08.04.1942
Efri deild: 28. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

32. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Við 1. umr. benti ég n. á, að ég teldi miklu máli skipta, að sett yrðu l., sem fyrirbyggðu ýmsa misnotkun, sem átt hefur sér stað, bæði af hálfu þess opinbera og eins einstaklinga, á þessum lóðum í seinni tíð. Ég benti henni á að tala við framfærslumálanefnd ríkisins, sem mundi vera að vinna að samningu lagauppkasts, sem ætti að fyrirbyggja þetta um erfðafestulönd. Það uppkast mundi vera komið langt áleiðis, og í svipuðu sniði mundi einnig mega hafa l. um lóðasölu. Mér er kunnugt um, að n. hefur átt tal við framfærslumálanefnd um þetta og kannske gert sér þar með ljósara en áður, hvað hér er á seyði og hve mikil þörf er á löggjöf í þessu efni. Ég heyrði á hv. form. n., að hann teldi, að n. sem slíkri bæri engin skylda til að hugsa um þessa hlið málsins. Það má að vísu segja svo, en mín afstaða til málsins er sú, að ég hef meiri trú á, að eitthvað verði hafizt handa, ef ríkið er eigandinn en ef það eru bæirnir. Og þó að ég sé með því, að í framtiðinni eigi hver bær sitt land, þá vil ég, til þess að síður seinki löggjöf um þessa hluti, ekki láta bæina eignast þessi lönd, fyrr en slík löggjöf er komin, og mun ég því bæði greiða atkv. á móti brtt. og frv. sjálfu.