27.04.1942
Efri deild: 41. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

33. mál, sala á prestsmötu

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti ! Ég vil aðeins benda á, að nú, þegar búið er að viðurkenna, að gjafir til kirkjunnar á að nota í öðru skyni en til var ætlazt í upphafi, er ekki eftir annað, sem mælir með frv., en það, að það sé þörf vegna kirkjuhaldsins, að ríkissjóður leggi eitthvað fram. Ég er sammála um það, að ríkið styrki kirkjuna, en ekki á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í þessu frv,. Það er engin þörf, að ríkissjóður leggi fé fram til beztu kirknanna, en skilji þær út undan, sem þörf hafa meiri. Í lélegustu kirkjunni er hægt að skríða upp undir gólfið, af því að grunnurinn er undan henni. Sú kirkja fær enga mötu og hefur aldrei fengið. Í þessu er ekkert réttlæti. Ef á að hjálpa mönnum til að halda kirkjum sínum við, á að láta það ganga jafnt yfir allar kirkjur, nema hvað á að byrja á þeim lélegustu.