16.03.1942
Efri deild: 16. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

3. mál, útsvör

Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti ! Ég ber engar brigður á það, sem hv. 11. landsk. sagði, að engin krafa hafi komið frá Siglufirði um skiptingu útsvara síðustu tvö árin, og er það af því, að bæjarstjórn Siglufjarðar ákvað að leggja útsvar þar á þessa menn, og hv. 11. landsk. veit, að ekki er hvort tveggja mögulegt að leggja á útsvar og óska eftir skiptingu. Enn fremur getir dálítils misskilnings hjá hv. 11. landsk. viðvíkjandi brtt. okkar á þskj. 44. Það er ekki tilgangurinn með þeim að taka upp ákvæðin frá 1926, heldur ætlazt til með þeim að ná útsvörum af föstum atvinnurekstri á Siglufirði, sem hefur sloppið með því að telja atvinnurekandann eiga heimili annars staðar.

Það, sem við viljum fá með þessu, er að fá þennan atvinnurekstur, sem raunverulega er fastur þarna, útsvarsskyldan til Siglufjarðar. Þarna munu vera um 30 síldarstöðvar, en ekki nema 3–4, sem greiða gjöld til bæjarins, en bærinn hefur hins vegar orðið að sjá þeim fyrir nauðsynlegri vegalagningu og öðru slíku, en engar tekjur fengið þar á móti. Þetta viljum við koma í veg fyrir, fyrir nú utan það, hversu geysilegt misrétti er hér um að ræða, því að þótt þarna séu tvær stöðvar, sem hafa kannske jafnmikinn atvinnurekstur, þá verður önnur að greiða fult gjöld til bæjarins, en hin aðeins örlítið eða ekki neitt.

því hefur verið haldið fram af hv. 1. þm. N.-M, og hv. 8. landsk., að hægt væri að ná þessu gegnum ákvæðið um skiptingu útsvara. Ég viðurkenni, að „teoretískt“ séð er það hægt, og ég fullyrði ekki nema megi ná einhverju með miklum eftirgangsmunum. Ég er þessu talsvert kunnugur, af því að ég hef verið í 10 ár fulltrúi hjá bæjarfógetanum á Siglufirði, sem ég hygg að sé talinn mjög duglegur og samvizkusamur embættismaður. Þetta var reynt ár eftir ár. eftir því sem mögulegt var, og ég held, að við höfum komizt hæst upp í að fá eitthvað um 2000 kr. eitt árið. Ég skal ekki fullyrða, hvort málin hafa verið rekin áfram til ríkisskattan., sem hefði eitthvað getað úr þessu bætt. Annars er eins og það sé héraðsrígur í þessum málum og heimilissveitin vilji hjálpa mönnum til að sleppa við að borga til atvinnusveitarinnar, og yfirleitt er erfitt að fá nauðsynleg gögn um tekjur manna, enda er oft erfitt fyrir mennina sjálfa að gefa slíkar upplýsingar fyrir þann tíma, sem atvinnusveitin á að fá þessar skýrslur.

Af þessu hefur leitt það, að Siglufjörður hefur orðið að hækka álögur sínar á þeim, sem hann hefur getað lagt á, svo að útsvarstiginn hefur orðið talsvert hærri þar en víða annars staðar. Þeir, sem eftir hafa verið af þessum mönnum, sem t.d. reka síldarsöltun, hafa farið að athuga möguleika á að flytja alveg burt, selja þessar eignir eða stofna félög um þær, leigja þær síðan og hafa þá engar tekjur nema lítilfjörlegar leigutekjur, og komast þannig hjá að borga til bæjarins af atvinnurekstrinum, en það, sem í okkar till. felst. er að fá bætt úr þessum órétti gagnvart Siglufirði og fleiri bæjum, sem líkt eru settir.

Ég hygg, að það sé ekki rétt hjá hv. 11. landsk., að það sé ástæða til að vera hræddur við þessa breyt. vegna þess, að sama ástand skapist og var 1926. Tilætlunin er ekki sú að leggja útsvör á alla aðkomumenn, sjómenn, verkamenn etc., heldur ekki á báta, er leggja upp afla, enda væri það ekki heimilt, heldur einungis á þá, er reka í Siglufirði raunverulega fasta atvinnu, en sleppa við öll gjöld. Þar að auki er nú ríkisskattan., sem þeir gætu kært til, er teldu sig órétti beitta, og þá fengið verðskuldaða leiðréttingu, í staðinn fyrir það, að nú verður atvinnusveitin að kæra, og ég efast ekki um, að þeir, sem teldu sig órétti beitta, mundu með að fá leiðréttingu sinna mála verða ýtnari en atvinnusveitin hefur aðstöðu til, eins og nú standa sakir.

Þegar þetta allt er athugað og það, að þessar till. miða ekki að því, að uptekin verði stefnan frá 1926 að leggja á skip eða menn, sem yrði þarna 8 vikur eða svo, heldur einungis að því að ná útsvörum af þeim atvinnurekstri, sem er þarna stöðugur, en virðist hafa fundið smugu til að koma sér undan réttmætum álögum, og þegar þessir einstaklingar hafa möguleika til að kæra áfram, ef þeir eru órétti beittir, og ég tel engan vafa á, að þeir fengju leiðréttingu, þá sé ég ekki annað en að hér sé um réttlætiskröfu að ræða.