24.04.1942
Efri deild: 40. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

27. mál, rafveitur ríkisins

Frsm. (Páll Hermannsson):

Þetta frv. lá fyrir Alþingi árið 1938 og var þá flutt af iðnn. Nd. að tilhlutun þáv. atvmrh. Það var afgreitt af þeirri deild þá, en dagaði hér uppi. Ekki mun hafa verið bein andstaða gegn því, en það var sett í samband við annað frv., frv. um raforkusjóð ríkisins, er nokkur skoðanamunur var um, og döguðu bæði uppi. Nú er frv. þetta flutt eitt út af fyrir sig og í sama formi og árið 1938.

Ég þarf ekki að fjölyrða um þetta mál, því að ég geri ráð fyrir, að hv. dm. sé það svo kunnugt. Þó vil ég aðeins geta nokkurra atriða.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir í þessu frv., að skipt verði meira niður en áður kostnaði við að leiða raforku til landsmanna, þannig að ríkið ýmist reisir eða tekur á leigu orkuver, sem til eru. Í öðru lagi og sérstaklega er gert ráð fyrir, að ríkið leiði rafmagn frá orkuverunum til kaupstaða eða sveita. Í þriðja lagi er félögum heima fyrir heimilað að sjá um dreifingu rafmagnsins á viðkomandi stöðum, veita því til neytendanna og selja það.

Það er eftirtektarvert, að með frv. þessu er heimilað að hrinda í framkvæmd og leysa hið mikla mál um raforkunotkun í landinu. Í því eru mörg góð og gagnleg ákvæði, er til kemur, en engin skaðleg, en skoða verður það þó sem undirbúningsspor, sem stigið verður e.t.v. til fulls bráðlega.

Að lokum lýsi ég yfir því, að iðnn. leggur með, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.