15.04.1942
Neðri deild: 35. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

32. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

Pétur Ottesen:

Mig rekur minni til þess og vafalaust marga fleiri, að meðan samstarf Framsfl. og Alþfl. var í góðu gengi, stóðu þessir flokkar sameiginlega að því að taka gersamlega fyrir sölu opinberra jarðeigna og lóða, og ekki nóg með það, heldur voru samtök með þeim um að beita sér fyrir, að ríkið notaði sér erfiðleika bænda á þeim árum til að kaupa af þeim jarðirnar, svipta þá sjálfseignarrétti á býlum sínum. Síðan hefur ríkið gert allmikið að þessu, og hugsjón þessara flokka færzt þeim spöl nær marki.

Nú bendir þetta frv. til, að orðin sé einhver breyt., veruleg straumhvörf hjá sumum þm. þessara flokka. Tveir framsóknarmenn í Ed. eru meðal flm. þessa frv. um sölu kirkjujarðarinnar Hvanneyrar, sem er mjög verðmæt eign, og hér hefur einn af þm. Alþfl. beitt sér fyrir því sama. Ég álít, að mál þetta eigi að ganga til n., og án þess að ég sé nokkuð að segja um afstöðu mína til einstakra atriða frv. að því búnu, vildi ég lýsa mjög mikilli ánægju minni yfir þeim straumhvörfum, sem virðast vera að gerast í þessum málum. Að því er snertir jarðeignir í sveitum, er það bjargföst sannfæring mín, að tryggingin fyrir framtíð sveitanna liggi að mjög miklu leyti í því, að þar verði sem flestir sjálfseignarbændur, og því fagna ég stefnubreyt.