21.04.1942
Efri deild: 38. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

45. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Það var réttilega fram tekið hjá hv. frsm. allshn., að málið hefur ekki verið rætt innan hennar. Ég skal taka fram, að ég er honum sammála um, að ekki sé rétt að tefja málið með brtt., einkum þar sem þessar breytingar þurfa að komast gegnum þingið fyrr eða síðar. Ég vil benda á, að svipað ákvæði í kosningal. mun vera síðan 1916. Þá fóru fram kosningar til landskjörs hér í landinu, og þá var farið eftir þeirri reglu að strika út af listunum. Allir muna, að þá var kona efst á lista og hún var strikuð út, svo að hún náði ekki kosningu. En þó að svo hafi viljað til, er það kunnugt, að hér í Reykjavik eru þessar tilstrikanir ekki notaðar neitt að ráði. Og í þessu ákvæði felst réttur hinna óánægðu kjósenda til að geta breytt listanum í samræmi við óskir sínar, og þennan rétt má ekki torvelda. Svona horfir málið í augnablikinu fyrir mér. Hæstv. fjmrh. taldi rétt að athuga málið,. enda er nægur tími til stefnu. Af þessum ástæðum, sem ég hef greint, er ég móti því að setja brtt. um þetta ákvæði í samband við frv.