á árunum 1940–1941, en það eru stríðsslys. eins og kunnugt er. sem því valda.

Ég hef ekki nú við höndina skýrslur, sem sýna tölu slysa, en venjuleg slys eru mörg að meðaltali á ári, eins og nú er, en hér verður að miða við slys, sem verða á normaltímum, til þess að fara sem næst því, hvað kostnaður muni verða, miðað við reynslu undanfarinna ára. Nú hafa útgjöldin verið hækkuð frá því, sem þau voru, og ég skal aðeins geta þess, að allir áhættuflokkar sjómanna hafa komizt upp í 5 kr. á viku, en það er mismunandi, hverju hækkunin nemur fyrir áhættuflokk í landi, en það er minna, sem krafizt er þar til iðgjalda, heldur en á sjónum. Þessar till. okkar mundu þýða um 511% hækkun á útgjöldum, því er ekki að neita. Nú er spurningar, hvort það er ógerlegt að ganga inn á þá braut að krefjast þess, að atvinnureksturinn greiði þessa hækkun iðgjaldanna. Það er vitanlegt, að atvinnureksturinn hefur skilað miklum arði og sums staðar stórkostlegum, svo að það ætti að vera kleift fyrir atvinnureksturinn að bera þessa auknu gjaldabyrði, sem hér er lagt til, að greidd verði. Ef þessi leið yrði farin, ætti þetta fólk síður að þurfa á hjálp hins opinbera að halda. og þar með minna framfærslufé en annars.

Ég held, að það, sem mestu máli skiptir um þetta mál, hafi verið tekið fram auk þess, sem gert er í grg. Ég vænti þess, að allir sjái það, að hér er svo mikið réttlætismál á ferðinni, að d. sjái sér fært nú á þessum tímum, í fyrsta lagi að taka undir þar till., sem hér eru fluttar, í öðru lagi að hraða afgreiðslu málsins, svo að það geti orðið að l. áður en þingi lýkur, svo að þetta verði a.m.k. lítils háttar bót, sem Alþ. rétti hinu syrgjandi fólki í landinu á þessum tímum.

Þetta mál mun að sjálfsögðu fara til n. og eiga heima hjá allshn., og mun ég gera að till. minni að málinu verði þangað vísað.