16.04.1942
Efri deild: 34. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (962)

87. mál, útgáfa lagasafnsins

*Sigurjón Á Ólafsson:

Ég vildi spyrja hv. flm. þessarar till. að því, hvort hann hafi gert sér grein fyrir því, hvernig form ætti að vera á útgáfu þessara laga, sem hér á að endurskoða.

Það kemur upp í huga mínum sú útgáfa, sem gefin var út 1932, „Gráskinna“, sem nú er því miður ekki í jafnmargra höndum og ætti að vera, en þykir viðamikil að hafa í einu lagi. Á Norðurlöndum, þar sem slík lagasöfn eru gefin út, eru þau gefin út í flokkum með tilliti til atvinnu og efnis laganna, og er þá í sérstökum flokki t.d. allt, sem við kemur siglingum og fiskveiðum. Hjá Svíum er í sérstakri bók allt, sem við kemur landbúnaði, og í sérstakri bók það, sem við kemur iðnaði. Þá er haldið sérskildu öllu, sem við kemur réttarfarslöggjöf og slíkum málum. Þetta held ég, að gott væri að hafa í huga, þegar verkið yrði unnið. Auðvitað mundi það kosta meira, ef þessi skipting yrði viðhöfð, en þeir mundu verða margir, sem áhuga hafa fyrir vissum hlutum og vildu eignast bækurnar, sem ekki kærðu sig um að eignast öll lög um öll efni, sem gefin yrðu út. Vegna þessa vildi ég spyrja hv. flm., hvort hann hafi gert sér grein fyrir því, í hvaða formi þetta lagasafn eigi að vera.

Ég vildi enn fremur spyrjast fyrir um það, hvort nú þegar sé ákveðinn einhver sérstakur maður, sem annist þetta verk. Ef ég man rétt, var svo til ætlazt árið 1931 eða 1932, að það væru fleiri en einn maður, sem með það færu. (JJ: Nei, það var aðeins um einn að ræða, Ólaf Lárusson.) Ég býst við, að heppilegt sé að fela einhverjum einum manni umsjón verksins, en vafamál, hvort varlegt sé, að sá eini maður ráði því, hvernig formið eigi að vera.

Ég er alveg sammála hv. flm. í því, að nauðsynlegt sé, að handhæg lögbók sé til á hverjum tíma. Það er bara nauðsynlegt, að ekki sé of skammur tími til að vinna verkið. Það er nú orðið svo langt síðan „Gráskinna“ kom út, að menn eru hættir að átta sig á því, hvað eru lög, nema þá alþingismenn og þeir, sem hafa stjórnartíðindin.