16.03.1942
Efri deild: 16. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

3. mál, útsvör

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti ! hað er misskilningur hjá hv. frsm. n., að ég hafi talið óþarfa að fella niður a-lið 1. töluliðs 9. gr. sökum þess, að niðurjöfnunarnefnd væri í sjálfsvald sett, hvort hún legði útsvar á mann, sem atvinnurekstur ræki í sveitinni, eða gerði kröfu til skipta. Ég álít, það sjálfsagt, að niðurjöfnunarnefnd leggi á útsvör eftir l., eins og þau eru, og ef brtt. okkar verða samþ., eigi hún að leggja útsvör á allan þann atvinnurekstur, sem þar er talinn upp. Nú er það óþarfi að fella niður a.-lið 1. tölul. 9. gr., sökum þess, að það er einmitt tekið fram, að hann komi því aðeins til greina. að stafliðirnir í 8. gr. komi ekki til greina. Hann er aðeins um það, ef einhver atvinna er rekin, sem ekki þykir heyra undir neinn af þeim liðum, sem í 8. gr. segir. Það kann að vera, ef okkar till. nær samþ., þá sé það alveg útilokað, að hægt sé að reka slíka atvinnu, og liðurinn kann að því leyti að vera óþarfur. En ég sé ekki ástæðu til að fella hann niður, þó að till. okkar nái samþ., og ég sé ekki, að greinarnar brjóti í bág hver við aðra fyrir þetta. Ég stóð upp til þess að gera þessa stuttu aths., en ekki til að ræða það, sem fram hefur komið síðan ég talaði síðast, enda er það lítið. Það er aðeins eitt atriði, sem hv. 11. landsk. minntist á, sem gefur tilefni til að beina spurningu til hv. d. Hann upplýsti það, að úr einum hreppi, Presthólahreppi, hefðu komið 10 kröfur hingað til Reykjavíkurbæjar um skiptingu útsvara. Sennilega munu þá hafa komið víðar að af landinu kröfur um skiptingu. Finnst mönnum ekki, að allar bessar kröfur um skiptingu útsvara orsaki of mikla skrifstofuvinnu? Er ekki réttara, að sveitin eða bærinn, þar sem atvinnureksturinn er stundaður, hafi meiri rétt heldur en nú er til þess að leggja sjálf á útsvör? Mér kemur þetta mál svo fyrir sjónir. Eins og kom fram bæði hjá hv. 1. þm. N.-M. og fleirum, þá er það einn kosturinn, sem okkar till. fylgir, að það mundi verða miklu minni viðleitni á eftir til þess að fá sér „gerviheimili“, eins og hv. 1. þm. N.-M. nefndi svo. Mér finnst þetta vera töluverður kostur á till. út af fyrir sig, en svo er líka ýmislegt fleira, sem kemur til greina.

Mér þykja dómar, sem dæmdir hafa verið í þessum málum, harla einkennilegir. En ég ætla ekki að bera það á dómara landsins, að þeir hafi dæmt ranga dóma í þessum málum. En ég veit, að dómar, sem upp hafa verið kveðnir, brjóta algerlega í bág við þann tilgang, sem mér er kunnugt um, að hafi legið til grundvallar fyrir útsvarsl., þegar þau voru sett. Líklega hefur Alþ. þó ekki tekizt að láta vilja sinn koma nægilega skýrt fram. Í d-lið 8. gr. er skýrt tekið fram, að eigi maður lögheimili á fleiri en einum stað, og sé lagt á hann fullt útsvar í báðum stöðunum, þá á hann heimtingu á, að útsvarið sé numið burt á öðrum staðnum. Nú þekki ég einn mann, sem átti heimili á tveim stöðum. Hann v ar dæmdur til að greiða útsvar í þeirri sveit, þar sem hann hafði gert kröfu um, að útsvarið, samkv. þessu lagaákvæði, yrði numið burt. Mér er vel kunnugt um þetta, því að það var ég sjálfur, sem dæmdur var. Ég sé ekki annað en þetta brjóti algerlega í bág við ákvæði l., en mér dettur ekki í hug að segja, að dómarar hafi dæmt vísvitandi ranga dóma. Þessu máli var ekki vísað til hæstaréttar af þeim sökum, að þá var nýfallinn dómur út af öðru máli. Dómur þessi virtist vera á þann hátt, að ekki þýddi að vísa slíkum málum til dómstólanna lengur. Dómar, sem í þessum málum hafa fallið, virðast benda á það, að Alþ. hafi ekki tekizt að koma vilja sínum nógu skýrt fram, sem það hafði um þetta ákvæði, þegar útsvarsl. voru sett. Það er því full ástæða til, að útsvarsl. verði tekin til rækilegrar endurskoðunar og að lagaákvæðin verði gerð nægilega skýr, svo að dómar í þessum málum falli á sömu leið og Alþ. ætlaðist til með lögunum.