16.03.1942
Efri deild: 16. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

3. mál, útsvör

Bernharð Stefánsson:

Hv. meðflm. minn, sem síðast talaði, hefur tekið af mér ómakið að mestu leyti að svara þeim aths., sem fram hafa komið gegn þeim till., sem við þrír höfum borið fram á þskj. 44, og þarf ég því ekki nema litlu við það að bæta.

Ég skal fyrst víkja að því, sem hefur verið fundið að forminu á þessum brtt. okkar. Í fyrsta lagi benti háttv. 1. þm. N.-M. á það við fyrri hluta þessarar umr., að ef brtt. okkar á þskj. 44 verður samþ., þá ætti 2. liður 1. málsgr. 9. gr. l. að falla niður. Þessi aths. hans viðvíkjandi forminu er rétt, og þess vegna er það, að við flm. að upprunalegu till. flytjum viðaukatill. við hana á þskj. 53 um, að þessi liður falli niður.

Þá geri ég ráð fyrir, að það sé rétt hjá hv. 11. landsk., að um prentvillu sé að ræða þar, sem stendur „síldarverzlun“. Það á að vera „síldarverkun“. Aftur á n1óti get ég ekki fallizt á það, sem hann hafði á móti forminu á þessari till. okkar. Hann sagði, að ef hún yrði samþ., yrði að fella niður a-lið í 1. málsgr. 9. gr. Ég held, að þess sé ekki þörf, því að þótt þar sé svipað komizt að orði, þá sakar ekki, þó að þessu sé bætt við, og samkv. þessum lið í l. hefur útsvar ekki verið lagt á í atvinnusveit eins og gert yrði samkv. okkar till. Þess vegna held ég, að óþarft sé að fella þennan lið niður, þó að brtt. okkar verði samþ.

Hv. 11. landsk., frsm., segir í ræðu sinni, að með þessari till. væri vikið frá meginreglu útsvarsl. Ég vék nokkuð að þessu við fyrri hl. þessarar umr. Ég held, að þetta sé ekki rétt hjá þessum hv. þm. Till. okkar miðar einmitt að því að koma samræmi á útsvarsl., svo að þau nái sínum upprunalega tilgangi, en eins og ég gerði grein fyrir því, var þeirra upprunalegi tilgangur sá, að allur almenningur manna greiddi útsvarið til heimilissveitar sinnar, en atvinnurekstur væri útsvarsskyldur þar, sem hann væri rekinn, og bera l. sjálf vitni um það, þar sem í þeim er tekið fram, að búrekstur á jörðum sé útsvarsskyldur þar, sem búskapurinn er rekinn. þó að sá, sem rekur hann, eigi ekki heima þar.

Það er alveg rétt, að ástæðan til setningar útsvarsl. 1926 var m.a. sú, að löggjafinn var alltaf að teygja sig lengra og lengra í að heimila útsvarsálagningu á menn utan sinnar heimilissveitar. Það gekk svo langt, að fram kom till. um, að Faxaflói skyldi ákveðinn stærri en hann er landfræðilega, það kom jafnvel fram till., sem reyndar var ekki samþ., um, að Faxaflói skyldi lá að Ölfusárósum. En það er oft svo, að þegar breyta á til batnaðar og taka aðra stefnu, þá er sveigt of langt út í hina hliðina, og það var gert með útsvarsl. 1926, sem nú gilda í þessu atriði, að það var gengið of langt, m.a. með því, að stórkostlegur atvinnurekstur varð ekki útsvarsskyldur á þeim stað þar sem hann er rekinn, og þá sérstaklega síldaratvinnuvegur í sínum ýmsu myndum, vegna þess, hvernig hann er. Hann er rekinn stuttan tíma af árinu og er að ýmsu leyti ólíkur mörgum öðrum atvinnugreinum. Ég get ekki séð, að rétt hafi verið að ganga svo langt sem gert var þá, þegar líka þess er gætt að með þessu var eitt bæjarfélag svipt mjög miklum tekjum og hefur síðan haft við nokkuð þröngan fjárhag að búa. Hv. frsm. segir, að menn hafi verið sammála um að gera þessa breyt. 1926. Það er alls ekki rétt, það var mikill ágreiningur um hana, og ég man, að ég hafði þá sömu afstöðu og ég hef nú í þessu máli.

HV. síðasti ræðumaður svaraði þeirri röksemd hv. frsm., að varasamt væri að gefa frekari heimild til útsvarsálagningar utan heimilisveitar heldur en nú er, m.a. af því, að menn hefðu tilhneigingu til að leggja hærra útsvar á utansveitarmenn en á þá, sem þar ættu heima. Þetta kann rétt að vera, en eins og síðasti ræðumaður benti á, þá er hægt fyrir þá, sem verða fyrir óréttlæti í þessu efni, að ná rétti sínum með því að kæra til yfirskattan. og þá síðan í ríkisskattan.

Hv. 1. þm. N.-M. hélt því fram við fyrri við þessar umr., að flutningur þessarar till. væri byggður á misskilningi, vegna þess að atvinnusveitin hefði rétt til að fá hluta af útsvarinu, og það hækkað, ef útsvör voru yfirleitt lægri í heimilissveitinni. Ég vil segja hv. þm., að mér var fullkunnugt um þetta, en einmitt hann sjálfur upplýsti, að það hefði ekki verið nema Reykjavík og Ísafjörður, sem hefði neitt verulega notað þetta. Hann segir, að atvinnusveitin geti kært, ef heimilissveitin leggi lágt útsvar og krafizt þess að sinn hluti verði hækkaður. Hvernig stendur þá á því, sem hv. þm. upplýsti, að þessi réttur til þess að fá hluta af útsvarinu hefur ekki verið notaður nema svona lítið? Ég geri ráð fyrir, að hann svari því, að þetta sé fyrir vanrækslu bæjaryfirvaldanna, og verður hver að meta það eins og honum þykir trúlegt, en mér virðist miklu eðlilegra að álíta, að það stafi af því, sem hv. síðasti ræðumaður hélt fram, sem er kunnugur þessum málum. Þetta er nefnilega svo flókið, að erfitt er að ná rétti sínum á þennan hátt, og þess vegna hefur það farizt fyrir, að þessi ákvæði væru notuð eins og bókstafur l. gefur tilefni til að halda, að hægt sé.

Ég get sparað mér það, sem ég var að vona, að ég hefði tilefni til, að þakka n. fyrir undirtektir hennar undir þessa till., og er ekkert við því að segja; n. hefur sína skoðun og við okkar, og verða atkv. að skera úr. Ég mun ekki fara að beita málþófi í þessu máli, en það er ég ekki í vafa um, að ef sanngirni ætti hér að ræða, þá yrði brtt. okkar samþ.