12.03.1942
Neðri deild: 18. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

33. mál, sala á prestsmötu

*Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Þetta litla frv., sem ég ber hér fram, er um breyt. á l. um sölu á prestsmötu, sem sett voru 1921, og er aðeins um það, hvernig andvirði prestsmötu, sem seld er, skuli ráðstafað.

Eins og kunnugt er, þá er þessi kvöð, prestsmatan, sem hvílir á allmörgum jörðum, upphaflega þannig til komin, að það voru lögð til viss staðar af söfnuðinum svo og svo mörg kúgildi, sem átti að vera til þess að halda uppi kirkju og kristnihaldi. Þessar kvaðir hafa haldizt á æðimörgum jörðum síðan og verið greitt af þeim samkv. verðlagsskrá, en þó ekki nema helmingur við það, sem prestsmatan gilti áður, þannig að það er aðeins hálft eftirgjald, sem greitt er fyrir hana núna, miðað við það, sem áður var. Það hafa margir ábúendur þessara jarða óskað eftir að losna við þetta gjald með því að kaupa það af sér, og til þess voru þessi l. sett árið 1921. Þetta hefur verið gert á mjög mörgum jörðum, og nú í ár munu umsóknir aldrei hafa verið fleiri, vegna þess að það er mjög hagstætt að kaupa hana undir þessum kringumstæðum, þegar verðlagsskráin er jafnhá og nú, en hún hefur verið mjög lág undanfarin ár, og matan er seld eftir meðaltali verðlagsskrár 10 síðustu ára.

Nú er það í l. frá 1921, að andvirði þessarar kvaðar, þegar hún er seld, skuli renna í prestlaunasjóð eða ríkissjóð, sem í þessu tilfelli er svo að segja sama. En kirkjurnar, sem þetta var upphaflega gefið til og ætlazt var til að nytu þess, njóta nú einskis af þessu. Hins vegar er nú þannig ástatt um ásigkomulag og hirðingu kirkna yfirleitt í landinu, að þær eru viðast hvar í hinu herfilegasta ástandi. Og það gjald, sem ætlazt var til, að þær fengju, hrekkur hvergi nærri til að halda þeim við, hvað þá til endurbóta á þeim síðar. Hins vegar er augljóst, að það verður að verja til þeirra meiru fé en áður, svo framarlega sem þær eiga að vera í nokkru samræmi v ið þær menningarkröfur, sem nú eru gerðar, og þá virðist eðlilegast, að fyrst sé tekið til þess, sem upphaflega var ætlazt til, að þær fengju. Þetta getur ekki heldur, eins og nú er komið, skipt verulegu máli fyrir ríkið, að fá andvirði prestsmötunnar á viðkomandi stöðum, en gæti í mörgum tilfellum orðið til þess að laga gamlar kirkjur og endurbyggja þær á sumun stöðum.

Ég held, að þetta frv. þurfi ekki fleiri skýringa. Það er ekki svo margbrotið. En ég vildi leyfa mér að óska þess, að því verði vísað til 2. umr. og fjhn.