08.04.1942
Efri deild: 28. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í C-deild Alþingistíðinda. (737)

57. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég skal nú ekki deila mikið um þetta mál. Mig langar ekki að ræða um það, hvers virði það er, að Eimskipafélagið sé sterkt, og hvaða þýðingu það hefur fyrir okkur að geta flutt til landsins vörur með okkar eigin skipum. Það er mál, sem allir eru sammála um, og kemur ekki þessu máli við. En það, sem ég er engan veginn sammála um, ef á að framlengja þessi l., er, að ekki skuli vera skýrt kveðið á um, hvað meint er með því, að þau skuli gilda árin 1943 og 1944. Því má ekki alveg eins segja skattárin, svo að það sé greinilegt, hvað með því er meint, hvort það séu árin, sem skatturinn fellur til á, eða greiðsluárin. Til hvers á að leika sér að því að búa til orðalag, sem getur orkað tvímælis. Mér finnst, að nefndin geti vel tekið af allan vafa um þetta atriði.

Sömuleiðis skal ég ekki deila um það, að ég tel sjálfsagt, þegar á að framlengja þessi lög, að þau séu endurskoðuð og breytt, eftir því sem við á. við höfum t.d. ekki þörf fyrir þessi 60 farþegarúm milli landa. Þá tel ég rétt, að álit ríkisstj. komi til skjalanna um fragtir. Það er vitað, að á árinu 1940 voru fragtir svo háar, að það var hreint okur. Og úr því að við erum að veita þessu félagi ákveðin fríðindi, er ekki nema rétt, að við setjum það inn í lögin, að ríkisstjórnin hafi hreint og beint íhlutunarvald um fragtir þess.

Hvað önnur atriði snertir, þá ætla ég ekki að fara langt út í þau. Ég benti á áðan, hvort það væri meiningin, að Eimskipafélagið væri skattskylt á gróða utan síns eiginlega rekstrar. Það er vitanlegt af mörgum mönnum, að Eimskipafélagið hefur á árinu eignazt nýtt skip. Og það er líka vitað, að fyrir hverjar þúsund krónur í hlutabréfum voru gefnar frá 20 þús. og upp í 60 þús. krónur. Nú er svo ákveðið, að það sé gróði, sem hlutabréfin seljast á umfram nafnverð. Það er búið að leysa félag þetta upp, og hver á að borga þennan skatt í ríkissjóð? Og það er margt fleira í þessu sambandi, sem mætti tala um. Eimskipafélagið er ekki rekið sem þjóðnýtt fyrirtæki, heldur sem hreint hlutafélag, eins og það líka á að vera sem gróðafélag, að svo miklu leyti sem það getur komið því við. Það á þess vegna ekki að búa við önnur og betri kjör heldur en lík félög. Við erum, hygg ég, allir sammála um það, hve mikla þýðingu Eimskipafélag Íslands hefur fyrir landsmenn, en ef það hins vegar getur ekki starfað á fjárhagslega traustum grundvelli. þá á það að mínum dómi að fá ríkisstyrk. Það veit maður, hvað er. En hitt veit maður ekki.