01.04.1942
Efri deild: 26. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

33. mál, sala á prestsmötu

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég veit ekki, hvar þetta mál lendir í n., en ég held, að það eigi heima í fjhn., og ég vildi beina til n., sem fær málið, nokkrum orðum og biðja hana að athuga vissar hliðar á þessu máli.

Það, sem mig fyrst langar til að vita frá n. og hv. neðrideildarnefnd hefur sýnilega leitt hjá sér að afla upplýsinga um, er, hve stór upphæð það er, sem búið er að selja af prestsmötu og á nú að taka frá prestlaunasjóði og afhenda einstökum kirkjum. Þetta langar mig til að fá að vita, áður en atkv. verða greidd um málið.

Í öðru lagi langar mig til að vita, hvort hér er að ræða um alla prestsmötu. Eftir því, sem ég veit bezt, er hún til orðin á dálítið misjafna vegu, og því vafasamt, hvort þær forsendur, sem gilda í þessu frv., eigi að gilda um alla prestsmötu.

Í þriðja lagi langar mig til að vita, hve mikið það er, sem eftir er að selja af prestsmötu, bæði af hve mörgum jörðum hún er og hve mikil hún er samtals, sem maður getur búizt við, að fari frá prestlaunasjóði í framtíðinni og renni sem beinar tekjur til kirkna.

Þetta þrennt óska ég, að hv. fjhn. athugaði og gæti gefið upplýsingar um, áður en ég greiði atkv. um málið, því að þetta skiptir allt miklu máli í mínum augum og hefur áhrif á, hv er afstaða mín verður til málsins. Ef biskup landsins hefur rækt sínar skyldur og haft sæmilega skrá um prestsmötu, ætti að vera tiltölulega auðvelt að fá þessar upplýsingar, og sömuleiðis komu 1935, þegar breytt var síðast lögum um kaup á prestsmötu, upplýsingar fram í málinu, sem gott væri nú að rifja upp.