23.03.1942
Efri deild: 21. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

25. mál, íþróttakennaraskóli Íslands

*Frsm. (Jónas Jónsson):

Þetta mál hefur tafizt dálítið, af því að ég hef verið fjarverandi sökum lasleika. Þykir mér það verra, að það skyldi þurfa að tefjast.

N., sem hefur haft þetta mál til meðferðar, hefur gert á því nokkrar breyt., sérstaklega í samráði við Björn Jakobsson, forstöðumann íþróttadeildarinnar á Laugarvatni, og nokkra aðra íþróttamenn. Þessar breyt. eru allt orðabreyt., en ekki efnisbreyt. frá því, sem er í frv.

T.d. óskaði þessi maður eftir, að í staðinn fyrir íþróttaskóli yrði skóli þessi nefndur íþróttakennaraskóli, sem kemur oft fyrir í brtt.

Ég álít, að það þurfi ekki að fjölyrða svo mikið um þetta mál að öðru leyti. Það koma náttúrlega fram ýmsar skýringar við það hér í hv. d. Og frá mínu sjónarmiði var málið svo skýrt sem ég gat í grg. fyrir frv. Óska ég svo, að frv. fái að ganga áfram, en ef það vantar menn í hv. d. vegna veikinda, gæti skeð, að rétt þætti að umr. lokinni að fresta atkvgr.