10.04.1942
Efri deild: 30. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (749)

57. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég skal ekki fara til í neitt karp út af þessu. En ég vil benda hv. síðasta ræðumanni á það, að ef hann er eins sannfærður og hann þykist vera um það, að rétt sé að samþ. þetta frv., þá ætti hann, ef hann er sjálfum sér samkvæmur, að segja núna sem svo: Það er vitanlegt, að þetta þing, sem nú situr, kemur að öllum líkindum ekki saman aftur. fyrr en þjóðin er búin að kjósa nýja fulltrúa. Og það er vitað, að sá mikli gróði, sem Eimskipafélagið fékk 1940 og almennt var litið á sem okur og olli því, að dýrtíðin jókst mikið, líklega um full átta stig, mæltist afar illa fyrir. Hann hefur því enga hugmynd um, hvað þjóðin vill í þessu efni. Það eru meiri líkur fyrir, að þjóðin vilji ekki láta það búa við sama og áður, og að hún vilji fá að ráða meira um fragtirnar. En einmitt af þessu ætti hv. þm. að segja sem svo, að það þing, sem kemur saman eftir kosningar, eigi að ráða þessu, heldur en við séum að binda þm., sem þá koma, í 2 ár. Þess vegna ætti hann að segja: Þetta frv. átti ég ekki að flytja á þessu þingi, — og ganga um leið inn á brtt. mína.