10.03.1942
Neðri deild: 16. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (867)

28. mál, ársskýrslur síldarverksmiðja ríkisins

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Það er eins og venja er til, þegar hv. þm. Ísaf. flytur hér einhverja skýrslu, að tiltölulega lítill hluti af því, sem hann segir, er sannleikanum samkvæmt.

Ég kom inn í miðri ræðu hans og festi ekki fyllilega athygli við allt, sem hann sagði. Þó bárust mér til eyrna nokkrar fullyrðingar hans.

Það mun vera rétt, að í fjárl. mun ríkisstj. hafa verið gefin heimild til að kaupa þessa verksmiðju, sem er bundin því, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins sé því samþykk. Ég átti tal um þetta við formann síldarverksmiðjanna, og hann kvað vera skiptar skoðanir um það. Ríkisstj. var hins vegar á einu máli um þetta, og ég skal meðal annars fullyrða, að ráðh. Alþfl. í stjórninni hreyfði aldrei neinum mótmælum. Það var hæstv. viðskmrh., sem beitti sér fyrir þessu innan ríkisstj., og á milli okkar varð nokkur ágreiningur, en ráðh. Alþfl. hreyfði engum andmælum. Og þegar ríkisstj. samþ. að festa kaup á þessari verksmiðju, þó að verksmiðjustj. síldarverksmiðjanna væri ekki á einu máli, þá var það fyrir eindregnar óskir frá útgerðarmönnum og sjómönnum á Norðfirði og mörgum öðrum, sem töldu, að hagsmunum þeirra væri bezt borgið með því, að ríkisstj. tæki að sér starfrækslu þessarar verksmiðju. Út af ásigkomulagi verksmiðjunnar vil ég segja það, að það er lítið lof um Jónas Guðmundsson, flokksbróður þessa hv. þm., ef hann hefur skilið svo við verksmiðjuna, að ekki sé hægt að starfrækja hana. En svo langt gengur rógmælgi þessa hv. þm., að hann skirrist ekki við að ámæla sínum eigin mönnum til þess að reyna að ófrægja aðra. En Jónas Guðmundsson lýsti henni á fundi í bankaráði Landsbankans mjög á aðra lund en þessi hv. þm. hefur gert, og lagði mjög með því, að hún yrði keypt af ríkinu, svo að starfræksla hennar yrði enn tryggari en ella.

Það kom fram hjá þessum hv. þm., að kaup á minni verksmiðjum væru aðallega gerð til þess að styrkja þá, sem ættu stærri verksmiðjur. Ég skil vel, hvað á bak við þetta býr. Hann er að drótta að mér, sem þá var yfirmaður þessara mála, að ég hafi verið að hengja þennan bagga á síldarverksmiðjurnar, til þess að Kveldúlfur gæti grætt sem mest á sínum verksmiðjum. En ég man ekki betur en að hinn mikilhæfi látni formaður Alþfl., Jón Baldvinsson, væri mikill hvatamaður þess, að fyrsta sporið var stigið í þessa átt, nefnilega kaupin á Sólbakkaverksmiðjunni. Var hann að gera það í því skyni að gera sjómönnum böl? Var hann að gera það til þess að bæta hag einkaverksmiðjanna? Hvers vegna var hann að því? Af því að Útvegsbankinn hefði hag af því? Nei, af engu þessu, heldur vegna þess að hann áleit réttilega, að í þessu efni bæri að taka tvenns konar tillit. Annars vegar, að þeir beri sem mest úr býtum, sem sjóinn stunda og ríkið hefur reist þessar verksmiðjur fyrir fyrst og fremst, en hins vegar bæri ekki heldur að gleyma því, að við hliðina á hagsmunasjónarmiðum þessara manna kemur til greina sjónarmið þess fólks, sem býr á þeim stöðum, þar sem þessar verksmiðjur eru, og sér fram á hættuna á því, að rekstur þeirra stöðvist í erfiðu árferði, ef augnablikssjónarmið eru látin ráða. Það er þetta sjónarmið, sem hefur valdið því, að Jón heit. Baldvinsson beitti sér fyrir því, að Sólbakkaverksmiðjan var keypt. Og það er þetta sjónarmið, sem hefur valdið því, að Húsavíkurverksmiðjan var keypt. Og það var þetta sjónarmið, sem réð því, að hæstv. viðskmrh. beitti sér fyrir því, að ríkisstj. keypti Norðfjarðarverksmiðjuna.

Það er gamla sagan, sem endurtekur sig hjá þessum hv. þm., að bera öðrum soralegustu hugsanir á brýn, en stýra alltaf fram hjá kjarna málsins. Og hann hirðir jafnvel ekkert um, þótt hann ausi for á mætustu samherja sína, eins og hann hefur gert í þessu efni, bara ef hann heldur, að það geti orðið til þess að sverta aðra.