10.04.1942
Efri deild: 28. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

32. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

Jóhann Jósefsson:

Hv. allshn. hefur ekki getað fallizt á að mæla með því, að mín brtt. við þetta frv. verði samþ., og er það kannske vorkunnarmál, að n. telur, að mál það, sem brtt. mín er um, sé of stórt til þess að tengja það á þennan hátt við það frv., sem fyrir liggur. Hitt er hv. allshn. í raun og veru sammála um, eins og hún hefur tekið hér fram, að það sé nauðsynlegt, að kaupstaðalönd séu opinber eign, annaðhvort. ríkis eða bæja. Og það er eðlilegt, að n. hafi ekki myndað sér fasta skoðun um það, hvort heppilegra er í Vestmannaeyjum, að lóðir og lönd þar séu ríkis- eða bæjareign, og kannske meðfram af því, að ekki hafa legið hér fyrir nægilega mikil gögn í málinu.

Ég rökstuddi að vísu brtt. mína við 1. umr., en ég skal játa, að það er margt fleira, sem þar kæmi til greina, sem ég hirti þá ekki um að telja fram. N. sagði, að fram hefðu komið raddir um það, að ráðstöfun lóða í kaupstöðum og kauptúnum hefði verið óheppileg, svo að ekki væri fastar að orði kveðið. Ég held, að þetta geti tæplega átt við Vestmannaeyjar, því að þar hafa ekki orðið stórar misfellur á þessu sviði nema af hálfu ríkisins. Stærstu misfellurnar og alvarlegustu hneykslin í því máli eru aðgerðir ríkisvaldsins. Er ég tilbúinn að sýna fram á það, ef n. léki hugur á að vita, hvernig ríkisvaldið hefur farið svona misjafnlega vel með lóðir austur þar.

Nú skilst mér, að n. sé fús til að fallast á, að Vestmannaeyjar eignist part af sínu landi, minni eða stærri, eftir því sem ástæður væru til, ef málið væri flutt í öðru formi. Ég sé ekki, að það sé svo stórkostlega athugavert, hvort Vestmannaeyjar eiga kaupstaðinn eða ríkið, því að landslög ná jafnt yfir það, hvort sem kaupstaðurinn eða ríkið á landið, en ég tel það æskilegast, að kaupstaðirnir eigi það land, sem þeir standa á.

Ég get tekið undir það með hv. sessunaut mínum, að ég skal taka till. mína til baka við þessa umr., en veit ekki, hvort ég geri það nema til 3. umr., en til vonar og vara vil ég biðja hæstv. forseta að biða með atkvgr. um hana til 3. umr.