10.03.1942
Neðri deild: 16. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (869)

28. mál, ársskýrslur síldarverksmiðja ríkisins

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Það er nú ekki löng aths.

Hv. þm. Ísaf. lýsti yfir því, að mér hefði verið kunnugt um, að verksmiðjustjórnin væri á móti þessu, og vitnaði til bréfs, sem hann var að lesa hér upp úr. Ég á ekki erfitt með að trúa, að þetta sé ekki aðeins hálfur sannleikur, heldur að það sé ranglega lesið.

Hvað sem í þessu bréfi stendur, þá lýsti hv. þm. yfir því í seinni ræðu sinni, að í verksmiðjustj. hefðu alls ekki verið skiptar skoðanir um málið. Hún hefði öll verið sammála um að kaupa ekki. En í fyrri ræðu sinni sagði hann, að hann hefði spurt formann síldarverksmiðjanna um álit verksmiðjustjórnarinnar, og hann hefði svarað, að menn væru ekki á eitt sáttir um málið. Í fyrri ræðu sinni segir hann, að það séu skiptar skoðanir innan verksmiðjustj. um málið, í þeirri síðari segir hann, að það séu ekki skiptar skoðanir um það. Og ef hann vildi tala í þriðja skiptið, þá færi fyrir honum á líkan veg. Þetta er heldur ekkert óvenjulegt með þennan hv. þm., sem aldrei leggur neina áherzlu á að halda sér við sannleikann.

Annars var aðalefnið í ræðu hans það, að ég væri að skjóta mér bak við Stefán Jóhann, Jónas Guðmundsson og Jón heit. Baldvinsson. Ég bar nefnilega fram afstöðu flokksbræðra þessa hv. þm. í þessu máli til að sanna, að það, sem hann segir, er ekki á rökum reist. Rök og sannleiki frá andstæðingum þessa hv. þm. þýða lítið, en ef manni tekst að króa hann inni með rökun hans eigin flokksbræðra, þá brestur hann stundum kjark til að endurtaka ósannindin. Ég var ekki að skjóta mér á bak við. Ég tilgreindi sömu vitnin sem þessi maður var að kasta rýrð á. Í fyrsta lagi með því að telja gerðir ríkisstj. óréttlátar, í öðru lagi með því að telja verksmiðjuna ónýta, sem Jónas Guðmundsson hefur keypt handa bænum og byggt miklar hagnaðarvonir á, og í þriðja lagi, að það hafi verið rangt að kaupa svona verksmiðju handa ríkisverksmiðjunum og starfrækja hana í sambandi við þær. En ég veit ekki betur en að þetta hafi verið ráðlagt af Jóni heitnum Baldvinssýni. Ég ætla ekki að kasta rýrð á þessa menn, og ég ætla ekki heldur að skjóta mér á bak við þá, en ég ætlaði að umlykja þennan hv. þm. og neyða hann til að viðurkenna staðreyndirnar með því að benda honum á álit hans eigin manna á þessum málum, og króa hann þannig inni, eins og mér líka tókst.

Þetta mál er svo frá minni hendi útrætt. Það er upplýst, að þetta var gert í því skyni að létta undir með lífsbaráttu sjómanna og verkafólks á þeim stað, sem verksmiðjan er. Það er upplýst, að stefnan, sem fylgt hefur verið, var tekin upp af foringja Alþfl. og studd af honum frá öndverðu, og það er rökstudd stefna og rétt.

Út af þáltill., sem hér liggur fyrir, vil ég segja það, að ég get fallizt á, að stjórn þessara verksmiðja gefi árlega út skýrslu um starfsemi þeirra.