16.04.1942
Efri deild: 34. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

25. mál, íþróttakennaraskóli Íslands

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég held, að vafi sé á, hvort brtt. 146,2, frá menntmn., stendur til bóta. Ég vil aðeins benda á það í þessu sambandi, að það er nokkuð bindandi fyrir ríkið, sem á að reka skólann, að það fái ekki að ráða þriðja manninum í skólanefndina. Það er ætlazt til, að skólastjórinn á Laugarvatni sé einn nefndarmaður, íþróttafulltrúi ríkisins annar, en í staðinn fyrir, að kennslumálaráðuneytið veldi þann þriðja, skal koma læknir eða forustumaður í íþróttamálum. Þó að hv. nm. séu velviljaðir íþróttunum, hafa þeir hér um of snúizt á sveif með íþróttafélögunum. En það er ófært með skóla, sem ríkið rekur, að það fái ekki að ráða þriðja manni í skólanefndinni. Mér finnst hv. n. hafa verið of eftirlát við íþróttamenn, og það er ekki rétt, hvort sem þessi stofnun á í hlut eða önnur, að láta einstök félög innan þjóðfélagsins ráða , því, hvernig hún er rekin. Ríkið á að stjórna sínum stofnunum sjálft: Ég mun greiða atkv. með frv. eins og það verður eftir að 1. brtt. hefur verið samþ. Það er eðlilegt, að íþróttamenn setji slíkar kröfur fram, en hins vegar verður að athuga alla málavöxtu. Ég vil nota tækifærið til að benda á, að þegar íþróttafulltrúinn var skipaður, varð nasablástur mikill meðal íþróttamanna, sem var alveg óþarfur, af því að maðurinn var vel starfi sínu vaxinn. En mér þykir vænt um, að íþróttamenn hafa sýnt í þessu máli mikinn drengskap, eins og maður á kröfu til úr þeirri átt, og þessar till. þeirra bera vott um gott samstarf milli íþróttafélaga og íþróttafulltrúa, enda eru íþróttamenn nú orðnir mjög ánægðir með val fulltrúans. En þó að gott samstarf sé milli íþróttafélaganna og ríkisins, þá á ekki að taka af ríkinu þau völd, sem það á að hafa.