15.04.1942
Neðri deild: 35. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

32. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

*Sveinbjörn Högnason:

Hv. þm. Ísaf. hefur leitazt við að sannfæra þm. um, að það sé ekki nægilega tryggt, að lóðir og jarðir fari ekki í brask, þó að ríkið eigi þær. Þetta er í sjálfu sér enginn nýr fróðleikur, að hægt er stundum í braski að nota leigusamning líkt og eignarhald væri að einhverju leyti og verzla með hann eða braska. En hv. þm. Ísaf. hefur ekki tekizt að sannfæra þdm. um, að hættan á braski sé minni eða jafnlítil, ef lóðirnar eru seldar, því að þá mundi það fyrst byrja fyrir alvöru. Við vitum, hvernig farið hefur í Reykjavík: Landið var opinber eign, bæjareign, og hversu miklar eru lóðirnar, sem einstaklingar eru nú búnir að eignast, hve mikið hefur brask hækkað þær í verði, síðan bærinn átti þær, og hver er ávinningurinn? Núna nýlega hef ég heyrt af litlum lóðarskika, sem seldur var í miðbænum og fór á 3 hundruð þús. kr. Dettur nokkrum í hug, að slíkt ástand hefði skapazt, ef ríkið hefði átt og ekki látið landið, sem bærinn stendur á?

Hv. þm. Ísaf. segir, að lóðirnar á Siglufirði hafi verið leigðar fyrir 10–15 kr. á ári til ákveðins árafjölda, en einstaklingar, sem leiguréttinn fengu, hafi grætt svo, að skipti tugum þúsunda, á því að selja hann öðrum. Það er aðeins vegna þess, að ríkið hefur ekki verið trútt sinni stefnu að lána ekki lóðirnar til annars en reisa hús u þeim. Og aldrei kaupa menn leigurétt til 50–60 ára eins háu verði í braski og þeir mundu kaupa eignar lóðir. Hv. þm. vill láta afhenda landið bæjarstjórninni, sem mundi ekki standa eins fast móti því og ríkið að selja þær einstaklingum til að braska með.

Það væri líka í meira lagi undarlegt að fara að selja lóðirnar undan síldarverksmiðjum ríkisins til þess að láta einhverja græða á þeim síðar. Hver þm., sem fær sig til að fylgja því, hefur meir í huga hagsmuni Siglufjarðar og einhverra annarra aðila en ríkísins. Alþ. ber að gæta hagsmuna ríkisins. Ríkið á t.d. lóðir í Vestmannaeyjum og dettur ekki í hug að sleppa þeim, því að það yrði Vestmannaeyjum til bölvunar. Ég vil skora á n. að taka til athuganar, hve mikilla hagsmuna ríkið á þarna að gæta. Þm. upplýsir, að leiga sé 10–15 kr. af lóð, og bæjarstjórnin í bréfi sínu, að tekjurnar nemi samt sem áður 10–15 þús. kr. alls á ári. Hvað mundu þær þá síðar verða, miðað við þær upplýsingar, sem hv. þm. hefur a.m.k. gefið í skyn um verðmæti lóðanna nú? Mér virðist, að hér sé ekki um afhending neinna smáhagsmuna að ræða.