17.04.1942
Efri deild: 35. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

45. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Jónas Jónsson:

Mér kemur til hugar, hvort ekki væri rétt að gera nýja viðbótarbrtt. þess efnis, að torveldaðar yrðu breytingar eða tilfærslur á listum við kosningar. Ég nefni til dæmis, að af 54 mönnum, er kusu lista Framsóknarflokksins á stað nokkrum hér á landi, tókst einum fjórum að breyta röð listans þannig, að færa mann úr 1. sæti niður í 3. sæti og fella hann frá kosningu. Þessir fáu menn gátu varnað því, að hinn raunverulegi vilji kjósenda listans kæmi fram. Þetta veldur innbyrðis tortryggni með mönnum á sama lista og skapar öryggisleysi, þegar frambjóðendur standa berskjaldaðir gegn því, að fáeinir kjósendur, oft ævintýramenn eða skoðanaleysingjar, geti leikið sér að því að breyta röð á framboðslista, er ráðamenn og aðrir flokksmenn hafa komið sér saman um. Ég mun þó ekki bera þetta fram sem brtt. um sinn.